19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (2967)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Pétur Ottesen:

Ég vil, í tilefni af því, hve erfiðlega gengur að fá mál á dagskrá, taka undir það, sem hæstv. dómsmrh. sagði. Ég ætla, að ég sé flm. að þremur till., sem bornar voru fram í Sþ. snemma á þessu þingi, en hinar flyt ég ásamt öðrum þm. Það er nú komið á sjöttu viku, að ég ætla, síðan þessar till. voru bornar fram, en engin þeirra hefur komið á dagskrá. Það getur ekki verið á þennan veg til lengdar, að fyrirspurnir séu teknar á dagskrá öllum öðrum málum fremur og algerlega gengið fram hjá þáltill. Að hefta þannig framgang þeirra mála, sem till. lúta að, hlýtur að valda óánægju. Ég verð því að skora á hæstv. forseta að breyta um starfshætti og gera þegar ráðstafanir til þess, að þáltill. verði teknar á dagskrá. Annars verð ég að grípa til þess ráðs, sem þm. er í hendur lagt, er þeir eru beittir óeðlilegri meðferð af forseta, að koma fram með skriflega ósk til hans um þetta. Ég hef ekki gert þetta enn, en ef dráttur verður hér eftir, þá verð ég að grípa til þess eina ráðs, sem ég hef samkv. þingsköpum.

Ég vildi grípa tækifærið og láta í ljós óánægju mína yfir þessu, og ég vænti þess, að ábendingar hæstv. dómsmrh. og mínar verði til þess, að breytt verði um starfshætti. Þetta ætti að vera því auðveldara sem annir þingsins eru minni. Ég hef setið á mörgum þingum og man ekki til þess, að nokkru sinni hafi verið jafnlítið gert og nú.