09.04.1949
Neðri deild: 89. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2112 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég hef sjaldan heyrt jafnmargar mótsagnir og rökvillur í jafnstuttri ræðu sem þeirri, er Gylfi Þ. Gíslason var að ljúka við. Mér finnst sanngjarnt að verðlauna Jónas Jónsson fyrir þá rökföstu ræðu, er hann flutti í byrjun þessa fundar, með því að afhenda honum Gylfa og ræðu hans til meðferðar. — Fáar stuttar athugasemdir get ég þó ekki stillt mig um að gera.

Prófessorinn hóf mál sitt með því að segja, að hvað sig áhrærði væri málshöfðun óþörf. Hann gerði þessa játningu að vísu aðþrengdur af ögrunum Jónasar Jónssonar um kjarkleysi, er hann telur sig tilneyddan að leita skjóls í meiðyrðalöggjöfinni í stað þess að berjast eins og maður gegn mér hér á Alþ. En úr því prófessorinn nú hefur gefið þessa játningu, hvers vegna tekur hann þá ekki beiðni sína aftur? Af þeim fjórum, sem þá eru eftir, eru þrír, þeir Pálmi Hannesson, sr. Sigurbjörn Einarsson og Kl. Tryggvason í ritnefnd „Þjóðvarnar“, blaðsins, sem Gylfi nú ólmur vill afneita, en seint fær þvegið sig af. — Þessir þrír menn eru siðferðilega og lagalega ábyrgir fyrir skrifum þessa blaðs og fá væntanlega að sannreyna, hvað af því leiðir. Eftir er þá Einar Ól. Sveinsson, sem erfiðara getur orðið að sanna á sakir, enda þótt vitað sé um samstarf hans við hina og meðábyrgð á orðum þeirra og gerðum í umræddu máli.

Prófessorinn er ungur þingmaður og fáfróður um það, sem gerzt hefur í sölum Alþingis. En mikill fádæma barnaskapur getur það verið, ef hann í rauninni heldur, að það sé eitthvað spánnýtt, að deilt sé á utanþingsmenn hér á Alþingi. Þinghelgin er ætluð til þess, að þingmenn geti sagt sannleikann um hvern sem er, jafnvel þótt hann sé ekki sannanlegur og slík ummæli varði því við lög, ef sögð eru utan þinghelginnar.

Gylfi Þ. Gíslason segir, að fimmmenningarnir taki ekki aftur beiðni um málshöfðun vegna þess, að þeir vilji fá þingræðuna dæmda ómerka, en ekki það, sem Morgunblaðið hafði eftir mér. Jafnframt lýsir hann þó yfir, að beri eitthvað milli handrits þingskrifara og míns eigin handrits, þá gildi auðvitað hið síðara, þ. e. a. s. það, sem Morgunblaðið hafði eftir mér. Hvaða hugsanagrautur er þetta. Prófessorinn segist vilja fá dæmd ómerk ummæli, sem hann viðurkennir, að ég hafi ekki viðhaft. Enn skýrari verður þessi hugsunarvilla Gylfa, þegar þess er gætt, að hann og félagar hans hafa ekki óskað þess að mega höfða mál út af því, sem greinir í handriti þingskrifara, heldur út af mínum eigin ummælum, eins og Mbl. hefur flutt þau. Nema þessir menntamenn þurfi nú enn að breyta beiðni sinni!

„Tveir feður“, er það ekki nýr kapítuli í sköpunarsögunni, herra prófessor? Ég get að sjálfsögðu enga ábyrgð borið á kommúnistum, hvorki fyrr né síðar, en áreiðanlega voru syndir þeirra fæstar og minnstar meðan þeir voru undir minni handleiðslu, og það samstarf var sæmilega einlægt, þ. e. a. s. fram á síðari hluta sumars 1946.

Það er mikill misskilningur hjá Gylfa Þ. Gíslasyni, ef hann heldur, að hann hafi aldrei styrkt völd kommúnista á Íslandi. Öll barátta hans í umræddu máli var barátta til eflingar kommúnismanum hér á landi. Hitt skiptir þó meiru, að með framboði sínu hefur prófessorinn veitt kommúnistum ótrúlegan stuðning. Slíkur andstæðingur sem prófessorinn er mikils virði. Það mætti segja mér, að þau væru ekki fá atkv., er hrukku frá Alþfl. yfir til kommúnista, þegar verkalýðnum var sýnt framan í Gylfa Þ. Gíslason í stað eins höfuðskörungs Alþingis, Haralds Guðmundssonar.

