09.02.1949
Neðri deild: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (3025)

120. mál, menntaskólar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vildi ekki láta þetta mál ganga svo til n., að ekki kæmi fram, að ég er andvígur þessu frv. Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt, sýnist vera sú, að hv. flm. telji, að stefna sú, sem tekin var upp í málum menntaskólanna af Alþingi 1946 og milliþn. í skólamálum, sé röng, sú stefna, að hafa fjögurra ára menntaskóla í stað sex ára. Í raun og veru er þó frvgr. ekki að öllu leyti í samræmi við það, sem segir í grg., þar sem í grg. er talið rangt að hafa ekki gagnfræðadeildir við menntaskólana. Hefði því frv. átt að vera um það að afnema núgildandi lagaákvæði um menntaskóla og leggja til að taka aftur upp hið eldra skipulag, en ekki aðeins að fara fram á bráðabirgðabreytingu og það aðeins varðandi Menntaskólann á Akureyri. Ég álít stefnu milliþn. og Alþingis 1946 rétta, að hafa gagnfræðanámið sérstakan áfanga á menntabrautinni. Ég tek undir þau rök hv. 6. þm. Reykv., að óheppilegt sé, að skólar séu mjög langir, þ.e.a.s. taki yfir lengri tíma en 4 ár. Í 6 ára skóla eru nemendur á svo ólíkum aldri, að ég tel það ekki heppilegt. Auk þess tel ég, að skólar eigi ekki að vera mjög stórir, — helzt ekki fyrir miklu fleiri en 300 nemendur, en augljóst er, að 6 ára skóli verður alltaf fjölmennari en 4 ára skóli; það væri tvímælalaust í betra samræmi við skoðanir hv. flm., að þeir legðu til að láta þetta líka gilda í Reykjavík, því að það væri mjög óeðlilegt að hafa 6 ára skóla á Akureyri, en 4 ára skóla í Reykjavík, og reka menntaskólana þannig sinn með hvorum hætti.

Nú er að athuga, hvort nokkur ástæða sé til að setja sérstök ákvæði varðandi Menntaskólann á Akureyri. Ég hef sannfærzt um það af ræðu hæstv. menntmrh., að svo er ekki. Það hefur komið í ljós, að það er á misskilningi byggt, að setja þurfi sérstök ákvæði af húsnæðisástæðum eða því um líku, þegar það er upplýst, að ekki nema 10 gagnfræðadeildarnemendur búa í heimavist, og sýnast engar ástæður vera fyrir hendi, sem réttlæti þá prinsipbreytingu, sem gert er ráð fyrir í frv. — Þetta vildi ég aðeins láta koma fram. Ég er andvígur þeirri meginstefnu, sem fram kemur í grg. frv., og ég sé enga ástæðu til þess að láta sérstök ákvæði gilda um Menntaskólann á Akureyri.