18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) [Frh.]:

Herra forseti. Það væri nú máske viðkunnanlegra, a.m.k. ef á að reyna að afgr. þetta mál fljótt, að hæstv. ráðh. vildu vera hér viðstaddir í þingsalnum, annars getur það dregizt of lengi, að ég komi að þeim atriðum, sem ég þarf að ræða við ráðh. Ég vildi mælast til þess við hæstv. forseta, að hann léti þau boð ganga til hæstv. ráðh., að ef þeir vilja flýta þessu máli, þá sé bezt fyrir þá að koma og hlusta á það, sem ég hafði ætlað mér að ræða við hæstv. ríkisstj., en á meðan hæstv. ríkisstj. eða partur af henni birtist ekki hér í þingsalnum, mun ég ræða önnur atriði frv. — Hv. frsm. meiri hl. n. sagði hér í sinni framsöguræðu, að hann hefði enga trú á því, sem ríkisstj. hefði sagt og væri að gera með þessu frv., að það væri að neinu gagni. Hann áleit, að ef hann mætti láta í ljós sína persónulegu skoðun, að frv. næði of skammt, og hann kom inn á það í sinni ræðu, að ef til vill gæti svo vel tekizt með sölu og aflabrögð, að þetta fullnægði, en ég held, að hann hafi hugsað nokkuð skammt, þegar hann sagði þetta. Hvað söluhorfur snertir, þá er þar um svo hreina einokun að ræða, að útvegsmenn bíða þar stórtjón vegna þess, að þeir, sem hafa sölsað undir sig yfirráð þessara mála í ríkisstj., hafa unnið alveg sérstaklega illa að þeim, svo að slíkt tjón mun nema tugum millj. kr., og fiskurinn og síldarafurðir hafa verið seldar undir því verði, sem annars staðar var hægt að fá fyrir þær. Það er þess vegna afar einkennilegt að heyra hv. frsm. meiri hl. vera að tala um söluhorfur í þessu sambandi, — hann veit vel, að útvegsmenn hafa þar engin ráð og ekkert vald, ríkisstj. virðist hafa tekið það af þeim. Ef þeim væri leyft að selja sínar afurðir sjálfir og þeir væru frjálsir að því, þá mundi allt öðruvísi vera umhorfs hjá þeim, og þá mundu þeir komast að þeirri niðurstöðu, að þeim væri fært að gera út. Útvegsmenn mundu sjá, að sér væri borgið, ef þeir mættu selja afurðir sínar sjálfir út úr landinu. Þeir gætu verið búnir að selja þær allar, ef þeir hefðu verið frjálsir að því.

Hvað snertir hraðfrysta fiskinn, þá hefur að því er virðist verið mjög mikill möguleiki fyrir hendi að selja hann. Eitt af okkar stærstu viðskiptalöndum hefur beðið um, að sendur yrði út héðan hraðfrystur fiskur, og það er vitað, að ríkisstj. hefur látið undir höfuð leggjast að senda út n. til þess að semja um slíkt. Hv. frsm. meiri hl. veit þetta líka vel. Þetta land hefur ekki aðeins gefið okkur kost á að kaupa af okkur hraðfrystan fisk, heldur hefur gert það án þess að gera það að skilyrði að fá með síldarolíu. En útvegsmenn eru sviptir öllu frelsi um þetta.

Það virðist enn þá fráleitara að tala um aflabrögð í sambandi við þetta frv. Hv. frsm. sagði, að þetta gæti ef til vill fullnægt, ef þau yrðu góð. En hver veit, hvernig aflabrögðin eru, ef flotinn fer aldrei af stað? Þetta frv., sem hér liggur fyrir, mun ekki koma flotanum á fiskimiðin. Það virðist svo um búið af ríkisstj., að hann fer aldrei af stað á veiðar. Ég er reiðubúinn að ræða þetta ýtarlega við hv. frsm. meiri hl. fjhn., a.m.k. á meðan enginn hæstv. ráðh. birtist hér í þingsalnum, en annars mun ég snúa máli mínu til þeirra.

