08.04.1949
Neðri deild: 88. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (3163)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Hv. þm. G-K. beindi hér til mín fyrirspurn, sem í fólst svo augljós fyrirsláttur, að ég veit varla, hvort ég á að svara henni. Auðvitað getur það ekki verið algerlega öruggt, að þingskrifarar nái ræðunum orðréttum, jafnvel þótt um ágæta hraðritara sé að ræða, en hér í þinginu eru mjög fáir hraðritarar, svo að meðan við höfum ekki mekaniskt tæki til þess að taka upp ræðurnar, getur slíkt aldrei orðið öruggt. Það kemur því ekki til mála, að við berum ábyrgð á því, sem þingskrifararnir skrifa, enda hefði ég þá ekki þurft að gera fyrirspurn til hv. þm. G-K. um það, hvort hann vilji standa við ummæli sín eins og þingskrifararnir hafa skrifað þau. Hins vegar reikna ég með því, að ummælin sjéu réttari eins og þingskrifararnir hafa þau heldur en eins og þau eru, höfð í grein Morgunblaðsins, auk þess sem mig minnir, að þau hafi verið á þann veg, sem þingskrifararnir orða þau.

Þess vegna spyr ég enn: Er hv. þm. reiðubúinn til þess að standa við þessi ummæli sín? Eða, svo að ég orði það öðruvísi: Mundi hann vilja endurtaka það, sem stendur á blaðinu, sem liggur fyrir framan hann? Þetta vil ég fá skýrt fram án allra útúrdúra.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Snæf. vil ég segja, að það er rétt, sem hann segir, að það er mjög sjaldgæft, bæði hér og í nágrannalöndum okkar, að þinghelginni sé aflétt, en ég vil benda á, að það er líka sjaldgæft, ef ekki einsdæmi, að maður í jafnábyrgðarmikilli stöðu og hv. þm. G-K. er í viðhafi slík ummæli.

Hv. þm. Snæf. gat þess, að beiðni okkar væri alveg þarflaus, þar sem ummælin hefðu verið endurtekin utan þings. Ég veit, að ég þarf ekki að skýra það út fyrir jafngóðum lögfræðingi og hv. þm. Snæf. er, að hér er mikill munur á. Ef farið yrði í mál út af því, sem stendur í Morgunblaðinu, þá yrðu, það þau blaðaummæli, sem yrðu dæmd dauð og ómerk, en ekki ummæli, sem þm. og formaður utanrmn. hefur viðhaft í þingræðu. Þetta eru að vísu formsatriði en hv. þm. Snæf. veit það, að formsatriði geta skipt geysimiklu máli í sumum tilfellum, og þannig er málum háttað í þessu tilfelli.

Því fer mjög fjarri, að við séum að leita að tilefni til þess að fara í mál, enda hafa undanfarnar vikur birzt um okkur margar blaðagreinar, sem mundu vera nægilegt tilefni í fjölda meiðyrðamála. T. d. er augljóst, að séra Sigurbjörn Einarsson gæti farið í fjölmörg meiðyrðamál við Morgunblaðið. Okkur hefur hins vegar ekki dottið í hug að höfða mál út af slíkum skrifum, en þegar sá einstæði atburður gerist, að formaður stærsta þingflokksins leyfir sér hér í þinginu að ráðast með svívirðingum á utanþingsmenn, þá getur enginn furðað sig á, þótt við viljum fá slíkum ummælum hnekkt. Það stoðar því ekki, þótt ummælin hafi verið endurtekin utan þings. Það eru þingummælin, sem við viljum fá dæmd ómerk, og við munum því ekki taka aftur beiðni okkar.

Ég vænti þess svo, að hv. flokksmenn hv. þm. G-K. taki alvarlega beiðni hans um að leyfa málshöfðunina og felli þá frávísunartill., sem hér hefur komið fram. Fyrst hv. þm. G-K. er svona óhræddur, ætti það að vera óhætt. Þegar Jón Magnússon var ráðherra, var þess eitt sinn farið á leit, að málshöfðun yrði leyfð gegn honum, og þá mæltist Jón eindregið til þess, að slík málshöfðun yrði leyfð. Ég vil nú óska þess, að hv. þm. G-K. leggi jafnmikla áherzlu á það við flokksbræður sína, að þeir leyfi þessa málshöfðun, eins og Jón Magnússon lagði mikla áherzlu á, að málshöfðunarbeiðnin yrði samþykkt gagnvart sér.