14.05.1949
Efri deild: 109. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (3064)

120. mál, menntaskólar

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Það dæmist á mig að hafa orð fyrir meiri hl. menntmn., sem gefið hefur út nál. á þskj. 728. Þess ber að geta, að form. n., hæstv. forseti þessarar d., er lasinn, en hefur þrátt fyrir það skrifað undir nál. meiri hl. Það er stutt og laggott, en mælir með frv. eins og það kom frá hv. Nd. Varðandi orð, sem hafa verið látin falla um það, að við höfum eigi viljað leita álits rektors og fræðslumálastjóra, þá er það bæði rétt og ekki rétt, því að þeir voru kvaddir til fundar. Hins ber að geta, að nú er mjög áliðið þingtímans, og töldum við því frekari kvaðningu óþarfa, því að álit þeirra er prentað í þskj., sem fylgir frv. frá Nd. Í þeirri álitsgerð stendur, hvað þeir vilja. Ég hafði lofað að tilgreina fund til viðræðna, en er til kom, kom ég því eigi við.

Mjög hefur verið rætt um málið sjálft, og skal ég vera fáorður. Það hefur valdið ágreiningi, hvort veita skyldi Menntaskólanum á Akureyri þessa undanþágu. En ég hef eigi þá ánægju að hlusta á sjálfan mig tala, að ég hafi skap til að halda þeim umr. fram. Hitt má deila um, játa ég, að um málsástæður þær, sem komið hafa fram, má deila. Ég geri ráð fyrir, að hvort tveggja sé rétt: að eðlilegt sé, að þetta raski skólakerfinu í landinu, en málið eigi miklum og góðum vinsældum að fagna í Menntaskólanum á Akureyri og víða norðanlands. Þessi hlýja héraðsbúa til skólans réð miklu um afstöðu mína. Hér er held.r ekki um mikla röskun að ræða, þar sem ekki er gert ráð fyrir nema 2 ára starfsemi gagnfræðadeildarinnar og auk þess hægt að breyta ákvæðinu fyrr, ef þurfa þykir. En annars er gert ráð fyrir, að þetta renni í sama farveginn að tveimur árum liðnum. — Ég var nú að fá í hendur nál. minni hl. n. og hef ekki enn haft tíma til að lesa það yfir, en sé þó, að þeir geta sætt sig við, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., að deildin starfi aðeins fyrir utanbæjarnemendur. Við höfðum ekki rætt þetta atriði í n., en mér skilst, að í því sambandi skipti meginmáli, hversu mikið húsrúm er til staðar, og þar sem vitað er að allmikill húsakostur er nú í smiðum fyrir M.A., má ætla, að verulegt hlauprúm verði þar fyrir marga nemendur. Ef niðurstaðan yrði sú, að nægilegt kennslurúm væri fyrir hendi í skólanum, finnst mér ástæðulaust að meina Akureyringum að senda nemendur til skólans eða þessarar deildar hans, ekki sízt þegar þess er gætt, að þeir leggja mesta áherzluna á, að deildin fái að starfa áfram við skólann. Meiri hl. n. er ljóst, að minni hl. hefur nokkuð til síns máls, en markar afstöðu sína á því, að hann telur þetta frv. meinlaust og vill uppfylla óskir þeirra fjölmörgu Norðlendinga og annarra, sem beðið hafa um þessa undanþágu, og vildi ekki svipta þá gagnfræðadeildarnemendur, sem þess óskuðu, að vera undir þaki skálans, meðan þeir eru ekki fyrir öðrum nemendum, sem ætlað er rúm í skólanum eftir fræðslulögunum nýju, með hliðsjón af því, að ekki er um nema 2 ára undanþágu að ræða. — Ég þarf nú að fara af fundi, en mun koma fljótlega aftur, en vænti, að meðnm. mínir verði viðstaddir umr., á meðan að minnsta kosti.