Það liggur fyrir utanrmn., að Tékkóslóvakía hafi beðið um að send yrði þangað n. til þess að semja um fiskafurðir þangað í lok nóv. s.l., en ríkisstj. hefur svikizt um að gera það, og það er ekki komið fram með betri afsökun af hálfu ráðh. fyrir þessu máli en að ríkisstj. hafi ekki fengið neina menn til þess að fara til samninga við Tékkóslóvakíu. Mér er ekki kunnugt um, að einn einasti útvegsmaður hafi verið beðinn að fara þessa ferð, en það kann að vera, að þeir heildsalar, sem venjulega eru sendir í slíkar samningaferðir, hafi verið uppteknir í öðrum ferðum. Þetta er aðeins eitt lítið dæmi um ráðslag hæstv. ríkisstj. og hvernig hún kemur fram gagnvart landi, sem kaupir mest af hraðfrysta fiskinum, landi; sem hefur stærstan markað fyrir hraðfrystan fisk og gefur okkur fullt ábyrgðarverð fyrir þann fisk án þess að tengja slíka sölu við síldarolíu. Þannig fer ríkisstj. að við þetta land og segist svo ekki hafa getað fengið neinn mann til þess að tala við það. Svo kemur ríkisstj. hér fram og segir, að nú þurfi að styðja bátaútveginn, og meira að segja eru blöð heildsalanna nú að tala um, að ríkisstj. sé með frv. um stórkostlegan stuðning fyrir bátaútveginn. En sannleikurinn er sá, að það er verið að leggja álögur á fólkið í landinu, samtímis því sem bátaútveginum er bannað að flytja út fisk og selja afurðir sínar, þó að það liggi í augum uppi, hvaða möguleikar fyrir sölu þeirra afurða eru fyrir hendi. Svo kemur hæstv. ríkisstj. með þetta frv. fyrir þingið og ætlar svo að segja í einum grænum hvelli að koma því í gegn. Ég held, að meiri hl. hv. þm. þessarar d. hafi ofboðið þessi vinnubrögð, og kom það greinilega fram í umr. í gær, þar sem þm. sögðust treysta meiri hl. fjhn. til þess að grípa inn f, þar sem hæstv. ríkisstj. hefði gengið illa frá frv.

Út af því, sem ríkisstj. virðist hafa fallizt á af till. meiri hl. n., vil ég aðeins segja það, að þær 5 millj. kr., sem þar er lagt til, að ríkisstj. sé heimilt að verja til þess að lækka kostnað við framleiðslu sjávarafurða, þýða í raun og veru ekkert annað, en nýjar álögur á almenning. Hæstv. fjmrh. sagði hér í gær, að það væri ábyrgðarlaust hjal að vera að koma með till. um aukin útgjöld úr ríkissjóði án þess að koma með till. um tekjuöflun á móti. Já, hvers vegna er ekki komið með till. um, að þessum 5 millj. kr. sé jafnað niður á þá ríku, sem hafa grætt undanfarin ár, svo að tugum millj. kr. nemur? Það er bezt að vita, hvort þær till. koma og hvaða ábyrgðartilfinning birtist í þeim. Það hefur réttilega verið bent á í sambandi við þessar 5 millj. kr. af hv. þm. Borgf., hversu skiptingin er ósanngjörn í sambandi við hlutarsjómenn, og það er alveg rétt hjá honum. Við sósíalistar erum með till., sem mundi tryggja rétt bæði hlutarsjómanna og eins útvegsmanna. Hins vegar sé ég mér ekki fært að greiða atkv. með till. hv. þm. Borgf., þótt ég muni heldur ekki greiða atkv. gegn henni, því þó að hægt væri að fara réttlátlega með þetta fé, þá treysti ég ekki hæstv. ríkisstj. að gera það.

