08.04.1949
Neðri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2103 í B-deild Alþingistíðinda. (3161)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég vil aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan, að vilji hv. 4. þm. Reykv. staðfesta sérhvert orð, sem þingskrifararnir hafa skrifað eftir honum, þá skal ég staðfesta þetta handrit ólesið. Ég hef ekki lesið þetta handrit og skal því ekki segja um, hvort ummæli mín eru rétt eftir höfð eða ekki, en hins vegar hef ég lesið yfir sumar ræður mínar, eftir að þær hafa komið frá þingskrifurum, og hafa sumar þeirra verið mjög rangfærðar. En ég vil standa við öll þingummæli mín, og ég skal skrifa öllum þessum mönnum með eigin hendi þessi ummæli, svo að þeir geti lagt út í baráttuna, og þá skulum við sjá, hver hefur það.