18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Pétur Ottesen:

Við 2. umr. varð ég við tilmælum hv. frsm. fjhn. að taka aftur brtt. mína til 3. umr., og enn fremur frestaði ég þá að reifa þessa till. mína, en ég vil gera það nú. Mig langar aðeins að segja nokkur orð almennt um málið. Þetta er í þriðja skipti, sem hæstv. ríkisstj. ábyrgist lágmarksverð á fiski fyrir bátaútveginn, og orsakir til þess eru alkunnar og bezt lýst í samþykkt L.Í.Ú. s.l. haust, sem sé, að enginn starfsgrundvöllur hafi verið fyrir bátaútveginn í 4 ár. Reynslan hefur sýnt, að þetta er svona. Orsakirnar eru fleiri en ein og fleiri en tvær. Það er vissulega rétt, að hér kemur aflabrestur mjög til greina, og að því leyti sem síldveiðarnar bera atvinnuveginn uppi, hafa þær brugðizt. Hins vegar hefur ekki verið aflabrestur á þorskveiðunum, en nokkur aflatregða hefur þó verið á sumum stöðum. Aflabrestur kemur því vissulega til greina, en er ekki höfuðorsök. Við þá breytingu, sem orðið hefur á útgerðinni, er hún nú miklu dýrari en áður, en um leið afkastameiri, en vegna aflabrests á síldveiðum hefur slíkt ekki notazt. En þessi stærri og afkastameiri skip hafa ekki borið sig betur en áður, þegar róið var að morgni og komið aftur að kvöldi. Á þeim hefur því aukizt kostnaður, en aflamagnið ekki aukizt að sama skapi. En það, sem er þyngst á metunum, er hin mikla dýrtíð og verðbólga, sem nú er í landinu. Þessar ástæður, dýrtíð og verðbólga, eiga stóran þátt í því, hvernig nú er komið hér, að verð sjávarafurða, annarra en síldar og síldarafurða, er svo lágt á erlendum markaði, að ekki svarar kostnaði að framleiða það hér hjá okkur. Þetta kemur fyrst og fremst niður á útgerðarmönnum og hlutarsjómönnum. en þeir eiga allt sitt undir því, að varan seljist svo vel, að þeir fái aftur það, sem þeir hafa lagt fram, og til þess að árangur verði af starfinu, þurfa þeir hagnað, en nú fá þeir þvert á móti halla. Auk þess hafa hlutarsjómenn borið minna úr býtum en þeir, sem hafa unnið hjá útgerðinni í landi og því erfitt að fá menn á bátana. Og meðan þetta ástand helzt, varir það sennilega við. Þá hefur verið gripið til þess af valdhöfunum að veita útgerðinni þá tryggingu að ábyrgjast lágmarksverð, og það hefur komið til góða fyrir hlutarsjómenn. Þetta hefur verið gert fremur, en láta útgerðarmenn hafa ráðstöfun á gjaldeyri eða þá hitt, að skrá gengið með hliðsjón af því ástandi, sem nú er ríkjandi, en með núverandi gengisskráningu er lokað augunum fyrir ástandinu í landinu. Þessar ráðstafanir hafa að vísu orðið þess valdandi, að þetta ástand hefur verið framlengt,en alltaf hefur sigið á sömu ógæfuhlið, og nú í þriðja skiptið, þegar farið er fram á að endurnýja þessar ráðstafanir, þá er hag útgerðarinnar svo komið, að aldrei á þessu tímabili hefur hann verið jafnbágborinn og nú. Þessar ráðstafanir eru aðeins