Hæstv. forsrh. lýsti því yfir í umr. hér í gær, að c-liðurinn í 29. gr. ætti að geta gefið ríkissjóði 4 millj. kr. tekjur, m.ö.o., hann ætlar að flytja inn bíla fyrir 8 millj. kr. En ég hef ekki getað fengið neinar upplýsingar um það, hvaðan eða hvers konar bifreiðar eigi að flytja inn, og ráðh. sagði, að engin áætlun lægi þá fyrir um þetta mál. Þetta er allt út í bláinn talað. Ég hef reynt að afla mér upplýsinga hjá þeim stofnunum, sem með þessi mál hafa að gera, hvort nokkur slík áætlun lægi fyrir. En þessar stofnanir hafa ekki hugmynd um neitt slíkt, þær hafa ekki einu sinni hugmynd um, hvað búið er að flytja inn mikið af skömmtunarvörum. Það er því svo fjarri því, að hér sé um byrjun á áætlunarbúskap að ræða, eins og Alþýðublaðið er að tala um. Hér er aðeins um slóðaskap og einokun að ræða.

Þá vil ég koma að því atriði, sem mér virðist vera erfitt að fá suma til þess að skilja í þessu sambandi, en það er, að útvegurinn þarf ekki að biðja um neina aðstoð, hann þarf fyrst og fremst frelsi og almennilegt skipulag til þess að geta ráðið fram úr sínum málum. Hér hefur átt sér stað mikil einokun, sem hefur ekki einungis þjarmað að útveginum, heldur og allri alþýðu í landinu til ágóða fyrir verzlunarvaldið í landinu. Það er rétt að taka þetta fram, vegna þess að heildsalar í Reykjavík reyna mjög mikið til þess að koma þeirri skoðun inn hjá fólki, að það sé nú verið að hjálpa sjávarútveginum, en þessar aðgerðir, sem kallaðar eru hjálp við sjávarútveginn, eru ekki í öðrum tilgangi gerðar en til þess að verzlunarauðvaldið geti haldið áfram að ræna sjávarútveginn. — Ég vildi enn mælast til þess við hæstv. forseta, að hann sendi boð annaðhvort til hæstv. fjmrh. eða atvmrh., ef þeir mættu vera að því að stanza hér í hv. d. ofur litla stund, svo að hægt sé að ræða við þá um sum atriði sérstaklega í þessu máli.

Það hefur verið upplýst hér á Alþ., að fyrir utan allar þær millj. kr., sem í þessu frv. felst, að eigi að leggja á þjóðina, þá sé á ferðinni annað frv. frá ríkisstj., um benzínskatt. Það er gert ráð fyrir, að hækkunin nemi um 30 aurum á lítra. Hv. þm. N-Ísf. mun hafa gefið þessar upplýsingar hér í gær, og finnst mér rétt, að hv. þm. hafi þetta á bak við eyrað, þegar þeir taka ákvörðun um það, sem nú á að greiða atkv. um, sem er hvorki fyrsta né síðasta höggið, sem ríkisstj. greiðir alþýðu þessa lands.

