18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það verða aðeins nokkur orð út af brtt. meiri hl. hv. fjhn. á þskj. 257. Reyndar er nú búið að ræða þetta mál talsvert, en enn er það eigi fullrætt, og hæstv. ríkisstj. þurfti meiri tíma til að skila því sómasamlega af sér. Ég gerði margar aths. við 1. umr. málsins, og nú er komið í ljós, að þær allar hafa reynzt réttar. Hæstv. stj. verður nú að koma fram með margar brtt. til úrbóta frv., því að hv. fjhn. fann að því. En hún hefur þrjózkast enn, eins og ég benti á, svo að hún gengur nú ekki nema stutt í þessu, og enn er engin lausn finnanleg. Hv. frsm. meiri hl. fjhn., sem talaði af hálfu hæstv. stj., viðurkennir, að skv. skoðun hans sé of skammt gengið, og enn fremur, að ráðstafanir þessar muni eigi reynast fullnægjandi. Hér liggur nú fyrir skýlaus yfirlýsing um það, að samtök útgerðarmanna muni beita sér fyrir stöðvun bátaútvegsins, ef frv. verður samþ. á þessa lund. En hér eru nokkur önnur atriði, og ég vildi nota tækifærið til að beina enn einu sinni fsp. til hv. fjhn. vegna þeirra, — ef þá er unnt að fá svör við þeim. Ég spyr þá fyrst um merkinguna í 3. brtt. á þskj. 257: „Ríkisstj. er heimilt að verja allt að 5 millj. kr. til þess, að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða.“ Hvað þýðir þetta? Hvernig á að haga framkvæmdum? Eiga greiðslurnar að lækka rekstrarútgjöld bátanna, eða eiga þær að ganga til að greiða almennt niður verðlag í landinu? Með því væri bætt afkoma manna við framleiðslu sjávarafurða. Eða á að verja þessum 5 milljónum til að greiða niður vinnulaun hraðfrystihúsanna? Þær munu að athuguðu máli hrökkva harla skammt. Verða þær lítill stuðningur, ef dreifa á upphæðinni á marga aðila, sem standa að framleiðslu sjávarafurða yfirleitt. Ef lækka ætti rekstrarkostnaðinn með þessu fé, þá munar að vísu mikið um það, en hvergi nærri nóg í sambandi við það, er útgerðarmenn þurfa. En hitt er vonlaust verk að ætla sér að dreifa upphæðinni á allan framleiðslukostnað. Hv. þm. Borgf. minntist á það, sem ekki kom fram í framsöguræðu hv. 7. þm. Reykv., að menn mundu nota fjárhæðirnar til að greiða niður þann hluta kostnaðarins, sem félli á útgerðarmenn eina, en hlutarsjómenn kæmu ekki til með að njóta þeirra. Hér er farið inn á háskabraut, og eiga útgerðarmenn engan hlut að þessu. Hér er komið aftan að hlutarráðnum sjómönnum, sem eiga að taka við ákveðnum hluta rekstrarkostnaðar. En ríkisvaldið hleypur til og ætlar að breyta hlutföllunum milli fiskimanna og útgerðarmanna. Fiskimennirnir munu auðvitað heimta hlutföllunum breytt aftur. Hér er verið á hættulegri braut, ef þessi er ætlunin, eins og kom fram hjá hv. þm. Borgf. Ég spyr hv. frsm. fjhn., hvort hæstv. stj. sé eigi fáanleg til að gefa yfirlýsingu hér í hv. d. eða öðrum kosti breyta orðalaginu í till., svo að ótvírætt verði, hvernig nota eigi heimildina. Eða á þetta e.t.v. aðeins að vera loforð á pappírnum? Hæstv. ríkisstj. hafði ekki talið þessa þörf. Einn hæstv. ráðh, hefur sagt; að það þyrfti ekki að auka ábyrgðarverðið, og annar, að stj. gæti það ekki. Er hægt að fá yfirlýsingu um, að þetta skuli verða greitt? Má orðalagið ekki vera alveg tvímælalaust?

