28.04.1949
Efri deild: 90. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (2999)

196. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. N. hefur flutt þetta frv. samkv. beiðni fjmrh., og hafa einstakir nm. áskilið sér að hafa óbundnar hendur um málið.

Sú breyt., sem hér er gerð á 45. gr. skattal., liggur aðallega í því, að farið er fram á, að hægt sé að innheimta tekju- og eignarskatt fyrir fram á fyrra helmingi ársins upp í væntanlega skatta yfirstandandi árs hjá hverjum gjaldanda að upphæð, er nemi helmingi þeirra gjalda, er honum bar að greiða s.l. ár. Þetta er gert til þess, að tekjur ríkissjóðs af sköttum geti komið inn fyrr á árinu, en undanfarið hefur tíðkazt, því að eins og kunnugt er, hefur tekju- og eignarskattur verið innheimtur síðustu mánuði ársins. Þessi háttur hefur ekki verið mjög til baga fyrir ríkissjóð að undanförnu, vegna þess að hann hefur haft miklar fjárreiður. En nú, þegar fer að harðna í ári, sýnir það sig, að það er nauðsynlegt fyrir ríkissjóð að geta fengið greiddan helming af þessum skatti fyrir fram, þannig að hann geti haft hann til umráða fyrri part ársins, en ekki síðustu mánuði ársins, eins og nú hagar til. Þetta er sami háttur og bæjarsjóður Reykjavíkur tók upp fyrir nokkrum árum og var þá upp tekinn af sömu þörf og ríkissjóður gerir nú. Ég fyrir mitt leyti get ekki séð, að neitt sé því til fyrirstöðu, að þessi háttur sé upp tekinn. En ég verð að segja, að ég tel, að þetta geti ekki orðið nema bráðabirgðalausn, eða réttara sagt: þetta ætti ekki að verða nema millistig til þess að koma á þeirri skipun, að bæði ríkis- og bæjargjöld verði innheimt í einu lagi og að hver gjaldandi geti greitt þessi gjöld með jöfnum afborgunum yfir árið. Sá innheimtuháttur, sem hér er hafður nú, í Rvík sérstaklega, er allkostnaðarsamur, og mætti vafalaust spara ríkissjóði og bæjarsjóði talsverð útgjöld í innheimtunni, ef annar háttur væri tekinn upp. Þessi háttur á innheimtunni tíðkast nú hér um bil í hverju landi og er fyrst og fremst gerður til hagræðis fyrir þá opinberu aðila og í öðru lagi til hagræðis fyrir kaupgreiðendur sjálfa. Í sumum löndum greiða menn mánaðarlega skatt af tekjum sínum á sama tíma og þeir vinna fyrir þeim. Nú er skatturinn tekinn af tekjum síðasta árs. En þessi háttur, að greiða skattinn jafnóðum og verið er að vinna fyrir tekjunum, hefur gefizt mjög vel og er vafalaust sá háttur, sem á verður hafður í framtíðinni, þar sem hægt verður að koma því við, þ.e. hjá fólki, sem vinnur fyrir föstum launum. Það eru vissir flokkar skattgreiðenda, sem ekki geta komið undir þessa framkvæmd.

Ég álít, að það sé hverjum manni ljóst, að þennan innheimtuhátt eigi að taka upp og gera skattgreiðendum þannig eins auðvelt og hægt er að greiða skatta sina og koma meiri reglu á skattgreiðslur en nú er og minnka innheimtukostnað frá því, sem nú er. Ég tel svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta að sinni, en vil mæla með því fyrir mitt leyti, að þessi breyt. verði samþykkt.