18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Það er rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að ég hef í fjárlagaræðu bent á úrlausnarleið í þessu vandamáli, sem mun hafa farið í svipaða átt og það, sem hann hefur borið fram í sinni brtt. Ég hef líka unnið að því að fá þessa leið gaumgæfilega rannsakaða, og það hefur verið gert, en ekki með þeim árangri, sem ég hafði vænzt, og þess vegna hefur ekki orðið meiri hluti fyrir þeirri skoðun ríkisstj. Fyrir því er fylgt öðrum till., sem eru ekki að öllu leyti á þeim grundvelli, sem við hv. þm. Borgf. e.t.v. helzt kysum, en þó er ekki því að neita, að í þessum brtt., sem hér liggja fyrir, og í frv. sjálfu er að nokkru leyti gengið inn á þennan skilning í vissum atriðum hvað tekjuöflun snertir.

Hv. þm. taldi, að ég mundi, ætti ég þess kost, taka upp slag í Ed. fyrir einmitt svipaðri leið og brtt. hans gengur út á, þar sem ég á ekki hér atkvæðisrétt. En þm. verður að gera sér ljóst, að þar sem orðið hefur ofan á í ríkisstj. að fara aðra leið og þar sem ég hef fylgzt þar með hinum, úr því að hugmyndir mínar töldust ekki heppilegar, þó að ég hafi ekki sannfærzt af þeim rökum, sem sérfræðingar töldu fram gegn þeim, þá teldi ég mig ekki gera málinu neitt gagn með því að kljúfa mig úr á þessu stigi málsins frá þeirri tilraun til úrlausnar, sem hér liggur fyrir.