14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2088 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Mér skilst á ráðh., að hann sé að biðjast undan að ræða þetta mál. Hann óskar ef til vill eftir, að það verði fremur á dagskrá í fyrirspurnatíma, þar sem þm. hafa ekki nema 5 mín. til umráða, en ráðh. fær ótakmarkaðan tíma til andsvara. Það kemur líka glöggt fram, að forsrh. er mjög órór, en slíkt er venja, þegar menn vinna ill verk á bak við tjöldin. Hvar skyldi það þekkjast, annars staðar en hér, að hálf ríkisstj. sé send úr landi með leynd og án þess að það sé svo mikið sem minnzt á það við utanríkismálanefnd þingsins? Slíkt er áreiðanlega hvergi gert nema hér. Og það er ofur eðlilegt, að forsrh. sé órór yfir þessu baktjaldamakki sínu og pukri. Ég ætla annars ekki að lengja þessar umr., en langar samt til að bera fram tvær fyrirspurnir til forsrh. Sú fyrri er, hvort hann hugsi sér þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu sem einhverja ógnun við Rússa. Eftir orðum hans var ekki annað að skilja en að þátttaka Íslands í bandalaginu væri hernaðarleg ógnun við Rússa. Hin spurningin er sú, hver átt hafi frumkvæði að för ráðherranna þriggja til Bandaríkjanna. Var það ákvörðun íslenzku ríkisstj. eða fyrir frumkvæði Bandaríkjastjórnar?