05.05.1949
Neðri deild: 101. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

120. mál, menntaskólar

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Mér ber að þakka hv. menntmn. fyrir það starf, sem hún hefur lagt í athugun frv. Þó að ég sé ekki alls kostar ánægður með niðurstöður hv. n. í heild, þá mundi ég sætta mig við þær breyt. — eftir ástæðum —, sem orðið hafa fyrir aðgerðir hennar. Í till. hennar er farið miklu skemur en upphaflega var til ætlazt. Í frv. var farið fram á að fá að hafa gagnfræðadeildina eins og hún var, en nú er gert ráð fyrir að leyfa að hafa miðskóladeild í 2 ár í sambandi við Menntaskólann á Akureyri. Ég geri ráð fyrir því, að við flm. frv. munum sætta okkur við þessa lausn á málinu, þó að ekki sé gengið til fulls til móts við óskir okkar.

Nú hefur hv. frsm. minni hl. skýrt frá afstöðu minni hl. til málsins, lýst sig hálfvegis fylgjandi þessum brtt., en þeir muni hins vegar vera á móti frv. Ég skil nú ekki vel þann rökstuðning, að menn geti verið á móti frv., sem þeir eru þó með.

Bæði hæstv. menntmrh. og hv. frsm. minni hl. gerðu lítið úr þeim rökum, sem fram voru borin þessu máli til stuðnings, og þeir vildu halda því fram, að um hefði verið að ræða rakaleysi frá upphafi til enda. Það er nú hins vegar vitað, að almennar óskir Norðlendinga standa að þessu. Það eru ekki aðeins kennarar Menntaskólans á Akureyri, sem standa að þessu, heldur hafa komið óskir alls staðar að úr fjórðungum norðurlands, frá sýslum, kaupfélögum o.fl., um, að skólinn megi starfa áfram með sama fyrirkomulagi og var fyrir gildistöku nýju fræðslul. Eru allar þessar óskir byggðar á misskilningi? Nei, það er hreint og beint álit fólksins, að í rétta átt sé stefnt með því að fá þetta fyrirkomulag, sem óskað er eftir. Þessi stofnun er nú aldarfjórðungsgömul og hefur notið svo mikils trausts, að fólkið hefur fengið það á tilfinninguna, að þangað sé vert að senda börn sín, og þeir lærisveinar, sem þar hafa verið, hafa getið sér hinn bezta orðstír. Það er viðurkennt af öllum, ekki sízt foreldrunum, sem hafa fengið börn sín heim úr þessum skóla. Í þessu liggur afar mikið, sem stuðlar að þessum kröfum eða óskum þessa fólks, og ég hef sannfærzt um réttmæti þeirra.

Hv. frsm. minni hl. og fleiri, sem talað hafa í þessari umr., hafa gert eins lítið úr heimavistinni í sambandi við þetta sem mögulegt er; en fólkið úti í sveitum vill senda börn sín til dvalar í heimavistina, þar sem þeir álíta, að hún sé betri og hollari til dvalar fyrir þau, en aðrir staðir. Það munu nú vera í heimavist menntaskólans 50 – 60 manns. Þá sagði hæstv. ráðh., að það mundu vera fáir í neðri bekkjunum, sem dveldu í heimavistinni. Það mun vera rétt, að menntadeildin sé látin sitja fyrir með heimavist. Ef maður hugsar sér, að heimavistin aukist það, að 160 manns fái dvalarstað í henni, ætli hún mundi þá ekki aukast tiltölulega fyrir gagnfræðadeildina, ef hún yrði við skólann? Rök hv. þm. hvað heimavistina snertir eru veik að mínum dómi. Það er rétt, að nýja heimavistarbyggingin er ekki fullgerð. Ein álma hússins mun verða tilbúin í haust, og verður þar rúm fyrir 30–40 nemendur. Það er hugsað að láta gömlu heimavistina halda sér, meðan verið er að koma hinni upp, og verður þá pláss fyrir 100 nemendur í heimavist næsta haust. Þetta er kannske lítil viðbót, en mér finnst hún sæmileg.

Hv. frsm. minni hl. menntmn. var að tala um það, að þetta mál væri sótt af meira kappi en forsjá. Það má deila um það, hvað er forsjárlegt í þessu falli. Mér virðist það mjög mikil forsjá að halda í það gamla og góða, en ekki hlaupa eftir því nýja. Þessi hv. þm. sagði einnig, að verið væri að skapa gagnfræðaskóla um allt Norðurland, svo sem hann taldi upp. Og það virtist sem stóri skólinn á Laugum væri orðinn gagnfræðaskóli líka. En eftir svo eða svo mörg ár er kannske líka kominn gagnfræðaskóli á Blönduósi og jafnvel norður á Raufarhöfn. Og hann rak sig á þá staðreynd, að þetta allt og alls staðar væri svo ágætt. — Hann vildi halda fram, að upp úr heimavist væri ekki svo mikið leggjandi. Hann vildi gjarna heldur koma börnum sínum fyrir í prívathúsum. Hvar hefur hann hugmynd um, að hann mundi geta komið niður þessum börnum? Ég held, að það gæti stundum orðið erfitt. Og reynslan hefur sýnt, að það hefur gefizt illa. Börn frá prívathúsum hafa sýnt, að þau hafa getað orðið skólanum til minnkunar upp á síðkastið. En það hefur verið sótt á með að fá að koma börnunum í heimavíst við skólann, vegna þess að þar náði skólaaginn til. (SigfS: Þar hafa þau farið út um glugga.) Það var nú í gamla daga, og í köðlum stundum, en slíkt er hægt að gera í prívathúsum líka. — Það hefur enn fremur verið talað um það, að það væri enginn vandi, þegar ríkið væri búið að leggja svo mikið fé í þá nýju heimavistarbyggingu, þá væri ekki annað en að skipta heimavistinni á milli Gagnfræðaskólans á Akureyri og Menntaskólans. Mér þætti gaman að sjá þá menntaskóla, sem vildu taka að sér heila hersingu af nemendum úr öðrum skóla. Ég held, að þessu hafi verið kastað fram af hv. þm. til þess að gylla sinn málstað. — Það er sagt, að þessi nýi gagnfræðaskóli sé rúmgóður. Það er rétt. Hann er svo rúmgóður, að hann getur fullnægt þeim kröfum, sem hingað til hafa verið gerðar til þessa skóla. Áður þurfti að leigja víða húspláss fyrir hann, en nú er komin ágæt bygging þarna. En þegar fullyrt er, að þessi skóli geti bætt við sig 260 nemendum, þá er það fjarstæða, nema hann eigi að vera kvöldskóli líka, en þá má koma í hann allt að þúsund börnum.

Ég ætla ekki að kappræða um þetta mál. En mér er það dálítið áhugamál, vegna þess að ég veit, hve óskir manna eru miklar og áhugi um þetta mál á Norðurlandi, alla leið frá Húnavatnssýslu, í Skagafirði, Þingeyjarsýslunum báðum og ég tala nú ekki um í Eyjafirði og á Akureyri. Það er sameiginlegt álit allra þeirra . manna sem í þessum héruðum hafa mikinn áhuga fyrir þessu máli, að það beri að samþ., að þarna geti verið gagnfræðaskóli áfram í sambandi við Menntaskólann á Akureyri, og sérstaklega af því, að menn af efnahagsástæðum gætu komið fátækum börnum þar fremur en ella, einmitt vegna heimavistarinnar. Ég vona, að þessi breyt. fari í gegn hér, — og jafnvel, að vinur minn, hv. frsm. minni hl. menntmn., verði nú með þessu.