14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2082 í B-deild Alþingistíðinda. (2945)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. sagði í svari sínu, að ríkisstj. hefði ekki fengið neinn sáttmála. Ég spurði um uppkast að sáttmála. Ég bjóst ekki við, að sáttmálinn yrði lagður fyrir ríkisstj. alveg tilbúinn, og hitt þykir mér mjög óeðlilegt, ef engin uppástunga hefur komið eða engar upplýsingar liggja fyrir, þegar ríkisstj. tekur slíkar ákvarðanir eins og þær að senda hvorki meira né minna en helming ríkisstj. utan. Og ég vil leggja áherzlu á það, að nú þegar á þessari stundu verði gefnar upplýsingar um þetta, svo framarlega sem þær eru fyrir hendi, upplýsingar um það, ef einhvert uppkast er þegar til eða tilmæli hafa komið um þátttöku Íslands í slíku bandalagi. Þá er ekki seinna vænna, að viðkomandi íslenzkir aðilar fjalli um málið. Ég vil minna á það í því sambandi, að það hefur komið fyrir áður, að það hafa komið plögg frá öðrum þjóðum til okkar, tilmæli um hernaðarbandalag, og sjálfur núverandi forsrh. var þá utanrrh., þegar slík tilmæli komu. Í þeirri tilkynningu um hernaðarbandalag fólst dulbúin tilkynning um yfirvofandi hernám landsins. Ríkisstj., núverandi forsrh. var þá utanrrh., leyndi Alþ. þessum tilmælum. Ég vil þess vegna, svo framarlega sem í nokkru formi liggja fyrir þær upplýsingar, sem nú hafa verið svo þungar á metunum, að ríkisstj. hefur allt í einu tekið ákvörðun um að senda helming ráðh. vestur um haf, mælast til, að þær verði lagðar nú þegar fyrir Alþ. og utanrmn. Alþ. Það eru skýlaus lagafyrirmæli, að utanríkismál skuli lögð fyrir utanrmn. Alþ. Það eru lögbrot, ef Alþ. og utanrmn. Alþ. eru leynd slíkum tilmælum, sem þá mundu liggja hér fyrir.

Ég er hræddur um, að okkar þjóð verði til athlægis um allan heim fyrir að senda helming ríkisstj. til annarrar heimsálfu til að rannsaka málið. Það er siður, að utanrrh. fari í slíkar ferðir og þá með þeim mönnum, sem eru sérstaklega til þess fallnir, og venjulega í samráði við utanrmn. Alþ. Ég vil taka það fram, að ef það er rétt, að ríkisstj. væri engar ákvarðanir búin að taka í þessu máli, þá er undarleg sú yfirlýsing, sem nú hefur komið fram frá ríkisstj. Ég hlustaði á viðtal við utanrrh. okkar í íslenzka útvarpinu., sem fór fram í New York. Það virðist svo sem ríkisstj. fáist til að tala meira, þegar hún er komin vestur um haf. Þeir virðast þar hafa þá menn, sem þeim þyki ástæða til að segja frá hlutunum, en þeir hafa lítið við Alþ. Íslendinga að segja. Utanrrh. segir í fyrri hluta þessa viðtals, að ríkisstj. sé ekki búin að taka ákvörðun um, hvort hún muni verða með eða móti Atlantshafssáttmálanum, en þegar fram í viðtalið kemur, segir hann hins vegar, að einu mennirnir á Íslandi, sem séu á móti sáttmálanum, séu kommúnistar, sem hann segir, að séu um 10% af þjóðinni. Ef utanrrh. skyldi hafa átt við Sameiningarfl. alþýðu — Sósfl., þá mátti hann vita, að það er nær því að vera 20% þjóðarinnar, sem honum fylgir. Þar að auki er það svo með hans eigin flokk, að trúnaðarmenn flokksins segja sig úr honum vegna afstöðu flokksins til Atlantshafssáttmálans. Það var sérstaklega undarlegt í þessu sambandi, að í fyrri hluta viðtalsins lýsti utanrrh. því yfir, að verið væri að athuga, hvort Íslendingar yrðu með eða á móti Atlantshafssáttmálanum, en í síðari hlutanum, að það væru engir nema einn ákveðinn flokkur á Íslandi á móti sáttmálanum. Er ríkisstj. búin að komast að niðurstöðu, áður en hún framkvæmir rannsóknina? Ég vil aðeins vekja athygli á því, að þegar utanrrh. Íslands talar svona við útlenda menn, þá er tími til þess kominn, að ríkisstj. tali við Alþ. og segi því, hvernig þessi mál standi.