19.11.1948
Sameinað þing: 19. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (2970)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Það var ekki ætlun mín að ávíta hæstv. forseta, heldur að benda á það, að þörf væri á hagkvæmari starfsháttum. Engum þm. blandast hugur um það, að of mikill tími fer í þessar umr., jafnvel ekki fyrirspyrjanda allra tíma, og má þar um segja, að bragð er að þá barnið finnur. Reynslan hefur líka orðið sú, að fresta hefur orðið fundi vegna þess, að ekki hefur verið hægt að ljúka málum af. Mér finnst eðlilegast í þessum efnum, að einfaldlega sé skýrt frá staðreyndum, og held, að þá muni nægja þrjár klukkustundir í viku. Ég veit ekki betur en að svipaður háttur sé hafður í brezka þinginu. Svör ráðh. eru stutt, örfá orð, eða bara já eða nei, og þess vegna tekur þetta stuttan tíma.

Sem sagt, mér sýnist sem of mikið af tíma þingsins fari í þessar umr. um fyrirspurnir, það eru þó á áttunda tug mála, sem fyrir liggja, og sum þeirra stór og krefjast verulegrar vinnu. Það kann að vera rétt, sem hv. þm. S-Þ. segir, að landslýðurinn hafi gaman að fyrirspurnum, ekki síður en hann sjálfur, en það þarf fleira að komast að en sú skemmtun.