25.03.1949
Sameinað þing: 54. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

Afgreiðsla mála úr nefndum o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að grennslast um það við hæstv. forseta, hvort fyrirhugað sé um fundahöld hér í þinginu í dag og hvort fundur muni verða í þinginu á morgun. Ég sé, að aðeins er hér eitt mál á dagskránni, fjárlagafrv. til 2. umr., og sízt skal það lastað að hraða afgreiðslu þess máls, því að afgreiðsla þess máls er þegar þrem mánuðum of seint á ferðinni. En þó er á það að líta, að fleira er nú aðkallandi heldur en þetta mál. Það eru stór mál, sem þurfa að fá meðferð í deildum þingsins líka. Í gær var útbýtt á þskj. 483 frv. frá mér og hv. 2. þm. N-M. um leigunám og félagsrekstur togara, sem flutt er í tilefni af þeirri togarastöðvun, sem hefur staðið nú á annan mánuð. Ég tel, að það sé svo alvarlegt mál, að það sé óhjákvæmilegt, að nú sé hið allra bráðasta reynt að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að skipin séu ekki lengur í höfnum inni. Og því ber ég fram þessa fyrirspurn til hæstv. forseta, að ég hafði ætlað mér að fara fram á það við hæstv. forseta Nd., að kvaddur yrði saman fundur í þeirri hv. d., helzt í dag, eða þá í síðasta lagi á morgun, til þess að taka þetta mál fyrir. Og mun ég gera það, ef unnt verður, og vil reyndar leggja áherzlu á það, að reynt verði að hliðra þannig til, að hægt verði að hafa deildarfund nú fyrir helgina út af þessu máli.