16.05.1949
Efri deild: 111. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

120. mál, menntaskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Mig langar til að vekja athygli á nokkrum atriðum í sambandi við þetta mál. Hv. þm. Ak. flutti á þessu þingi frv. um, að Menntaskólinn á Akureyri fengi að starfa áfram óbreyttur í sama formi og hann hefur verið bæði áður en nýja skólalöggjöfin gekk í gildi og eftir að hún gekk í gildi að nokkru leyti. En í nýju skólalöggjöfinni er ætlazt til, að menntaskólarnir verði fjögurra ára skólar og gagnfræðadeildin verði sniðin af. Tilgangurinn með þessu er sá, að inn í fyrsta bekk fjögurra ára menntaskóla ættu rétt á að setjast unglingar úr gagnfræða- og héraðsskólum hvaðanæva af landinu, ef þeir hefðu þreytt landspróf og hlotið minnst aðaleinkunnina 6. En nú mætti kannske spyrja: Til hvers á að afnema þessar deildir hjá menntaskólunum? Jú, til þess að menntaskólarnir á Akureyri og í Reykjavík yrðu ekki búnir að leggja undir sig öll sæti í lærdómsdeildunum. Til þess að jafna leikinn gagnvart nemendum alls staðar að af landinu var gagnfræðadeildin sniðin af menntaskólunum með nýju skólalöggjöfinni eða m.ö.o. til þess, að jafnrétti næðist betur. Ég tel þetta því mjög til bóta og stefnt með setningu þessarar löggjafar mjög í rétta átt, en ef vikið væri nú frá einu eða fleiri ákvæðum hennar, þá væri stigið skref aftur á bak. Þá var með skólalöggjöfinni öllu skólakerfinu nákvæmlega skipað niður þannig, að fyrst er barnaskólastigið í 6 ár, síðan kemur unglinga- eða gagnfræðaskólastigið, sem tekur 4 ár, þá er menntaskólastigið önnur 4 ár og síðast á toppinum háskólastigið. Þannig er því öllu skólakerfinu skipað niður í ákveðna og aðgreinda flokka.

