19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2092 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Forseti (JPálm) :

Út af þeim aðfinnslum, sem hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Borgf. hafa komið fram með, vil ég taka þetta fram:

Samkvæmt breyt., er gerð var á l. um þingsköp Alþ., er svo ákveðið, að prenta skuli vikulega þær fyrirspurnir, sem berast, og útbýta meðal þm. á fundi. Á næsta fundi skal það borið undir atkv., hvort fyrirspurnirnar skuli leyfðar eða ekki, og forseti síðan taka þær á dagskrá eigi síðar, en viku eftir að þeim er útbýtt. Þessari reglu hefur verið fylgt án undantekningar síðan þessi ákvæði voru samþ. Ég hef ekki séð mér fært að víkja frá henni, nema svo hafi staðið á, að ráðh. hafi ekki verið við. Annars er það svo, eins og hv. þm. vita, að þm. mega ekki tala lengur en í 5 mín., en ráðh. hafa ótakmarkaðan ræðutíma og tala oft og einatt óþarflega lengi, oft um sömu málin. Það er því fremur hæstv. ráðh. að kenna en þm. eða forseta, hvað umr. eru langar. Ég get ekki gengið fram hjá skýlausum ákvæðum þingskapanna. Ég hef athugað möguleikana á því að hafa fundi seinni part dags, en hæstv. stj. hefur mælzt undan því, og ég hef talið það eðlilegt, að forseti hefði samráð við hæstv. ríkisstj. bæði um þetta og annað. Um þáltill. er það að segja, að þær hafa ekki verið taldar það þýðingarmiklar, að flýta þyrfti þeim svo, að þær væru látnar sitja í fyrirrúmi.