Gylfa Þ. Gíslasyni þótti hart fyrir mig, að Gunnar Thoroddsen skyldi flytja dagskrártillögu sína án míns leyfis. Það þótti prófessornum lítið tillit til „formanns flokksins“. Ég kem að því atriði síðar. Við skulum spyrja að leikslokum. En sannarlega getur þessi þingmaður djarft úr flokki talað, eða finnst mönnum það ekki? Hann er víst enn í flokki, allra þingmanna ótryggastur formanni sínum og flokki sínum til sárra leiðinda, já, og oft og einatt minnkunar.

Að öðru leyti lýk ég þessum stuttu athugasemdum við ræðu prófessorsins með því að leiða athygli að því, sem var aðalatriðið í hans ræðu, en það var að gera sig sjálfan hreinan á kostnað sinna samseku félaga. „Mér hefði aldrei dottið í hug að stefna“. „Ég hef aldrei nærri Þjóðvörn komið“. ,,Ég er ekki einu sinni í Þjóðvarnarfélaginu“ o. s. frv., sagði Gylfi Þ. Gíslason. Hann er þá orðinn nokkuð finn maður, eftir allt saman: En hvað um hina? Hvað um félaga hans? Vantar þá ekki einhvern málssvara?

Herra forseti. Það hefur hvarflað að mér, að vel væri viðeigandi, að þingtíðindin geymdu dálítið gleggri mynd af því, sem hér er að gerast, en enn er séð fyrir, jafnsjaldgæfan viðburð sem um er að ræða, er 5 svokallaðir menntamenn undir forustu eins hv. deildarm. hafa nú borið fram ósk um, að hv. deild léti af þinghelginni í því skyni, að þeir geti lögsótt einn alþingismann mig, út af ummælum, er ég hafði um þá í þingræðu. En eftir því sem mér bezt er kunnugt, hafa slík tilmæli um afnám þinghelginnar aðeins tvisvar sinnum verið flutt á Alþingi síðustu hálfa öldina.

Til þess að sú mynd, er alþingistíðindin ættu að geyma af þessum mönnum, hégómagirnd þeirra, kjarkleysi, auðnuleysi og atferli öllu, mætti viðunandi teljast, hefði ég þó þurft að rannsaka nokkrar heimildir, lesa blað þeirra og bæklinga. Ummæli þeirra hefðu þurft að hanga á hempum þeirra og skrúða eins og heiðursmerki frá 5. herdeild Íslands fyrir dygga þjónustu í þágu erlends valdboðs. Jafnframt var svo nauðsynlegt að bera þessi ummæli hjáleigunnar, blaðsins Þjóðvarnar, saman við raddirnar frá höfuðbólinu, Þjóðviljanum, til þess með því að sýna, að óp Þjóðvarnar var aðeins bergmál Þjóðviljans, — sanna, að þessir samvöxnu andar voru ekkert nema leiksoppar sterkari vilja, manna, sem hafa ákveðið að fórna ættjörð sinni á altari hugsjónar, sem flestir Íslendingar afneita, hugsjónar, sem fram að þessu hefur svipt þjóðfélagsþegnana öllum helgustu og dýrmætustu verðmætum mannlegs lífs alls staðar þar, sem hún hefur rutt sér rúm og komizt í framkvæmd.

Ég verð að viðurkenna, að ég taldi vesöld fimmmenninganna þegar orðna svo mikla og landslýð öllum svo kunna, að mér sýndist nauðsynjalaust og þá jafnframt tæplega sæmandi að verja páskahelginni til þess að kynna mér til hlítar þá mynd, er þeir hafa teiknað af sjálfum sér. Blaðið Þjóðvörn geymir þessa mynd svo örugglega, að hún gleymist ekki. Sá óþverrahaugur verður grafinn, þegar til málsóknar kemur. Þar inni eru þessir herrar. Þangað skulu þeir sóttir, afklæddir og sýndir almenningi. Svipleiftur af þeim vil ég þó sýna.