Þá er hér atriði í sambandi við II. kafla frv., þann er fjallar um skuldaskil útvegsins. Hv. frsm. minntist á það sem hið eina atriði er hann gerði að umtalsefni og taldi sig getá gert aths. við, að útgerðarmenn vildu fallast á 12: 16. gr. frv. En annars var ég andvígur þeim og taldi þær ganga gegn útgerðarmönnum. Ég var samþykkur ákvæðum 12. gr., þar sem mælt er fyrir um eftirgjöf á lítt innheimtanlegum lánum, og er hún þá ekki mikil gjöf. Og þar eð áður var komin fram till. um eftirgjöf, þá vildi ég fallast á þetta, þó að ég legði eigi kapp á það. Á hinn bóginn eru 13.–16. gr. frv. á þá leið, að ég fullyrði, þó að ákvæðin um skuldaskil hafi verið mistúlkuð, þá séu þau á móti hagsmunum útgerðarmanna. Verði ákvæði þessi að l., vonast ég til að fá tækifæri til að ræða málið við menn, og gaman væri að vita, hve margir hv. þm. verða þá samþykkir skuldaskilum og óska eftir, að þau nái fram að ganga samkvæmt þessum gr. En við fyrri umr. málsins minntist ég á, að það skipti höfuðmáli að fá upplýsingar um, hvort ákvæði 14.–15. gr. ættu einvörðungu að ná til þeirra, er óska að fá skuldir eftirgefnar, eða allra útgerðarmanna, er lána æskja af hinum 6 milljónum, sem l. eru nýsett um. Er hv. þm. kunnugt, að hið háa Alþ. hefur sett l. um þær 6 milljónir, sem skilanefnd hefur til ráðstöfunar. Ég benti á, að orðalagið 15. gr.: „Jafnskjótt sem skilanefnd hefur tekið við aðstoðarbeiðni,skal það tilkynnt skiptaráðanda“, væri þannig, að sæki einhver útgerðarmaður um lán, biðjist aðstoðar hjá n., þá á skv. gr. að tilkynna hann til gjaldþrotaskipta, nema skýlaus yfirlýsing verði gefin útgerðarmönnum af hæstv. ríkisstj. um það, að þessi ákvæði eigi aðeins við þá þeirra, er biðja um lán, sem óska eftir skuldaskilum. En því er ekki hægt að fá þessa yfirlýsingu? Margir lögfræðingar í hópi hv. þm. hafa sitt sagt um þetta hver maður, einn þetta, annar hitt. Ég vil benda á, ef skilja ber 15. gr. á þá leið, að þeir útvegsmenn, sem sækja um lán af 6 milljónunum, þurfi að gangast undir skuldaskil, að þá munu víst engir sækja um þá sýndargjöf, því að engir óska þess að vera gerðir upp, þótt þeir fái 50 þús. kr. Með brtt. fjhn. við 1. mgr.17. gr. er sagt, að ákvæði hennar beri að skilja þannig, að engir lendi í skuldaskilum nema þeir, sem þeirra óska. En engin yfirlýsing er fengin um það, þótt þetta sé til bóta. Ég veit af persónulegum viðtölum við útgerðarmenn, að þeir vilja eigi, að lögleitt sé, að hægt sé að þvinga þá til skuldaskila. Og bót við þessu er með brtt. n. komin inn í 17. gr., þar sem þó eigi er skýrt kveðið á um þetta. Ég vænti þess, að hv. frsm. skilji, hvað ég á við, og hann gefi svör sín. Ákvæði 14. og 15. gr. eru ekki skilin sem skilyrði fyrir því, að eftirgjöfin sé veitt. En þau þýða bara sama og neitun um útstrikun skuldanna, og er þetta því sýndargjöf.

