09.02.1949
Neðri deild: 60. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

120. mál, menntaskólar

Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti. Ég harma það mjög, að hæstv. menntmrh. skyldi taka þannig í þetta mál á þessu stigi sem hann gerði. Ákjósanlegra hefði verið, að hann hefði getað orðið við tilmælum okkar flm., úr því að hann hefur á annað borð brotið ísinn og gert undantekningu sem þá, er hér er farið fram á, enda virðist enginn háski á ferðum, þótt framkvæmd laganna sé frestað í bráð. Hæstv. menntmrh. vildi segja það, að fræðslulögin hafi haft stuðning meginþorra skólamanna landsins. Ja, hann virðist vera kunnugur hugum skólamannanna, en minna má á það, að skólamenn á Akureyri voru látnir vera utan við undirbúning löggjafarinnar, og enginn þeirra átti sæti í milliþn. Kemur það og fram í ályktun kennarafundar á Akureyri, að þeir eru ekki hrifnir af fræðslul. Það má náttúrlega segja, að þetta mál sé sérmál kennaranna á Akureyri og Akureyringa, en það eru fleiri en Akureyringar, sem óska eftir breyt. á l., því að næstum allur Norðlendingafjórðungur óskar eftir þeirri frestun, sem frv. gerir ráð fyrir, og liggja fyrir um það áskoranir og samþykktir frá ýmsum aðilum, svo sem aðalfundum kaupfélaga, hreppsnefndum, bæjarstjórnum o.fl. En það má náttúrlega reyna að láta líta svo út, að hér sé um að ræða hégómamál, sem litlu máli skipti. Hæstv. menntmrh. vildi láta svo vera, að fáir gagnfræðadeildarnemendur hefðu verið í heimavist Menntaskólans á Akureyri í vetur, og var þetta gripið á lofti af hv. 4. þm. Reykv. (GÞG). En þess ber að gæta í þessu sambandi, að gamla heimavistin tekur aðeins 50–60 nemendur, og er þá eðlilegt, að skólameistari láti nemendur menntadeildar sitja fyrir. En þegar nýja heimavistarhúsið, sem tekur 150 nemendur, er komið upp, þá skulum við sjá, hvort nemendur gagnfræðadeildar verða þar ekki hlutfallslega fleiri, ef gagnfræðadeildin verður þá lifandi enn. Hæstv. menntmrh. hélt því og fram, líklega eftir upplýsingum frá skólastjóranum, að Gagnafræðaskóli Akureyrar gæti tekið á móti öllum og hefði getað s.l. haust. Ég veit nú ekki betur en skólinn sé fullur, og samt er aðsókn að gagnfræðadeild menntaskólans, svo að hér skýtur nokkuð skökku við. Svo kemur hv. 6. þm. Reykv. og telur upp alla skóla á Norðurlandi, sem geti búið menn undir landspróf. En þá gleymir hann víst þeim kröfum, sem hann sjálfur og aðrir í milliþn. gerðu til hæfni kennaranna við slíka skóla. Mér þætti gaman að sjá úrslit rannsóknar á kennslukröftum í öllum þessum skólum og vita, hvort nokkur af kennurum uppfyllti þær kröfur, sem n. gerði. Ég efast um, að nokkur þessara kennara geri það, jafnvel ekki sjálfur skólastjóri Gagnfræðaskóla Akureyrar, en góðir kennslukraftar eru einmitt undirstöðuatriði í okkar skólamálum.

Þá koma þeir hv. 6. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Reykv. eins og nokkurs konar stórskotalið á eftir hæstv. menntmrh. í þessu máli og segjast vera algerlega fráhverfir 6 ára menntaskólanámi. Þeir fullyrða báðir, að það sé óheppilegt að hafa námið svo langt. En sjálfir leggja þeir blessun sína yfir 3 ára gagnfræðanám og 4 ára menntaskólanám, og þótt ég sé ekki reikningsmaður á borð við hv. 6. þm. Reykv., þá held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að 4+3 séu 7 og að 7 séu meira en 6, svo að það, sem þeir hafa gert, er að lengja námið um eitt ár, þótt þeir segist vera á móti löngu námi, því að það er náttúrlega hégómi, þótt náminu sé skipt og kallað gagnfræðanám og menntaskólanám. Það verður nokkuð svipað, þótt það beri annað nafn. Hv. 4. þm. Reykv. taldi það stórhættulegt, að skólarnir væru stórir, og væri það augljóst, að 4 ára skóli yrði aldrei eins stór og 6 ára skóli, og er þetta rétt. Um hitt held ég geti verið skiptar skoðanir. Ef menntaskólunum verður nú brátt fjölgað um þrjá, þá eru heldur ekki líkur til, að menntaskólarnir verði mjög stórir. Varla verða þar fleiri nemendur en um það bil 300, og er ég ekki hræddur við það, og ég held það sé heppilegt, að menn komi sem fyrst undir áhrif kennaranna og skólaagann. Hv. 6. þm. Reykv., eins og hans er vani, braut málið til mergjar, því að hann er rökfastur maður, og byrjaði á byrjuninni, er hann átti sæti í milliþn. í skólamálum og setti upp það kerfi, sem nú er í l. Honum líkaði náttúrlega ekki, þegar hér á að raska við kerfi hans, en röskunin er þó ekki meiri en það að fá frestun á framkvæmd l. um stundarsakir. Það er meira að segja gert ráð fyrir, að landspróf veiti áfram inngönguréttindi í Menntaskólann á Akureyri, og slítur því þetta frv. ekki samhengi fræðslukerfisins. Ég vona því, að hv. menntmn. liti á þetta frv. með velvild og ég veit, að hv, 6. þm. Reykv. sem gamall Norðlendingur og nemandi Menntaskólans á Akureyri mun líta á málið með sanngirni.