Í margar vikur, marga mánuði, hafa þeir ráðizt í ræðu og riti á ýmsa af forustumönnum þjóðarinnar með brigzlum um landráð og föðurlandssvik. Málið sjálft sem um ræddi, Norður-Atlantshafssáttmálann, þóttust þeir þekkja til hlítar, áður en sjálfir höfundar sáttmálans höfðu náð samkomulagi um efni hans, hvað þá orðalag. Í skjóli þess, að við, sem út af fyrir sig óskuðum samstarfs við þær þjóðir, sem okkur eru skyldastar að ætt, uppruna og andlegu atgervi, í því skyni að reyna að bægja voða þriðju heimsstyrjaldarinnar frá dyrum mannkynsins, gátum ekki fullyrt um, hvað í sáttmálanum mundi verða, einfaldlega vegna þess, að enginn vissi þetta á þeim tíma, staðhæfðu þessir menn, að sáttmálinn fæli í sér rétt erlendra þjóða til þess að hafa herstöðvar á Íslandi á friðartímum og jafnframt skyldu Íslendinga til þess að lögleiða herskyldu hér á landi, ef Ísland gerðist aðili. Á þessum forsendum var landslýðurinn blekktur og æstur, ekki aðeins til andstöðu gegn málinu, heldur og til óbeitar, fyrirlitningar og haturs á okkur, sem kunnir voru að fylgi við hugmyndina og ráðnir í því að tryggja þátttöku Íslands í bandalaginu, ef þess væri kostur, „þannig að fullt tillit yrði tekið til sérstöðu Íslendinga sem fámennrar og vopnlausrar þjóðar“. Með þessum hætti gerðust fimmmenningarnir og aðrir slíkir 5. herdeild íslenzku kommúnistadeildarinnar, sem hvað eftir annað hótaði að „hindra“ löglega kosinn meiri hluta Alþingis í því að koma fram vilja sinum með löglegum hætti á löggjafarsamkundu þjóðarinnar.

Um heiðarleik þessara fimmmenninga og einlægni þeirra í baráttunni geta menn svo bezt dæmt, þegar athugað er framferði þeirra eftir að sáttmálinn var fullgerður og lagður fyrir alþjóð manna. Þá kom sem kunnugt er í ljós, að herskylda kom ekki til greina, heldur ekki herstöðvar á friðartímum né neitt það, er þjóðvarnardótið áður hafði staðhæft.

Hvað hefðu nú heiðarlegir menn gert í þeirra sporum?

Ég bið menn að minnast þess, að áróður sinn gegn sáttmálanum höfðu þjóðvarnarmenn byggt einmitt á því, að sáttmálinn fæli í sér herskyldu og herstöðvar á friðartímum. Á þeim forsendum höfðu þeir og herrar þeirra, kommúnistarnir, blekkt landslýðinn til andúðar og andmæla. Á þessum forsendum hafði þeim tekizt að afla mótmæla gegn þátttöku Íslands í bandalaginu. Nú lá fyrir skjalleg óyggjandi sönnun fyrir því, að þessar forsendur væru rangar, ættu við ekkert að styðjast, fyrir þeim væri alls enginn fótur.

Og nú spyr ég enn: Hvað bar heiðarlegum mönnum að gera?

Svarið getur ekki orðið nema eitt af tvennu: Annaðhvort bar þeim að gleðjast yfir því, að Íslandi voru ekki sett nein óaðgengileg skilyrði fyrir þeirri auknu vernd landi og lýð til handa, sem í sáttmálanum felst, játa síðan villu sína og fara hamförum til þess að tryggja, að allir þeir, er látið höfðu blekkjast af orðum þeirra og athöfnum, fengju vitneskju um sinnaskiptin og hvað þeim hefði valdið —, eða, ef þeir samt sem áður voru andvígir þátttöku Íslands, ef ástæður fyrir mótspyrnu þeirra voru ekki þær, sem þeir höfðu ginnt landslýðinn með, heldur allt aðrar, ef þeim var það ekki gleðiefni, heldur vonbrigði, að sáttmálanum fylgdu engin óaðgengileg skilyrði, heldur einhliða fengur Íslandi til handa, — þá bar þeim samt sem áður að játa fyrir almenningi, að forsendurnar voru brostnar og félagssamþykktirnar því reistar á misskilningi. Jafnframt var þeim að sjálfsögðu frjálst að mæla gegn þátttöku Íslands.