til að framlengja þetta sjúklega ástand, eins og upplýst hefur verið, en hins vegar er ekki reynt að lækna þá djúpstæðu meinsemd, sem hér er fyrir hendi. Með því að halda áfram á þessari braut, þá er það vottur þess, að valdhafarnir, og sennilega allur almenningur í þessu landi, eru enn þá milli svefns og vöku að því er það snertir að búast til raunhæfna aðgerða gagnvart lausn dýrtíðarvandamálsins. Dýrtíðarvandamálið hvað þetta snertir verður ekki leyst með öðru móti en því, að Íslendingar geti með eðlilegum hætti orðið aftur samkeppnisfærir á þeim mörkuðum erlendis, þar sem þeir þurfa að selja sínar framleiðsluvörur. Mér skilst þess vegna, að eins og nú er komið, þá sé ekki um að ræða nema þær leiðir, sem geti legið til grundvallar breytingu á þessu ástandi. Önnur leiðin er sú að afnema gildandi dýrtíðar- og haftaráðstafanir varðandi atvinnuvegina og viðskiptalífið í landinu, afnema þetta gersamlega, og láta það svo, eftir þeim leiðum, sem þá eru fyrir hendi, leita jafnvægis eins og það hefur lengst af gert í sögu þessarar þjóðar. Hin leiðin er svo sú að skrá gengið með hliðsjón af því ástandi, sem ríkjandi er, og er þá sennilega jafnframt nauðsynlegt að lögbinda bæði kaup og verðlag á innlendum afurðum í landinu. Ég sé ekki annað en að aðra hvora þessa leið verði að fara til þess að fá starfshæfan grundvöll fyrir útveginn, og í rauninni er það fullkomlega sýnt, að þessar ráðstafanir, sem við erum að gera, fela aðeins í sér möguleika til þess að halda útgerðinni áfram, án þess að líkur séu til, að það beri árangur, og ef á að halda slíku áfram, en ekki grípa til annarrar hvorrar þessara leiða, þá mun það á næsta ári kosta sams konar ráðstafanir, öflun nýrra tekna til að standa undir þeim ráðstöfunum, eins og reynslan hefur sýnt, að alltaf hefur þurft að gera í sambandi við þetta. Ég sagði, að það mundi verða óhjákvæmilegt að gera nú slíkar ráðstafanir, því að það er að sjálfsögðu enginn tími til þess nú fyrir áramót að gera slíka breyt. sem í því felst, sem ég nefndi, til þess að koma þessu aftur á grundvöll. Það er öllum kunnugt, hvað mikið er í húfi um það, að bátaútvegurinn geti haldið áfram, því að það er nú svo, að afkoma þessarar þjóðar byggist vitanlega fyrst og fremst á afkomu höfuðatvinnuveganna, landbúnaðar og sjávarútvegs, sem hvor hefur sitt mikla hlutverk að inna af hendi, landbúnaðurinn að framleiða nauðsynjavörur fyrir þjóðina og að nokkru leyti að leggja fram vörur, sem afla gjaldeyris, en sjávarútvegurinn aftur á móti framleiðir líka til eigin nauðsynja verulegt magn, en hans aðalhlutverk er að framleiða gjaldeyri til þarfa þjóðarinnar. Þegar þess er svo gætt, að bátaútvegurinn framleiðir a.m.k. 2/3 þess gjaldeyris, sem þjóðin þarf til sinna nota árlega, þá má það öllum vera ljóst, hvernig ástandið yrði, er hann gæti ekki haldið áfram að starfa.

