25.04.1949
Neðri deild: 92. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1908 í B-deild Alþingistíðinda. (3124)

186. mál, eyðing refa og minka

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég hafði nú reyndar ekki beðið um orðið, en ég þakka forseta fyrir þá hugulsemi að veita mér það. Ég vildi svara hv. frsm. landbn. í nokkrum atriðum. Ég þakka hv. n. fyrir þann velvilja að hafa við mig viðræður fyrir 3. umr. málsins.

Hv. þm. vill halda því fram, að ekki fari mikið milli mála. Það eru þó aðallega hin víðlendu heimalönd, sem ég vildi láta afréttar- og upprekstrarlönd koma í staðinn fyrir í l. Ég mundi fella mig mun betur við, að þessi orð kæmu í stað orðanna „víðlend heimalönd“, því að annars væri hætt við misnotkun í sambandi við þetta.

Þá gat hv. frsm. um, að ekki væri mikil breyting í þessu frv. frá því, sem er í eldri löggjöf, en hún er nú bara sú, að hér er það skylda, sem áður var aðeins heimild. Og ekki getur ráðh. breytt með reglugerð frá því, sem lagastafur er fyrir.

Ég er reiðubúinn að ræða við n. um lagfæringar og breyt. á frv. og þakka enn hv. frsm. fyrir þá vinsemd og heiður, er hann hefur sýnt mér með því að bjóða mér að sitja fund um þessi mál með hv. nefnd.