Hvorugan þennan kost völdu þessir herrar. Nei til þess skorti þá allt nema kannske menntunina. Þeir völdu aðra leið. Þeir hertu róðurinn. Mennirnir, sem allt þóttust vita um sáttmálann, meðan enginn gat vitað neitt um endanlegt efni hans og form, héldu því nú fram, nú, þegar sáttmálinn lá fyrir orði til orðs og allir vissu því allt um hann, að enginn vissi neitt um sáttmálann. Og nú var baráttan hert. Því hagstæðari sem sáttmálinn reyndist Íslendingum, því fjandsamlegri varð andstaða þeirra. Nú var ekki raka þörf, enda engin fyrir hendi. Helzt var þó haft að vopni, að ekkert væri að marka, hvað í sáttmálanum stæði, enda væri flest miðað við að blekkja Íslendinga. Þetta voru fátækleg rök. Þessi vopn bitu illa, það skildu jafnvel þjóðvarnarmennirnir. En þeir áttu önnur úrræði. Stóryrði, illgjarnar getsakir, hatursfullar persónulegar árásir og brigzl um landráð og föðurlandssvik. Þessi gróður óx og dafnaði í dálkum Þjóðvarnar svo furðulega hratt og vel, að þess er varla von, að menn festi trúnað á, að Hákon skógræktarstjóri hafi við nokkurri plöntu snert í þeim aldingarði.

Ég skal ekki orðlengja um þetta að sinni. Sáningunni var lokið. Uppskerunnar var beðið.

Og nú rann upp hinn 30. marz, dagurinn, sem löglegur meiri hluti Alþingis ætlaði að taka þá ákvörðun, sem „röddin“, Þjóðviljinn, hafði tilkynnt, að „þjóðin“ skyldi „hindra“ þá ákvörðun, sem „bergmálið“, Þjóðvörn, hafði æst landslýðinn gegn með lævísi og blekkingum. Ákveðið var að láta þjóðvarnarhetjurnar boða til borgarafundar í mótmælaskyni. Þá var útskýrt fyrir hetjunum, að þeir væru búnir að æsa landslýðinn svo mikið, að slíkt fundarhald gæti leitt til vandræða, — vandræða fyrir þá sjálfa. Það hreif. Vandræði — það var fyrir sig. En vandræði fyrir þá sjálfa. Slík fásinna kom ekki til greina. Ef um slíkt gat verið að ræða, þá var svo sem engin nauðsyn að vera með nein fundarhöld. Þá voru mótmæli „þjóðarinnar“ a. m. k. þýðingarlítil. Þá varð Alþingi heldur að fá að selja ættjörðina í friði. Þetta smáslys, að kjarkurinn skildi við hetjurnar, varð svo til þess, að húsbændurnir neyddust til að koma sjálfir fram á sjónarsviðið. Þeir boðuðu, sem kunnugt er, fund þennan dag og stefndu þeirri fylkingu að alþingishúsinu.

Mér er óþarft að rekja hér rás viðburðanna 30. marz. Þeir eru öllum alþm. í fersku minni. Blöð landsins hafa birt frásagnir frá þeim, og umræður þær, er fram fóru hér á Alþingi daginn eftir, hinn 31. marz, hafa flutt þá sögu inn í þingtíðindin. Að þessu sinni læt ég nægja að segja, að það var djörf og karlmannleg framkoma lögreglustjóra Reykjavíkur og hans rösku manna, ró, festa og þolinmæði þess liðs, er lýðræðisflokkarnir höfðu kvatt til verndar öryggi og athafnafrelsi Alþingis, og greiðar undirtektir borgaranna í Reykjavík, er formenn lýðræðisflokkanna kölluðu þá á vettvang, er afstýrðu því, að ofbeldisseggjunum tækist að standa við hótanirnar um að „hindra“ Alþingi í störfum. Án þessa hefði þessi dagur orðið söguríkur, og án efa hefðu þá gerzt ýmsir viðburðir, sem sumt af þjóðvarnarliðinu hefði ekki kært sig um að bera ábyrgð á.