Mér var það ljóst, þegar ég sá þetta frv., að endurnýjun á þessum stuðningi óbreyttum mundi ekki nægja til þess, að bátaútvegurinn treystist til að halda útgerðinni áfram. Mér hafði þess vegna dottið í hug, — og þá sennilega haft í huga óskir útgerðarmanna til þings og ríkisstj., sem sprottnar eru af því, að gjaldeyririnn er af þeim tekinn, að þeir fái íhlutun um ráðstöfun gjaldeyrisins til eigin þarfa, að bera fram brtt. við þetta frv., að í stað þess að ríkið ákveði útgerðarmönnum visst lágmark, þá fái þeir það rífleg yfirráð yfir gjaldeyrinum, að þeir gætu tryggt útgerðarreksturinn fjárhagslega með hagnýtingu á honum. Upphaflega hafði ég hugsað mér það þannig, að þeir fengju þann hluta af gjaldeyrinum, sem þeir framleiða, sem þeir telja nauðsynlegt til þess að reka útgerð. En mér er það ljóst, að meðan haldið er uppí í landinu ráðstöfunum með gjaldeyrinn og hagnýtingu hans, þá yrði erfitt að samræma þetta þeim ráðstöfunum, og í öðru lagi mundi slík meðferð á gjaldeyrinum koma í bága við ákvæði alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem Íslendingar eru þátttakendur í. Af þessum ástæðum féll ég frá því að bera fram till. í þessa átt. En þar sem mér var alveg ljóst annars vegar, að sá stuðningur, sem fólst í frv. ríkisstj., mundi verða ónógur, og hins vegar erfiðleikarnir á því fyrir ríkisstj. að binda sér þyngri bagga en gert er í sambandi við þær till., þá ákvað ég að bera fram þá brtt., sem ég flyt hér á þskj. 242 um það, að útgerðarmenn fengju til slíkra nota 10 millj. kr. af þeim gjaldeyri, sem þeir fá fyrir ísaðan og saltaðan fisk og sömuleiðis hrogn, er þeir selja á erlendum markaði, og megi leggja á þessar 10 millj. 100% viðbótargjald, en þeir séu að öðru leyti um það, hvaða vörur þeir flytja inn fyrir þennan gjaldeyri, háðir gjaldeyrisyfirvöldum landsins. En þó ætlast ég til þess, að gjaldeyrisyfirvöldin taki tillit til þess, að með þessu er stefnt að því, að þetta gæti verið til hægs fyrir útgerðina. Þá er lagt bann við því að flytja inn vörur, sem ganga beint inn í vísitöluna, nema því aðeins að færðar séu sönnur á, að slíkur innflutningur valdi ekki hækkun á vísitölunni. Í þriðja lagi er svo lagt til í þessari brtt., að þeir útvegsmenn, sem jafnframt stunda innflutningsverzlun, hafi forgangsrétt að þessum hluta gjaldeyrisins, 10 millj. kr. Tel ég mjög eðlilegt, að þeir menn, sem leggja fram fé sitt í útgerð, eigi að hafa slíkan forgangsrétt, tel ég þá eins vel að því komna og þá, sem eingöngu stunda verzlun, en leggja ekki í neina áhættu í sambandi við útgerð. Þá er í þessari brtt. nýtt ákvæði um það, hvernig haga skuli veitingu gjaldeyrisleyfa og greiðslum af þeim hagnaði, sem kemur fyrir sölu gjaldeyris. Þetta er engan veginn tæmandi í brtt., en hins vegar ætlast ég til, að það heyri undir þau ákvæði, sem felast í 8. gr., þar sem sagt er, að ríkisstj. geti með reglugerð sett nánari fyrirmæli um allt, er lýtur að framkvæmd þessa kafla l. En það er vitanlega algengt í l., að ýmislegt þarf að setja í reglugerð til frekari skýringar á ýmsum framkvæmdaratriðum, sem þar koma til greina. Svo er gert ráð fyrir því, að þetta fé, sem kemur inn fyrir leyfi þau, er hér um ræðir, sé greitt til Fiskifélags Íslands og það greiði það svo aftur til útvegsins. Þetta fé á að koma jafnt í hlut útgerðarmanna og hlutarsjómanna, eftir reglum, sem settar verða um þetta. Í brtt. er svo sagt, að þetta yrði nánar fram tekið í reglugerð, sem ríkisstj. gæfi út, að fengnum till. Fiskifélagsins. Ætla ég því, að að forminu til sé sæmilega frá þessari brtt. gengið og hún að því leyti geti fullkomlega jafnazt á við ýmislegt annað og önnur ákvæði í þessu frv.

