14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að lengja þessar umr., en vil aðeins taka fram vegna ummæla 2. þm. Reykv., að ríkisstj. hafi ekki fylgt þingsköpum í meðferð þessa máls, að það er ekkert ákvæði í þingsköpum, sem bendir á slíkt. Það er gert ráð fyrir, að utanríkismálum sé vísað til utanrmn., en það er hvergi tekið fram, að ríkisstj. megi ekki kynna sér málefnið fyrst, nema síður sé. Og um för hinna þriggja ráðh. til Washington er það að segja, að ríkisstj. þótti sjálfsagt og taldi sér skylt að láta rannsaka þetta mál, áður en það væri lagt fyrir þá aðila, sem ákvörðun eiga að taka. Hitt er svo annað mál, að það er ekkert æskilegt að leita ráða kommúnista, hvorki í utanrmn. né annars staðar, í máli eins og þessu, eftir að hafa heyrt yfirlýsingar flokksbræðra þeirra og leiðtoga erlendis.

Í sambandi við fyrirspurn um það, hvort kommúnistar mundu berjast með erlendum her gegn þjóð sinni, ef til átaka kæmi, eins og leiðtogar kommúnista sumra ríkja hafa lýst yfir, þá svaraði 2. þm. Reykv. því, að hann vissi ekki til, að hér ætti að stofna til herskyldu. Þetta er rétt, en þm. veit líka, að það er hægt að aðstoða erlendan her með öðru en vopnaburði, og það þekkja allir glögg dæmi þess í sambandi við innrásir nazista í stríðinu. Íslenzkir kommúnistar svara ekki, þegar þeir eru spurðir um, hvort þeir mundu aðstoða erlendan her gegn sinni eigin þjóð, en þeim er vel trúandi til þess, því að þeir eru ekkert annað en meiður af sama stofni og þeir, er slíkar yfirlýsingar hafa gefið. Svo þykjast þeir tala í nafni íslenzku þjóðarinnar. Það er smán.

Það er líka ógleymt, þegar einn þm. kommúnista lýsti yfir í sambandi við umræður um hervernd Bandaríkjanna 1941, að hér mætti „skjóta án miskunnar“, ef það yrði til þess að létta undir með Rússum á austurvígstöðvunum. (BrB: Hver sagði það?) Sá, sem greip fram í. (BrB: Það er lygi. — Forseti: Það er alveg ótækt, að utandeildarmenn séu að grípa hér fram í. — BrB: Ég skora á ráðh. að sanna þetta, — eða mega ráðh. ljúga í deildinni? —

FJ: Út með dónann.) Við skulum lofa honum að sitja. Það er auðséð, að samvizkan sló hann, en þm. getur flett upp í alþingistíðindum frá 1941 og lesið þar orð sín. (EOl: Ef samvizkan hefur slegið einhvern illa, þá er það ráðherrann sjálfan, — eða er svo komið, að hún slái ekki lengur þess konar herra?)

Í sambandi við hlutleysistal kommúnista er rétt að minnast þess, að það kvað við annan tón, þegar Þjóðviljinn barðist fyrir því, að Íslendingar tækju þátt í síðustu styrjöld „með öllum þeim ráðum og tækjum“, sem þeir hefðu yfir að ráða, en samkvæmt kröfu Rússa átti það að vera aðgöngumiði Íslendinga að stofnun Sameinuðu þjóðanna. Þetta hefur verið rifjað upp og er hægt að rifja betur upp, þegar betra tækifæri er til. En mönnum með slíka fortíð getur íslenzka ríkisstj. ekki treyst í utanríkismálum. Ég mun ekki fara frekar út í þetta mál, nema tilefni gefist til, þar sem málið er ekki á dagskrá. En að lokum get ég sagt þm., að ríkisstj. mun leggja fyrir Alþingi þau mál, sem varða öryggi landsins, og Alþingi mun taka sínar ákvarðanir samkvæmt stjórnskipunarháttum Íslendinga.