En enda þótt tekizt hafi að afstýra því, sem verra var, hvíla þó viðburðir þessa dags sem smánarblettur á þeim, er þar höfðu verið og voru að verki. Ég viðurkenni, að ég sá engar þjóðvarnarhetjur kasta aur, fúleggjum og grjóti inn um rúður alþingishússins né miða þessu að höfði alþingismannanna og þess liðs, sem lýðræðisflokkarnir höfðu dregið saman til varnar þinghelginni. Ég sá yfirleitt ekkert til þess „fína fólks“, meðan á bardaganum stóð, og eftir öðru að dæma tel ég líklegt, að það hafi haldið sig heima. Þeim hefur sjálfsagt þótt skynsamlegt að vera sem fjærst vettvangi, ef til vandræða drægi. Vandræðin voru hvort eð er ætluð öðrum en þeim sjálfum.

Ég get að sjálfsögðu ekki sundurgreint, hvort höndin, sem kastaði fúlegginu, eða hin, sem kastaði aur og grjóti, lét stjórnast af boðskap Þjóðvarnar eða Þjóðviljans. Ég læt nægja að gizka á, að ef hetjurnar sjálfar hefðu verið á vettvangi og tekið virkan þátt í orrustunni, hefðu þeir talið fúleggið í eðlilegra líkamlegu og andlegu samræmi við þá sjálfa heldur en grjótið. En sem sagt, á þessu stigi læt ég það liggja milli hluta og lýk þessum þætti með því að segja, að svo er fyrir þakkandi, að nú mun mega treysta því, að enginn hafi né muni láta lífið út af þeim fólslegu árásum, sem gerðar voru á starfsfrið Alþingis af mönnum, sem logið var að, að Alþingi Íslendinga væri að svíkja þjóðina.

Ég kem þá að því, sem hneykslinu veldur, því, sem knúið hefur þessa 5 saklausu og sauðfrómu hámenntamenn til þess að óska þess, að þinghelginni yrði aflétt, svo að þeir gætu lögsótt mig.

Eins og hv. þm. vita, urðu allsnarpar umræður hér á Alþingi daginn eftir að árásin á Alþingi var gerð. Í þeim umræðum fór ég nokkrum vel völdum orðum um þátt þjóðvarnarliðsins í þeim sorgarleik. Þessi ummæli voru síðan prentuð í Morgunbl. 1. apríl. Fimm dögum síðar senda þessir menntuðu þjóðskörungar forseta sameinaðs Alþingis bréf og biðja þess, að þinghelginni verði aflétt, svo að þeir megi draga mig fyrir lög og dóm út af þessum ummælum. Varla hafa þeir þó afhent forsetanum bréfið fyrr en þeir koma til hans að nýju að biðja hann að skila sér þessu merka plaggi aftur. Áður hafði þó forsetinn sagt mér frá bréfinu, en síðar frá afturhvarfi skörunganna. Taldi ég nú líklegt, að það hefði runnið upp fyrir þeim, að óviðfelldið væri af ekki meira tilefni að bera fram ósk um, að aflétt væri þinghelginni, fremur en hitt, að þeir hefðu komizt á snoðir um, að eftir 5 sólarhringa bollaleggingar hefðu þeir villzt á forseta, sent beiðnina til forseta sameinaðs Alþ. í stað forseta neðri deildar. En hvað sem þessu leið, þóttist ég vita, að hefndarþorstinn og þar með sjálf óskin um að fá dregið mig fyrir lög og dóm lifði enn góðu lifi undir hempu prestsins og með „fína fólkinu“.

Ég leitaðist við að skilja hugarfar „fína fólksins“. Eiginlega hálfvorkenndi ég þeim. — Þeir höfðu barizt óheiðarlegri baráttu og tapað. Enginn vafi gat leikið á því, að fyrir dómstóll þjóðarinnar stóðu þeir sem dæmdir menn. Hver gat sagt um nema samvizkan gerði þeim líka einhver smáóþægindi? — Verst af öllu var kannske, að fólkið dró dár að þeim, — hló að þeim. Sjálft málið, sem þeir höfðu verið að berjast gegn, hafði verið borið fram til sigurs. Kannske var það nú fyrir sig. En mennirnir, mennirnir, sem þeir ætluðu sér að níða niður sem landsölu- og landráðamenn, þeir höfðu sigrað og vaxið af málinu.

