14.03.1949
Neðri deild: 80. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2089 í B-deild Alþingistíðinda. (2956)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég fékk nú loks þær upplýsingar hjá forsrh., sem ég hef verið að leita eftir. Það er að segja upplýsingar um, að það hafa farið ýmis bréf og orðsendingar milli íslenzku ríkisstj. og Bandaríkjastjórnar, og þá einkum þess efnis, hvort ekki væri eitthvað, sem Íslendingar óskuðu að koma á framfæri, sem sagt, þessi ferð ráðherranna er utanstefna. Ríkisstj. sendir 3 ráðherra utan, án þess að minnzt sé á það við utanrmn., og við þm. stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, að hálf ríkisstj. er erlendis að semja um skilyrði, sem erlendir menn setja, og það án þess, að Alþingi hafi hugmynd um förina fyrr en eftir á. Þetta hefði forsrh. átt að upplýsa strax, en það er ósköp skiljanlegt, að hann hafi ekki kært sig um að upplýsa þetta baktjaldamakk stj. fyrr en í síðustu lög. En nú, úr því að tekizt hefur að fá þessar upplýsingar hjá ráðh., þá skora ég á hann að birta nú þegar öll þau bréf og orðsendingar, sem á milli hafa farið í þessu máli, og draga ekkert undan. Ríkisstj. hefur verið staðin að því að hafa farið á bak við utanrmn. og Alþingi í málinu og er sýnilega að reyna að draga þjóðina inn í hernaðarblakkir stórveldanna, en þjóðin á fullan rétt á að fá að fylgjast með þessum málum, og þess vegna vil ég endurtaka áskorun mína til forsrh., að hann láti nú þegar birta þau bréf og orðsendingar, sem á milli ríkisstj. og Bandaríkjastjórnar hafa farið í þessu máli.