Þá bar ég fram fsp. og beini henni nú til hv. frsm., hvernig skilja eigi síðari málsl. í 1. mgr. 20. gr. Ég sagðist hafa reynt að ráða fram úr gr. og leitaði eftir skýringu á henni, en hana hef ég ekki fengið, og fsp. minni var alls ekki anzað. En ég hef komizt að raun um, að þetta er óskiljanleg vitleysa. Mun hafa fallið úr setning. Það á að hespa málið af og ekki tekið mark á fsp. En það er svo sem í samræmi við aðra meðferð málsins. Hv. þm. fá varla að lesa þskj. yfir fsp. um merkingu mikilvægra gr. er ekki svarað og aðeins kastað fram bráðabirgðaleiðréttingum á augljósum endileysum. Komið er fram, að meginatriði frv. — um að tryggja hraðfrystihúsunum og bátunum nýtt ábyrgðarverð — eru ófullnægjandi, verðið of lágt. Hafa till. mínar, sem gætu leyst málið, verið felldar. Og eftir allt þófið við útgerðarmenn verður talsmaður hæstv. stj. að segja, að samkomulag hafi eigi náðst enn. En hvers vegna er verið að samþykkja þetta frv., ef bátaútvegurinn stendur fastur eftir sem áður? — Ég hef áður flutt brtt. við 2. gr. varðandi geymslukostnaðinn. Vildi ég, að öllum útgerðarmönnum væri gert jafnhátt undir höfði, svo að allir gætu fengið greidd geymslugjöld, ef afli þeirra er geymdur fullunninn um tiltekinn tíma. Þessari till. var vísað frá, en vitanlega varð hæstv. ríkisstj. að lagfæra þetta, svo að nú er eitt látið yfir alla ganga. Það er ekki hægt að binda fiskgeymsluverðið við ákveðinn tíma, og nú eru komnar fram till. um það, þótt ólíkar séu till. mínum. En hér er þó verið að til bóta, ef takast má að smásannfæra hæstv. stj. Ég lagði og höfuðáherzlu á það, að óhjákvæmilegt væri að vinna að því að lækka rekstrarútgjöld bátanna. Í frv. okkar sósíalista er bent á, hvaða leiðir sé hægt að fara í því efni, þar sem eru till. útgerðarmanna í bréfi þeirra. Við þetta er nú hv. fjhn. að bögglast. Nú er verið að glíma við að komast inn á þá braut að lækka útgjöld bátanna. Enn þora menn þó eigi að draga úr þunga vaxtabyrðanna eða lækka vátryggingariðgjöld, þó að vitað sé, að bátarnir séu mjög hátt tryggðir í tryggingu ríkisins, hærra en í frjálsri tryggingu. Hins vegar er nú faríð að tala um að borga eitthvað niður af þeim vörum, sem útvegurinn þarf á að halda. Það fylgir þó með, að neita á smábátaútveginum um þann gjaldeyri til kaupa á nýjum nauðsynjum, er fæst fyrir hans eigin útflutta fisk, á sama tíma og hinir stærri fiskibátar, sem sigla á útlönd, hafa þegar öðlazt rétt til að kaupa vörur fyrir þann gjaldeyri, er þeir afla. En heimabátunum er bannað að gera þetta. Með því að leggja fram um 5 millj. kr. til að greiða niður verðlag á ýmsum vörum fyrir bátaútveginn, þá er í rauninni verið að greiða niður gróða milliliðanna. Hér er því um styrk til innflytjendanna að ræða, en ekki bátaútvegsins. Það er þó ein aðalkrafa bátaútgerðarmannanna, að þeir fái að kaupa nauðsynjavörur fyrir gjaldeyri sinn milliliðalaust.

Ég minntist á það, að II. kafli frv., um skuldaskilin, væri ranglega orðaður, að öll eftirgjöfin, sem þar er ákvörðuð, væri miðuð við síldveiðar 1948, þótt skuldirnar hafi e.t.v. myndazt árin 1945 og 1947. Var þetta ekkert athugað við 1. umr. málsins, en nú tekið til meðferðar af hv. fjhn. Er hér um réttmæta kröfu að ræða, þó að frá stjórnarandstöðunni komi. En hingað til hafa þær leiðréttingar verið fordæmdar, sem komið hafa úr þeirri átt. Ég hef einnig bent á, að ákvæðunum um skuldaskilin væri þannig farið, að óverjandi væri með öllu að hafa eigi haft samstarf við félagssamtök útgerðarmanna. Mun það einsdæmi, að rifin séu í gegn ákvæði um skuldaskil á heilli atvinnugrein, án þess að talað sé við atvinnurekendur, hér útgerðarmenn, enda er þetta aðalundirstrikunin í bréfi sjávarútvegsmanna, því að þeir víta þetta harðlega. Þetta hafði ég bent á, en menn daufheyrðust við. Ég hef sagt, og ég álít, að það sé heilladrýgst að fresta kaflanum um skuldaskil. Verði hann samþykktur, þá mun það koma í ljós, að þetta er vandræðalöggjöf, en það er hvergi hægt að benda á neinar ástæður, er knýi það fram, að þetta sé gert fyrir jól. Búast menn við því, að útgerðin verði gerð upp? Það hefði verið eðlilegt að láta útvegsmenn hafa nokkra hönd í bagga með því, hvort taka eigi útgerðina til skuldaskila. — Ég skal ekki lengja umr. um þetta, ég ætla að þær athugasemdir, sem ég gerði í upphafi, séu augljósar.