07.04.1949
Neðri deild: 87. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2101 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. Efnisatriði málsins eru þegar kunn þdm. af bréfi því, sem hæstv. forseti hefur lesið upp. Ég vildi eingöngu, að það kæmi fram strax, að þegar við fimmmenningarnir, sem undir bréf þetta ritum, sáum þá frásögn af ræðu hv. þm. G-K., sem hann flutti hér á dögunum . . . (Forseti: Það eru ekki leyfðar umr. um málið.) Ég vil aðeins skýra frá, hvernig á því stendur, að bréfið er dagsett í gær, en ekki borið fram fyrr en í dag. Þegar við fimmmenningarnir hugleiddum í gær, hvert við ættum að stíla þetta bréf, leituðum við ráða hjá skrifstofustjóra Alþingis. Taldi hann eðlilegast, þar sem ummælin hefðu verið viðhöfð í Sþ., að þá væri bréfinu beint til forseta Sþ., og afhentum við honum það fyrir klukkan 2 í gærdag. En síðar kom í ljós, að slíkt mál væri mál þessarar hv. d., og tókum við því bréfið aftur til þess að stíla það til hv. Nd. Í millitíðinni hefur það gerzt, að hv. þm. G-K. hefur af málinu frétt og endurtekið ummælin í Morgunblaðinu í morgun og jafnframt gefið í skyn, að við hefðum tekið bréfið aftur og mundum falla frá þessari kröfu okkar. Þetta veit hv. þm. G-K., að er ekki rétt, og vildi ég þegar í stað leiðrétta þau ummæli, sem fram komu í Morgunblaðinu í gær, að við hefðum tekið þessa kröfu aftur, því að það er helber misskilningur. Að öðru leyti skal ég ræða málið, þegar það kemur til atkvgr.