25.11.1948
Neðri deild: 21. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2094 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. þm. er kunnugt um það, að framan af þingum er venjulega ekki mjög mikið að gera fyrir þm., en hins vegar hefur oft verið sú reynslan, að síðari hluta þinga hlaðast mikil störf á þingmenn, er verða þá að vinna nótt með degi, bæði af því að þá er nú afgreiðsla á stærsta málinu, sem fyrir Alþ. liggur, fjárl., og eins hinu, að þá ryðjast mál frá nefndum, og fundir verða þá oft langir. Þetta leiðir oft til þess, að mál verða ekki afgreidd af þinginu sum, en sum með nokkuru flaustri. Nokkur brögð hafa ætíð verið að því, að þm. ynnu heldur slælega framan af þingi, en ég hygg, að aldrei hafi það keyrt eins úr hófi eins og nú. Eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um fyrir sólarhring síðan frá skrifstofunni, þá hafði verið þá vísað til nefndar hér í hv. d. 32 málum, en aðeins fimm verið afgr. frá nefndum. — Ég sé ekki, að það sé neitt á móti því að skýra frá þessu hér, því að þetta er viðkomandi öllum hv. þm.

Til fjhn. hafði þá verið vísað 10 málum og hún hefur ekkert afgreitt. Til samgmn. einu máli. Hún hefur ekki afgreitt það. Landbn. hefur fengið 4 mál og hefur afgr. eitt. Sjútvn. hefur fengið 3 mál og afgreitt 2. Iðnn. hefur fengið eitt mál og afgreitt það. Heilbr.- og félmn. hefur fengið 5 mál og ekkert afgreitt. Menntmn. hefur fengið 3 mál og ekkert afgreitt. Allshn. hefur fengið 5 mál og afgr. eitt. — Alls, eins og ég sagði, hafa nefndirnar fengið 32 mál til meðferðar í þessari hv. d., en afgreitt aðeins 5 af þeim. — Sjálfsagt liggja gildar orsakir til þess, að n. hafa ekki afgreitt öll málin frá sér. En þegar þess er gætt, að liðnar eru meira en sex vikur af þinginu, þá er dálítið leiðinlegt að sjá, að þingn. hafa ekki afgreitt einu sinni eitt mál til jafnaðar í þær sex vikur, sem liðnar eru af þinginu. Ég vil fyrir mitt leyti óska eftir því, að hæstv. forseti hafi á því athugun, hvernig þingnefndirnar vinna og geri sig að húsbónda yfir þeim í þessu efni, því að það verður ekki við það unað, að svona slælega sé unnið.