14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (2946)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég hjó eftir því, eins og hv. 2. þm. Reykv., að utanrrh. vor taldi, að vera mundi heldur minna af kommúnistum hér heima en er. Ég býst við, að utanrrh. álíti, að helmingur flokksins séu þegnlegir íslenzkir borgarar, en hreinir kommúnistar ekki nema 10%. — Út af fyrir sig get ég skilið, hve hv. 2. þm. Reykv. er óánægður með það, hvað fáir fundir eru haldnir í utanrmn., því að þeir munu hafa verið í fæsta lagi upp á síðkastið. Mér finnst alveg rétt að tala hér af hreinskilni, ekki sízt þegar form. þessa flokks finnur, að þetta er ekki eins og það á að vera. Þessu er líka þannig háttað, að það er sérstök ástæða, sem liggur til grundvallar því og er hv. þm. ljós. Í lýðræðisríkjunum eru til menn, sem ekki fylgja sínu landi, heldur eru á móti því. Þetta er orðið mjög áberandi, þannig að í mörgum löndum hafa helztu menn þess flokks, sem hv. 2. þm. Reykv. telst til, lýst því yfir, að þeir ætli að hjálpa óvinunum, ef á löndin verði ráðizt. Þetta er raunveruleg alvara, að hjá lýðræðisþjóðunum eru menn, sem vilja ljá óvinum landsins lið, ef það bara eru Rússar. Ástæðan til þess, að hér er ekki talað um þetta mál í utanrmn., eins og ætti að vera, er blátt áfram sú, að kommúnistar eru gagnvart þjóð sinni eins og þeir væru útlendingar, og þá er ekki hægt að treysta þeim eins og Íslendingum, og þess vegna er það, að mér skilst, að ekki er hægt að framkvæma þingstjórn að þessu leyti. Það eru til hér útlendir menn með útlendan hugsunarhátt. Ég vil benda hv. þm. á, að þetta er ekki ný bóla hér. Ég vil enn fremur benda hv. 2. þm. Reykv. á það, að þegar hans flokkur var í ríkisstj. og a. m. k. á yfirborðinu gott samkomulag á milli stjórnarflokkanna, sem stóðu saman að kosningunum 1946, þá kom eitt mál, flugvallarsamningurinn, sem flokkur hv. 2. þm. Reykv. tók óþjóðlega afstöðu til, en form. stj., sem kommúnistar höfðu talað vel um, sá hættuna og virtist ekki vilja ráðgast neitt við þennan hluta ríkisstj. um þetta mál. Þetta kom fram í umr. á Alþ., þar sem þessi þáverandi stjórnarflokkur var særður yfir því, að honum skyldi haldið utan við þær umr., sem formlega var rétt hjá þeim. Ég tek í sama streng í þessu máli. Hins vegar skilst mér, að betra hefði verið að taka þennan flokk aldrei inn í félagsskapinn. Kommúnistar eru á annarri línu, og þess vegna er ekki hægt að hafa þá með við afgreiðslu hinna stærstu mála.