19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Jónas Jónsson:

Út af ræðu hæstv. dómsmrh. vil ég segja það, að ég get verið honum samþykkur um það, að tíminn, sem til fyrirspurnanna hefur farið, hefur verið um of. En, eins og hv. þm. Borgf. sagði, er þingið iðjulaust, það hefur ekkert gert síðan það kom saman, og ég get trúað hæstv. ráðh. fyrir því, að fyrirspurnirnar eru það eina lífsmark, sem það gefur frá sér. Þar fyrir er ekki rétt, að það taki marga daga að ræða þær. Kaldaðarnesmálið tók t. d. meiri tíma, en þurft hefði. Eigi hins vegar að takmarka tímann, verða líka hæstv. ráðh. að gæta hófs um ræðutíma sinn. Mér finnst eðlilegt að nota hina brezku fyrirmynd í þessum efnum. Án fyrirspurnanna yrði þingið mjög leiðinlegt.