06.05.1949
Neðri deild: 102. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1911 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

186. mál, eyðing refa og minka

Finnur Jónsson:

Ég vildi lýsa fylgi mínu við till. hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Borgf. í þessu máli. Ég hef heyrt málfærslu manna bæði með og móti, og ég hygg, að ekki leiki á tveim tungum, að það sé nauðsynlegt að banna minkaeldi hér á landi með öllu og þá meðfram vegna þess, að það hefur komið í ljós, að ákvæði l. nr. 108 frá 11. ág. 1933, um loðdýrarækt, þ.e.a.s. ákvæðin um að geyma dýrin tryggilega, hafa alls ekki verið haldin, enda mun vart hafa verið reynt að líta eftir því að þessi löggjöf væri haldin.

Sagan um loðdýrarækt okkar á Íslandi er heldur ömurleg. Ég man eftir, að þegar þessi löggjöf var sett á þingi, var talað fyrir henni af mjög miklum hita. M.a. sagði einn þm., að loðdýrin væru til að skapa nýja atvinnugrein á jörðinni. Hér á okkar jörð, Íslandi, hefur þessi atvinnuvegur tekizt alveg hrapallega. Nú er mér ekki vel ljóst, hvort l. nr. 108 frá 1933 eru að öllu leyti óbreytt í gildi. Í 2. kafla þeirra l. er svo ákveðið í 13. gr., að hver sá, sem ætlar að setja á stofn refaræktarbú eða stunda refaeldi eða eldi annarra loðdýra, hvort heldur er til skinnaframleiðslu eða til sölu á lifandi dýrum, þurfi til þess leyfi sýslunefndar. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að sýslunefnd eða bæjarstjórn geti bannað minkaeldi í umdæmi sínu og sömuleiðis eldi refa. Um önnur loðdýr er ekki talað, og er þó vitanlegt, að til eru fleiri loðdýr í veröldinni en þessar tvær tegundir. Ef þessi löggjöf verður þess vegna samþ. eins og hún liggur fyrir, væri hægt að stunda hvaða loðdýrarækt aðra sem er, án þess að sækja um það til nokkurrar opinberrar stofnunar. Ef landbn. hefur ekki flutt þetta svona af ráðnum huga, vildi ég benda á, að mér virðist vera breytt til hins verra frá því, sem er í l., sem ég nefndi áðan. Í þessari löggjöf frá 1933 er bannað að geyma refi eða önnur loðdýr, sem gætu orðið skaðleg, ef þau eru ekki í haldi, nema í fulltryggum girðingum, og varði sektum, a.m.k. 200 kr., fyrir hvert dýr, sem sleppur. Það er enn fremur sagt, að atvmrn. geti sett ákvæði um refagirðingar og aðrar loðdýragirðingar, flutning dýra, lækniseftirlit o.s.frv. Þessi lagafyrirmæli eru, að mér skilst, gersamlega felld úr gildi, ef það frv., sem er á dagskrá, verður samþ., nema því aðeins, að búið sé að setja um þetta einhverja aðra löggjöf, sem mér er ekki ljóst, að hafi verið gert, en gæti þó vel verið. Vænti ég upplýsinga frá hv. frsm. landbn. um þetta. Og vera má, að þessi aths. mín sé óþörf. En ef ekki, verð ég að telja fulla þörf á frekari íhugun.