Þannig stóð þessi bága og beygða hjörð og spurði: „Hvað skal nú til varnar verða vorum sóma?“ Ekki veit ég, hver menntamannanna fyrstur hrópaði: „Hevreka.“ Ekki veit ég, hver snjallræðið fann. Ekki veit ég, hver vakti vonina um, að það, sem almenningsálitið hafði neitað þeim um, það, sem dómstóll þjóðarinnar hafði varnað þeim, það, sem jafnvel þeirra eigið samvizkubit hafði ekki viljað veita þeim, það kynni kannske ströng íslenzk meiðyrðalöggjöf að geta gefið þeim. Ef til vill mætti takast að telja fólki trú um, að þeirra hlutur væri eitthvað skárri, en efni standa til, ef hægt væri að fá rétta lýsingu af ofbeldi þeirra dæmda ómerka vegna skorts á lagalegum sönnunum.

Ég skildi, að þessum mönnum leið ekki vel. Í marga mánuði höfðu sumir þeirra gengið í rús. Hver árás þeirra á ýmsa forustumenn þjóðarinnar var verðlaunuð með lofi og skjalli frá kommúnistum. Í Þjóðviljanum voru frásagnir um, hvernig mælska þeirra og andagift kveikti eld í íslenzkum hjörtum, bál, sem mundi loga og lýsa fram á veginn o. s. frv. Af öllu þessu tútnaði „fína fólkið út“ í sælu og vellíðan hins hégómagjarna manns, er aldrei hefur fengið þrá sinni svalað. Þessi sæla stóð þar til þeim var bent á, að þeir skyldu dregnir til ábyrgðar.

„Ef eitthvað hefði skeð, ef eitthvað skeður, þá eru það þessir menn, sem ábyrgðina bera og til saka skulu fá að svara“, sagði ég í þingræðunni 31. marz. Þegar þeir heyrðu þessi orð, rann af þeim, þá byrjuðu timburmennirnir.

„Ábyrgð. Guð hjálpi mér,“ sagði prestlingurinn. „Mér líka“, sagði söfnuðurinn. Og nú náði hræðslan á einu augnabliki þeim sigri, sem heilbrigð skynsemi þessara manna gat ekki unnið á mörgum mánuðum. Lof og skjall kommúnista hafði læst sig um hverja taug þeirra. En nú sigraði hræðslan skyndilega. Ábyrgð vildu þeir enga bera. Þá vildu þeir heldur afsala sér lofinu og mótmæla ábyrgðinni með málssókn á hendur mér, enda þótt herrum þeirra, kommúnistum, falli ekki fyllilega slík vinnubrögð.

Mér finnst rétt að leyfa prestinum og hjörð hans að svala hefndarþorstanum og leita um leið þess skjóls, sem meiðyrðalöggjöfin kynni að geta veitt illa stæðu mannorði þeirra. Hins vegar viðurkenni ég, að mitt álit er, að annað tveggja sé, að afnema beri með öllu þinghelgina eða að veita aldrei undanþágu frá henni. Hitt, að setja þingmenn, sem oft og einatt deila fast hver á annan,í þann vanda að úrskurða, hvenær þinghelgi skuli gilda varðandi þingbróður og hvenær ekki, er a. m. k. neyðarúrræði. Ég flýtti mér því að endurtaka ummæli mín utan þinghelginnar, til þess þannig að skapa fimmmenningunum aðstöðu til lögsóknar án þess að ónáða þingið. Ég þóttist og þykist enn hafa með þessum hætti tryggt óskertan rétt þessara manna til að lögsækja mig. Ég taldi því, og tel enn, að Alþingi þurfi engin afskipti að hafa af málinu. Ég vil hins vegar ekki eiga það á hættu að fimmmenningunum takist að telja fólki trú um, að ég hafi lagt stein í götu málssóknar þeirra. Öruggast hefur mér því þótt að fá flokksbræður mína til að samþykkja að aflétta þinghelginni. Þeir hafa margir verið tregir til þess, en þeir hafa þó a. m. k. sumir lofað að láta að ósk minni. Og nú leyfi ég mér að mælast til þess, að hv. þm. Snæf. (GTh) og hv. þm. Ísaf. (FJ) geri þá bón mína að taka rökstuddu dagskrána aftur, enda þótt hún að efni og formi sé réttmæt. Andstæðingana læt ég að sjálfsögðu eina um sínar gerðir.

