18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða efni frv. að verulegi leyti né brtt. Ég vil aðeins benda á þá staðreynd, að í III. kafla frv. eru lagðar á almenning fjárhagsbyrðar, sem hljóta að leiða til aukinnar dýrtíðar og vaxandi verðbólgu. Mér virðist, að Alþ. ætti, um leið og það stígur svona alvarlegt spor, að reyna að bæta eitthvað úr fyrir almenningi, sem gæti leitt til að gera þessar þungu byrðar léttbærari. En ekkert slíkt mun uppi í hv. deild. Mér er ljóst, að ekki mun byr fyrir að gera stórkostlegar ráðstafanir, en ætla þó, að margir hv. þm. geti orðið sammála um að gera eitthvað í þessu efni. Mér virðist einkum tvennt koma til greina: Í fyrsta lagi að tryggja rétt hvers neytenda til að fá þá vöru, sem honum ber samkv. skömmtuninni, og enn fremur að tryggja rétt hans að kaupa vöruna hvar sem honum sýnist, og í Þriðja lagi að tryggja það, að neytendur þurfi ekki að fara á svartan markað og kaupa vörur með okurverði. 26. okt. bar ég fram frv. á þskj. 38, sem átti að miða að þessu. Málinu var vísað til fjhn. 2. nóv., og hefur ekkert til þess spurzt síðan, og ætti þó að hafa gefizt tími til afgreiðslu, ekki sízt þar sem það er ekki nýtt. Ég bar það fram á síðasta þingi, og olli það deilum, en var samþ. hér í d., og vænti ég, að svo verði enn. Það virðist einsætt að taka efni þess frv. í þetta frv. og sýna lit á að vilja tryggja neytendum einhvern rétt, um leið og lagðir eru á þá milljónatugir með söluskatti og leyfisgjöldum. — Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en leyfi mér að leggja fram svohljóðandi brtt., með leyfi hæstv. forseta:

„Aftan við frv. kemur svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða: Meðan innheimt eru gjöld, sem um getur í III. kafla laga þessara, og fleiri eða færri vörutegundir eru háðar skömmtun til neytenda, skulu innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til verzlana eða iðnfyrirtækja fyrir hinni skömmtuðu vöru vera í samræmi við afhenta skömmtunarseðla þeirra til viðskiptanefndar. Komi í ljós, að verzlun eða iðnfyrirtæki hafi í byrjun skömmtunartímabilsins haft óeðlilega litlar birgðir, skal veita henni fyrirframleyfi eftir nánar tilteknum reglum. Viðskiptamanni skal heimilt, ef verzlun eða iðnfyrirtæki hefur eigi nægilega mikið af tiltekinni skömmtunarvöru til að fullnægja eftirspurn, að afhenda verzluninni skömmtunarseðla sína og fela henni að annast útvegun vörunnar fyrir sig, enda ber þá að veita henni innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til þess.“