Nú er með frv. því, sem hér liggur fyrir, gert ráð fyrir, að bráðabirgða undanþága sé veitt öðrum menntaskólanum í landinu til þess að halda sinni gagnfræðadeild, og skilst mér, að hann eigi þá ekki að vera 6 ára skóli, eins og hann hefur verið, heldur 7 ára og hafa það hlutverk að fræða börn frá 12 ára aldri þar til þau eru orðin 20 og 21 árs. Ég verð að segja, að ef litið er á þessa breytingu frá skólamannsins sjónarmiði, þá er hún síður en svo skynsamleg eða til bóta, þar sem hún gerir ráð fyrir að brjóta svo kerfisbundna og vel hugsaða skólalöggjöf. Þá er og gert ráð fyrir, að þarna verði nemendur með mjög mismunandi þroska, þ.e.a.s. 12 ára börn innan um 20 ára unglinga, og tel ég það frá uppeldislegu sjónarmiði mjög óheppilegt. Ábyggilega fer mun betur á því, að 12–15 ára börn séu sér og 17–21 árs unglingar sér. En með þessu frv. á að veita heimila til að slengja þessu saman. Öðru máli væri um þetta að gegna, ef reynslan sýndi, að slíkt hefði gefizt vel, en því er ekki til að dreifa. Ástæðan fyrir því, að fram á þetta er farið, er líka allt önnur og styðst ekki við nein uppeldisfræðileg rök. Sú raunverulega ástæða er, að verið sé að byggja stórt heimavistarhús og mikið af því húsnæði verði ónotað, ef þessi undanþága er ekki gefin. En allir sjá, hver fjarstæða það er að fara að umturna kerfi, sem byggt er upp af sérfróðum mönnum, þótt ríkið hafi ákveðið að veita fé til steinbyggingar á Akureyri. Það tekur ekki að eyða orðum að því, hve mikil vitleysa það er að ætla að sniða skólalöggjöfinni stakk eftir steinbyggingu sem þungamiðju. Þá er það annað atriði, sem er uppeldisfræðilegs eðlis, og það er, að á Akureyri starfar stór og myndarlegur gagnfræðaskóli, við beztu ytri aðstæður. Þessi skóli hefur nægilegt húsrými og aðrar aðstæður til þess að taka á móti öllum þeim unglingum á Akureyri, sem miðskólastigið vilja taka. Samkv. nýju skólalöggjöfinni á sá skóli og aðrir gagnfræðaskólar að annast bæði bóklega og verklega kennslu. En gagnfræðanámið hefur verið framkvæmt þannig í gagnfræðadeild menntaskólans, að verklega námið og sumt af því bóklega hefur alls ekki verið þar á skrá, t.d. hefur þannig verið um kristinfræði og allt verklega námið, sem þó er annar meginþátturinn í miðskólastiginu. Það er því ljóst, að unglingar á gagnfræðaskólastiginu fengju öðruvísi og aðra menntun, en ætlazt er til með nýju skólalöggjöfinni í þeim menntaskólanum, sem þessi réttindi fengi. Mér þykir og eðlilegt, að Gagnfræðaskólinn á Akureyri, úr því að hann hefur allar ytri aðstæður til þess, annist gagnfræðakennsluna á Akureyri og að ekki sé hlaupið í kapp við hann með það. Nú er sagt, að fyrir hendi sé autt húsrúm í Menntaskólanum á Akureyri, en það er bara líka í gagnfræðaskólanum. Ef aftur á móti væri ekki húsrúm þar fyrir þá, sem gagnfræðamenntun vildu hljóta, þá væri fyrst ástæða til þess að veita þessa undanþágu. En er nú ekki líklegt, að allt húsrúm menntaskólans notist við kennslu þeirra unglinga, sem á menntaskólastiginu eru? Ég hygg, að svo muni verða, og skal nú leiða rök að því. Vegna þess að nýja skólalöggjöfin heimilar bæjar- og sveitarfélögum að stofna unglinga- og gagnfræðaskóla, þá hefur verið farið út á þá braut víða norðanlands, t.d. á Húsavík, Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði, Reykjum í Hrútafirði og víðar. Það leiðir af sjálfu sér, að unglingarnir stunda frekar það nám, ef þeir geta, í sinni heimasveit, heldur en sækja það í önnur byggðarlög. Þeir ljúka því miðskólaprófi í gagnfræðaskóla sinnar eigin sveitar og fara að því loknu til Akureyrar í menntaskóla; þeir, sem það vilja. Ég tel því, að þegar nýja skólalöggjöfin er komin verulega í gang, þá komi straumurinn aftur til Akureyrar í menntaskólann, og verður þá húsrými að vera til staðar þar fyrir þá nemendur, sem vilja stunda menntaskólanám. Nú eru kennslustofur á kjallarahæð hússins, og æskilegt væri að flytja þær þaðan á efri hæðir hússins. Yrði aðsóknin nú það mikil, að kennslurúm á efri hæðunum dygði ekki, en gömlu heimavistirnar stæðu auðar, þá teldi ég fyrst koma til mála að breyta þeim í kennslustofur. Ég hygg því, að heppilegra sé að gera ekki þessa bráðabirgðabreytingu á skipun Menntaskólans á Akureyri, þar sem hennar er alls ekki þörf vegna þess húsrúms, sem er í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, þótt eitthvað húsrúm sé autt í menntaskólanum eins og er. Heppilegra væri að láta það standa autt í bili, svo að skólinn sé betur undir það búinn að taka við straumnum, þegar hann kemur.

Það er kunnugt, að deilt er um þessa breytingu á Akureyri, hvort hún sé til bóta eða ekki. Þeir, sem standa að Gagnfræðaskólanum á Akureyri, eru mjög sárir yfir því, ef þetta nær fram að ganga.