Hv. frsm. meiri hl. hefur lýst því yfir, að meiri hl. fjhn. hafi ekki getað fallizt á þessa brtt. mína, þó að hann hins vegar hafi fallizt á það, að það væri rétt, sem fram kemur í þessari brtt., að frv., eins og það liggur fyrir, mundi ekki leysa þá þörf, sem hér er fyrir hendi. Mér er kunnugt um það, að það hefur greinilega komið fram í þeim viðskiptum, sem ríkisstj. og fjhn. Nd. nú hafa haft við forustumenn útgerðarinnar, að þeir hafa talið í fremstu röð til hagsbóta fyrir sig, að þeir fengju aukna úthlutun á gjaldeyri, og hafa lagt á það megináherzlu. Ég býst við því, að þeir hafi í till. sínum gengið allmiklu lengra en í minni till. er gert, og þó er ég þess fullviss, að útvegsmenn og hlutarsjómenn, sem eiga hagnaðar von samkvæmt þessari till., líta á þetta sem allverulega hagsbót fyrir sig. En í stað þess að líta á þessa afstöðu með því að fallast á þessa till., þá hefur fjhn. borið fram brtt., sem mér skilst, að sé meginkjarni í þeim brtt., sem hún flytur, um það, að ríkisstj. sé heimilt að verja allt að 5 millj. kr. til þess að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða. Þó mun þetta vera miðað við það, að greiddir verði að einhverju eða öllu leyti úr ríkissjóði vissir kostnaðarliðir útgerðarinnar, þ.e.a.s. útgerðarmannanna sjálfra, því að það er vitað, að sumum kostnaðarliðum við útgerðina er skipt á milli útgerðarmannsins og hlutarsjómannsins. En mér skilst, að þessi till. miði að því eingöngu að taka þátt í þeim kostnaðarliðum, sem vita að útgerðarmönnum einum saman. Nú vil ég fyrst benda á það í sambandi við þessa brtt., að í þeim stuðningi, sem bátaútveginum hefur verið veittur af hálfu Alþ. á undanförnum árum, þá hefur ekki verið gert neitt upp á milli útgerðarmannsins og hlutarsjómannsins, þannig að hvor fyrir sig hefur borið hlutfallslega jafnt úr býtum af þeim stuðningi, sem ríkissjóður hefur lagt fram í þessu skyni. Samkv. þessu frv., eins og það liggur fyrir af hálfu ríkisstj., er þessari stefnu fylgt, og samkv. minni till. er þessari stefnu einnig fylgt, svo að það, sem út úr því kæmi, væri það, að þetta kæmi báðum þessum aðilum jafnt til góða. Hér í till. meiri hl. fjhn. er aftur á móti farið að gera greinarmun á, hér er aðeins lagt til, að ríkisstj. sé þetta heimilt (sbr. 3. lið brtt. 257). Ég vil vekja athygli á því í þessu sambandi, að aðrar ráðstafanir í þessu frv. eru bundnar við, að Alþ. ákveði að heimila, en hér er ríkisstj. að þessu leyti aðeins gefin heimild til þess að gera þetta. Í þessu felst meiningarmunur. Þetta er varhugaverð braut, og ég efast um, að þeir menn, sem bera till. fram, hafi athugað það eins og vert er, hvort það geti ekki orðið óvinafagnaður út af því, að þarna sé horfið út af þeirri braut, sem fylgt hefur verið áður hér á Alþ.í þessu efni. Ég er engan veginn að halda því fram, að það sé ekki fyllsta ástæða til að veita útgerðinni, eins og nú er komið, slíkan stuðning, en ég tel, að heppilegra hefði verið, — og það átti einnig að geta komið útgerðinni að sama gagni, að líta á þá samninga, sem eru milli útgerðarmanna og hlutarsjómanna, og það var hægt að þjóna þessum hagsmunum báðum fullkomlega með því að fylgja þeirri leið, sem gert var í þessum efnum og gert er einnig með minni till. Ég vil þess vegna vekja athygli á því, að ég tel hér stefnt inn á hættulega braut, sem ekki er fyrir fram hægt að segja um, hvaða afleiðingar kann að hafa.

