17.12.1948
Neðri deild: 43. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Ég flyt hér brtt. á þskj. 251 í sambandi við d-lið 29. gr., þar sem svo er fyrir mælt, að viðbótargjald fyrir innflutningsleyfi skuli greiða af innflutningsleyfum fyrir rafmagnstækjum til heimilisnota, öðrum en eldavélum og þvottavélum, 100% af leyfisfjárhæð, en af leyfum fyrir þvottavélum 50%. — Brtt. mín er á þá leið, að þessi liður falli niður. Það er í rauninni óþarft að skýra þessa brtt. Allir vita, að tilfinnanlegur skortur er á tækjum til heimilisnota, t.d. þvottavélum, sem verða að teljast nauðsynleg heimilistæki. Munar gífurlega fyrir húsmóður að hafa vélar til þvotta eða gera það upp á gamla móðinn, þar sem þess er kostur. Sama er að segja um straujárn. Mörg heimili eru þannig sett, að ekki er hægt að hita önnur járn til þess að draga á lín og fatnað, en með rafmagni. Þá eru það hraðsuðupottar og hitunarplötur. Margir neyðast til að elda allt með hitunarplötum inni í herbergjum sínum, og verður að teljast afar ósanngjarnt að skattleggja þau hitunartæki, sem fólk hefur til þess að elda með, þó að þau séu ekki unnin í landinu sjálfu. — Ég vil því leyfa mér að mæla eindregið með því, að þessi liður verði felldur niður. Helzt hefði ég kosið, að allt frv. yrði fellt.