Þar birtist hæstv. menntmrh. Ég vildi þá leyfa mér að spyrja hann, hvað liði því frv., sem hann tilkynnti, að mundi koma eftir nokkra daga, frv. um breyt. á l. um fjárhagsráð. .... Þá verð ég að segja, að það geti verið örvænt fyrir menntmrh. að búast við því, að þetta frv. komi úr þessari n. með meirihlutastuðningi þar. Ég vil þess vegna segja, að menntmrh. ætti mjög alvarlega að athuga sitt mál, af þeirri yfirlýsingu, sem hann gaf áðan. Það er engan veginn víst, að þetta mál komi frá meiri hl. fjhn., og ég þykist vita, að hann viti nokkuð, hvernig tónninn er innan ríkisstj. viðvíkjandi því. Ég vil í því sambandi leyfa mér að eggja hann lögeggjan að fylgja nú sinum eigin yfirlýsingum. Ég veit ekki betur, en hann hafi í dag í ritstjórnargrein í Tímanum, sem hann annaðhvort hefur ritað sjálfur eða rituð er eftir hans fyrirsögn, talað mjög skarplega til þjóðarinnar um það, hvað gera bæri í þessu máli. Hæstv. ráðh. man áreiðanlega sjálfur, hvað þarna stendur, en ef einhverjir hv. þm. skyldu ekki muna það, vil ég lofa þeim að heyra, hvað hæstv. ráðh. segir þar til ráðamanna þjóðarinnar. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðamönnum þjóðarinnar mætti verða það ljóst, að til langframa hlýtur það að verða þjóðinni ofætlun að taka stöðugt við nýjum og nýjum álögum, meðan hún býr við þvingun í verzlunarmálunum og telur sig vera féfletta í gegnum þau. Siðferðislega eru slíkar álögur líka alrangar, ef ekkert er gert jafnhliða til að draga úr dýrtíðinni, eins og með frjálslegri og bættri verzlun. Þau samtök, sem eiga að gæta hagsmuna neytenda, geta vart gert sér það að góðu, að söluskatturinn sé tvöfaldaður og byrðarnar þarna auknar á almenningi um 17 millj. kr. á ári, án þess að eitthvað sé gert til að gera verzlunina hagfelldari og draga þannig úr dýrtíðinni. Hinir nýju skattar geta verið nauðsynlegir, en því aðeins eru þeir sanngjarnir og réttlátir, að reynt sé jafnhliða að bæta verzlunina og draga úr öðrum milliliðakostnaði. Það er ranglæti, sem ekki er hægt að mæla bót, að álögur á almenning séu auknar, ef milliliðirnir eru á sama tíma látnir halda öllu sínu. Þess vegna hlýtur nú að verða spurt: Hvað gera aðilar eins og Alþýðusambandið, er á þingi sínu í haust setti fram einbeittar kröfur um ákveðnar endurbætur á verzluninni? Lætur hin nýja stjórn sér lynda, að söluskatturinn sé tvöfaldaður og byrðar almennings auknar um 17 millj. kr., án þess að nokkuð fáist fram af kröfum alþýðusamtakanna í verzlunarmálunum? Og ætlar Alþfl., sem einnig setti fram einbeittar kröfur á flokksþingi sínu í haust um endurbætur á verzluninni, að láta sér þetta lynda? Eða er það kannske ætlun þessara aðila að vinna það sér til friðar við heildsalastéttina að láta þessi mál afskiptalaus og stefna verkalýðsstéttunum heldur út í nýja kauphækkunarbaráttu, sem þó getur varla leitt til annars en fjárhagslegs hruns, en þá kröfu settu þau fram á þingi sínu í haust, að grunnkaupið yrði hækkað, ef dýrtíðin héldi áfram að vaxa og ekkert yrði gert til þess að draga úr henni.

Það er bezt fyrir alla aðila að gera sér ljóst, að nýju álögurnar gera leiðréttingu verzlunarmálanna enn nauðsynlegri en áður“.

Þannig mælir Tíminn í dag í ritstjórnargrein, sem er skrifuð í anda menntmrh. Hefur hann nú tækifæri til þess að standa við þessi orð, sem hann hefur skrifað í dag, — tækifæri til að sýna, hvort hann og Framsfl. meina nokkuð með því, sem þeir segja og skrifa. Ef hæstv. ráðh. ætlar að semja við heildsalastéttina, fær hann enga leiðréttingu á þessum málum; það veit bæði hann og ég. Og sé ekki hægt að koma þeirri leiðréttingu fram nú, er það Framsfl. að kenna, ef hann notar sér ekki tækifærið til þess. Þetta vildi ég aðeins segja við hæstv. menntmrh., ef hann skyldi verða of ginnkeyptur við heildsalana. Tíminn skeytir í dag þessum tveimur málum saman: verzlunarmálunum og álögum á þjóðina. Ætlar nú hæstv. menntmrh. að höggva í sundur það, sem Tíminn hefur saman skeytt?