03.12.1948
Sameinað þing: 24. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2081 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Einar Olgeirsson:

Aðeins örfá orð út af því, sem hv. þm. G-K. sagði. Ég býst við, að hann mundi vera búinn að kalla saman fund í utanrmn., ef ekki væri þannig mál með vexti, að það væri talið nægja að ræða málin innan flokksstjórnanna; og ég er hræddur um, að það sé kominn sá háttur á, að það sé talinn óþarfi að vera að tala við fulltrúa Alþ.

Hitt þótti mér svo vænt um, að í yfirlýsingu hans kom fram staðfesting á því, að Bandaríkin hefðu litið svo á, að þeim bæri ekki skylda til að fara með her sinn úr landinu fyrr en að friðarsamningum loknum. Þetta gerir sem sagt ljóst, hver var hin „juridiska“ forsenda Bandaríkjanna fyrir því, að þau buðu okkur byrginn með þrásetu hersins.