09.05.1949
Neðri deild: 104. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (3052)

120. mál, menntaskólar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins, áður en lokið er umr. um þetta mál, gera lítils háttar aths. út af einu atriði, sem fram kom í ræðu við fyrri umr. þess frá hv. þm. Ak. Ég held, að hann hafi tekið fram oftar en einu sinni í sinni ræðu, að frv. væri flutt einkum fyrir almennar óskir, sem fram hefðu komið í Norðlendingafjórðungi um það, að þessu máli yrði komið fram á þann veg, sem gert er ráð fyrir í frv. Ég vil út af þessu taka fram, að ég hef ekki orðið var við neinar slíkar óskir í mínu kjördæmi, sem tilheyrir þó Norðlendingafjórðungi. Þar er enginn áhugi fyrir því, að þessi breyt. verði að l., sem frv. fer fram á, enda geri ég ráð fyrir, að íbúar þess héraðs telji heppilegra að senda ungt fólk, sem ætlar að nema til gagnfræðaprófs, í þann skóla, sem er þar innan héraðs og getur veitt gagnfræðamenntun.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta mál. Ég vildi aðeins gera aths. við þessa fullyrðingu hv. þm. Ak.