Að öðru leyti gengur þessi till. ekki nema hálfa leið til viðbótarúrlausnar fyrir bátaútveginn, samanborið við það, sem mín till. gerir, því að í henni felst möguleiki til 10 millj. kr. stuðnings við útveginn, en með henni er ríkissjóði ekki bundinn neinn baggi. Útvegsmenn eiga þá undir því, hvort þeir fá þessar tekjur eða ekki, að hægt sé að selja þessi gjaldeyrisleyfi með 100% álagi. Hins vegar eru líkur til, að þetta mundi takast, eins og viðhorfið er nú, jafnmikill reginmunur og er nú á gjaldeyrisgetu landsins út á við og gjaldeyrisgetunnar inn á við.

Ég minnist þess, að í framsöguræðu hæstv. forsrh. færði hann það sem ástæðu fyrir því, að ríkisstj. gengi ekki lengra í þessum efnum, að hún treysti sér ekki til að taka á sig þyngri fjárhagsbyrðar, en í frv. þessu felst. En nú hefur orðið breyting á þessari afstöðu ríkisstj., þar sem ég þykist vita, að hv. fjhn. muni ekki hafa tekið ákvörðun um að bera fram slíka till. nema í samráði við ríkisstj. Þess vegna finnst mér það einkennilegt, samanborið við þessa yfirlýsingu, að svona till. skuli koma fram, sem felur í sér helmingi meiri stuðning við bátaútveginn en í frv. felst, án þess að ríkissjóði sé með því bundinn nokkur skuldarbaggi. Ég sé heldur ekki, að þessi brtt., sem ég flyt, mundi á nokkurn hátt valda erfiðleikum á framkvæmd þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið í sambandi við innflutning til landsins, þar sem þetta er allt lagt á vald innflutningsyfirvaldanna. Það eru heldur ekki líkur fyrir því, að það verði á næstu árum til svo mikill gjaldeyrir, að það verði ekki full þörf á því að nota þessar 10 millj. eins og annað, sem fæst fyrir gjaldeyrisvörurnar. Þá er það og vitað, að með brtt. fjhn. stendur miklu fjær því en í minni till. að verða við óskum útgerðarmanna og leysa þetta mikla vandamál, bæði af því að hér er um hálfu minni upphæð að nota þeim til handa, og í öðru lagi er hér farið inn á leið, sem þeim er ógeðfelldari en sú leið, sem gert er ráð fyrir í minni till. Það er þess vegna með tvennum hætti ógeðfellt fyrir útgerðina að taka við stuðningi eftir þessari leið, auk þess sem það stefnir fjær því að leysa þetta vandamál að gera það með þessum hætti, en ef það er gert eftir minni brtt.

Ég hef svo gert grein fyrir því, sem í þessari brtt. felst, og stefnu hennar, og þarf ég raunar ekki að fara um það fleiri orðum. Eins og ég sagði áðan, er auðvitað skammt gengið til móts við útgerðarmenn með till. minni. Mér skilst á bréfi, sem hv. form. minni hl. fjhn. var hér með í gær, þar sem útgerðarmenn bera upp vandkvæði sín við hæstv. ríkisstj. og hv. n. og vilja fá gjaldeyri til ráðstöfunar og leyfi til innflutnings, að þeir þarfnist í því skyni um 31 millj. kr., bæði til útgerðar og rekstrar hraðfrystihúsanna. Skv. till. minni er þar veitt aðeins þriðja parts úrlausn, en aftur helmingi minni úrlausn í till. n. Minnir mig, að í bréfinu stæði, að þeir legðu höfuðáherzlu á þetta, en tækju annars eigi af um leið þá, sem farin væri í frv., ef þeir fengju svipaða fjárhagslega úrlausn og þeir fara fram á eftir þessari leið. En auga gefur leið um það, að ákaflega mikið ber á milli.