28.10.1948
Sameinað þing: 9. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2074 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

Marshallaðstoðin

Finnur Jónsson:

Ég ætla nú ekki að fara að skattyrðast við hv. 4. landsk. þm., enda er það svo, að ég kenni í brjóst um hann eftir þá útreið, sem hann og hans flokkur hafa fengið við þessar umr. Ég kenni í brjósti um hann fyrir það að þurfa að standa upp á Alþ. og kúga hina aðra flokksmenn sína til að standa að þessum málstað, sem hann nú flytur. Ástæðan fyrir því, að þessi málstaður er hér borinn fram, er í rauninni allri þjóðinni augljós. Og honum sjálfum er það svo augljóst, að flokkur hans er þegar farinn að tapa á þessum málstað meðal þjóðarinnar. Einhvern tíma varð mælirinn að verða fullur. Og hann er sannarlega orðinn fullur nú. Það vita allir, að fylgi kommúnistaflokka í öllum nálægum löndum hefur stórhrakað. Og það vita líka allir, af hverju fylginu hefur hrakað. Á meðan fólkið stóð í þeirri meiningu, að þessir flokkar væru róttækir umbótaflokkar, sem vildu gera meira til að bæta kjör fólksins og meira í frelsisátt en aðrir flokkar, þá tókst þessum flokki í heild að blekkja verulegan hluta kjósenda til fylgis við sig. Nú er þessu ekki lengur til að dreifa. Nú hafa menn séð úlfseyrun á þessum flokki. Og þegar þau voru komin í ljós, hefur sú reynsla orðið, að fylgi þessa flokks er alls staðar að hrynja. Það er ekki lengur hægt að telja almenningi trú um, að þetta sé róttækur og frjálslyndur umbótaflokkur, enda er þetta þröngsýnn afturhaldsflokkur og ekkert annað, afturhaldsflokkur, sem hefur, eins og ég sagði áðan, tekið við þar, sem Hitler og Göbbels hættu, og er um margt kominn lengra í einræðis og kúgunar átt heldur en átti sér stað í Þýzkalandi, þegar það var upp á sitt hið versta.

Ég ætla ekki að svara köpuryrðum þessa hv. þm. að öðru leyti en því, að mér er miklu betur kunnugt um, hvernig hagað var framboðum Alþfl. við síðustu kosningar heldur en honum. Og ég hef gefið þessa yfirlýsingu um framboð forseta flokksins, Stefáns Jóh. Stefánssonar, sem ég get fengið staðfesta af mörgum vitnum. En þessi hv. þm. hefur aftur á móti ekkert annað fyrir sinni staðhæfingu en sitt vonda skap yfir því að vera hrakinn mót vilja sínum út í Vestmannaeyjar til að tapa þar fylgi flokksins. Og ég get ósköp vel fyrirgefið honum, þótt hann sé skapvondur. Hann hefur oft verið það í minn garð áður, og það get ég vel þolað. En hitt get ég varla þolað án þess að aumkast, að sjá það hlutskipti, sem hann og hans flokkur hefur nú hér á Alþingi.