Að lokum vil ég svo enn endurtaka fyrri ummæli mín, þau sem málareksturinn á nú að hefjast út af. Þau hljóða þannig:

„Í marga mánuði hafa kommúnistar reynt að æsa fólkið til ódæða. Oft hafa þeir beitt fyrir sig mönnum eins og séra Sigurbirni, Klemenz. Tryggvasyni, Pálma Hannessyni, Einari Ól. Sveinssyni og Gylfa Gíslasyni. Þessir fuglar hafa verið látnir ljúga því að landslýðnum, að verið væri að selja landið. Ég get ekki undrazt, þótt blóðið hitni í æskulýðnum, ef hann trúir því, að við séum í rauninni að svíkja fósturjörðina. Ef eitthvað hefði skeð, ef eitthvað skeður, þá eru það þessir menn, sem ábyrgðina bera, og til saka skulu fá að svara, og svo auðvitað þeir, sem þeim stjórna, sjálfir leiðtogar kommúnistanna. Ég efast ekkert um, að Gylfi Þ. Gíslason segi það alveg satt, að hann hafi viðbjóð á atburðunum, sem gerðust við þinghúsið í gær, og vilji sverja af sér sökina, en sem einn af þjóðvarnardótinu ber hann sinn hluta af ábyrgðinni á skrifum þess blaðs. Þar hefur að staðaldri verið spanað til ódæða. Undan ábyrgðinni af því kemst þetta „fína fólk“ ekki. Um það er því óþarft að gera sér vonir.

Þjóðvarnarmenn eru leiksoppar kommúnista og ekkert annað. Kommúnistar segja þeim fyrir verkum. Þeir ákváðu fundarhöld þjóðvarnarmanna. — Í gær brást þeim bogalistin. Þjóðvarnarmenn ætluðu að boða fund kl. 5. Þá brast kjark. Þá komu hinir fram í dagsljósið og boðuðu fundinn sjálfir. Úr því gríman féll þeim úr höndum, urðu þeir að sýna smettið.“

Ég óska engu orði að breyta, finnst dómur minn mildur Ég er ekki lögfræðingur. Ég þekki ekki meiðyrðalöggjöfina og veit ekki, hvort ég á von á einhverri sekt fyrir þessi ummæli. En ég þekki sannleikann í þessu máli og veit því, að ég hef sagt það eitt, sem satt er og rétt. Ég er því ekki hinn seki í þessu máli, heldur mennirnir, sem ég og aðrir hafa kostað til margra ára mennta, að þeir mættu öðrum betur sjá sannleikann, skilja hann og boða og öðrum fremur verða trúað vegna þekkingar sinnar og mikilla metorða, en nú hafa lagt sig í framkróka til að blekkja landslýðinn og ljúga að honum, einmitt þegar mest reið á sigri sannleikans. Þetta eru sökudólgarnir. Þeim á að refsa.

Þessir háu herrar hafa nú borið fram ósk um, að þinghelgin verði rofin. Það má kannske segja, að sú fróma ósk sé meinlaus, vegna þess að ég hef þegar endurtekið ummæli mín utan þinghelginnar, og þannig geta menn með sanni sagt, að úr því svo er, skipti þinghelgin ekki lengur máli hvað þessi ummæli mín áhrærir, og greitt atkvæði í samræmi við það. En hvað sem því líður, mun nú málareksturinn hefjast. Kannske tekst þá að sanna, að þessir fuglar hafa fyrr leitað á þinghelgina. Kannske tekst þá skjallega að leiða í ljós þátt þeirra í árásinni á þingið, grjótkastinu, meiðslunum, er nær urðu manndráp, og öðru slíku. — Yrðu þá málaferli þessi ekki með öllu þýðingarlaus, og mætti þá með sanni segja, að saman fari gifta og gervileiki þessara vesölu manna.