28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2153 í B-deild Alþingistíðinda. (3178)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Ólafur Thors:

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu fyrir mig til þess, í þessum stutta ræðutíma, sem nú er til umráða, að víkja neitt sérstaklega að hinni löngu ræðu, sem hv. 2. þm. Reykv. hélt og var að mínu viti að mestu, leyti fyrir utan það efni, sem rætt hefur verið, ræðu, sem ég hef áður heyrt sumt úr og á sjálfsagt eftir að heyra eitthvað úr. Hins vegar út af óeirðunum, sem hann nefndi, 1931, þá man ég ekki til, að þá væri nein grjóthríð hér á alþingishúsið, en ég er heldur ekki eins minnugur eins og hv. þm. Ég man hins vegar, að hann fór rangt með það, sem hann hafði eftir mér í sambandi við umr. um sjálfstæðismálið 1937, og sannfærði ég mig um það með því að lesa yfir umræðupartinn.

Það væri rangt, ef ég staðhæfði, að ræða sú, sem Gylfi Þ. Gíslason las hér upp í fyrradag, væri aumari en aðrar ræður hans í þessu máli. Hún var það ekki. Hún var ekki vesalli og heldur ekkert hressilegri en hinar ræðurnar, einfaldlega vegna þess, að þetta var sama ræðan í fjórðu útgáfu, sama efni — sama form. Efnið var eiginlega lítið annað en þetta:

„Fína fólkið er gott fólk. Ég er þó beztur, því að ég ber ekki lagalega ábyrgð á Þjóðvörn, Það er ljótt að vera að lýsa okkur á Alþingi. Þess vegna viljum við, að þinghelginni verði aflétt, svo að við getum stefnt. Ég vil að vísu ekki stefna. Ég þori vel í Ólaf Thors. Samt bið ég um leyfi til að stefna. Ég ætla nefnilega að stefna, þó að ég vilji það ekki. Að sönnu þarf ég ekki þingleyfi til að stefna, því að Ólafur er búinn að endurtaka ummæli sín utan þinghelginnar. Samt bið ég um þingleyfið. Ég geri það til þess að fá þingræðu Ólafs dæmda ómerka, en ekki blaðaummæli hans. Að vísu hef ég, og við, skrifað forseta og beðið um rétt til að stefna, ekki út af handriti þingskrifarans á þingræðunni, sem við viljum fá dæmda dauða og ómerka, heldur út af blaðaummælunum, sem við ekki óskum eftir að fá dæmd dauð og ómerk. Þetta kann að sýnast torskilið, það játa ég, en eitthvað hljótum við að meina. Við erum vísindamenn, svo að við finnum þetta út við rannsókn, þegar tími vinnst til. En sjálfur ber ég enga ábyrgð á Þjóðvörn. Því er þá verið að ávíta mig fyrir það, sem þar stendur? Ég er að vísu mikill vinur þeirra, sem ábyrgðina bera, og er sammála þeim. En samt sem áður hef ég aldrei sagt neitt ljótt, og hver getur sannað, hvað ég hugsa? Og hvað hina varðar, sem ábyrðina bera á fúkyrðum og landráðabrigzlum Þjóðvarnar, þá eru þeir ekki á þingi. Hér eiga þeir engan málsvara nema mig. Er það ekki dæmalaus ósvinna að gera svona illa stadda menn að umræðuefni á Alþingi? Er það furða. þótt við krefjumst þess, að þinghelgin sé afnumin.“

Þannig var nú aðalinntakið úr hinni skrifuðu ræðu prófessorsins. Ég er áður búinn að svara þessu öllu og nenni ekki að vera að þreyta deildina á að endurtaka það. Auk þess er ræðumennska prófessorsins þannig, að hann svarar sér bezt sjálfur. Hjá honum rekst allt hvað á annars horn.

Ég treysti mér heldur ekki til að draga upp skýrari mynd af prófessornum og sálufélögum hans en hann sjálfur hefur gert með málatilbúnaði sínum og málflutningi öllum. Ég veit ekki, hvað verst er, siðleysið, hinn spillti hugsunarháttur, blygðunarleysið, sem því veldur, að þetta fína fólk, sem mánuðum saman er búið að reyna að reyta æruna af öðrum, skuli rjúka til og heimta þinghelgina afnumda, þegar komið er við kaun þeirra, eða tepruskapurinn, geðleysið og móðursýkin og hin fátæklegu rök, sem einkenna málflutninginn, eða loks auðnuleysi þeirra og glámskyggni á, hvernig þeir eru að leika sjálfa sig með þessu atferli sínu. Mynd prófessorsins er af kjarklitlum og vesölum mönnum, sem eru á flækingi á sviði stjórnmálanna, rakalitlir með rangan málstað; góð mynd, en þó ekki listaverk, heldur aðeins spegilmynd af venjulegum sálum af smærri gerðinni. Ágæt mynd.

Prófessorinn bregður mér um drengskaparleysi. Ég viðurkenni, að ég hef tekið hart í hann, þó ekki harðara en málefni stóðu til, en ég get sagt prófessornum það, að ég hef ekki leikið hann grárra en hann hefur leikið sig, og ég hef sýnt honum meira drenglyndi, en hann mér.

Þá fór prófessorinn að snúa út úr áramótagrein minni um Atlantshafsbandalagið. Ég hef ekki tíma til að lesa upp þessi ummæli mín, en vil, með leyfi hæstv. forseta, aðeins víkja að nokkrum af þessum ummælum, án þess að slíta þau úr samhengi. Ég er að sýna fram á, að hlutleysið sé það, sem ég kalla ekki annað en fúið fen, að yfir allri Evrópu sé óttinn eins og martröð — óttinn við ásælni Rússa. Allir hinir, allir, sem kjósa lýðræði fremur en einræði, og einnig allir, sem ekki gera upp á milli austurs og vesturs, hljóta samkvæmt réttum rökum og heilbrigðri dómgreind að hafna hlutleysinu; einfaldlega vegna þess, að því fer svo fjarri, að hlutleysið sé líklegasta ráðið til þess að fjarlægja hættuna, að af öllum þeim úrræðum, sem Íslendingar eiga völ á, er ekkert jafnlíklegt og einmitt hlutleysið til þess að færa yfir okkur alla þá hættu, sem á ferðum kann að vera.

Þetta er mjög augljóst mál og auðsannað. Þess er engin þörf að gera upp á milli austurs og vesturs. Hér nægir það eitt að setja hagsmuni Íslands ofar öllu öðru. Hins vegar er ástæðulaust að tala tæpitungu. Allur hinn menntaði heimur veit, að það er satt, sem að framan segir, að Vestur-Evrópa óttast ágengni Rússa. Allir vita, að skelfing sú, sem þessi varnarbandalagshugmynd Atlantshafsþjóðanna sprettur af, stafar af því hugboði, að hinir fáu valdhafar Rússlands ákveði öllum að óvörum að hefja styrjöld, styrjöld, sem frá þeirra sjónarmiði kann að vera hafin vegna þess, að þeir telja, að styrjöld verði ekki umflúin, og sé þá betra að hefja hana nú en bíða þess, að aðrir ráðist á þá, en styrjöld, sem vestrænu þjóðirnar telja, að hægt sé að afstýra, ef bandalag þeirra verður svo sterkt, að enginn þori að ráðast á þá.

Þetta er það, sem heimurinn hugsar og talar um, svo að segja frá morgni til kvölds, sýknt og heilagt. Þetta er óttinn, sem hefur heltekið þann hluta mannkynsins, sem okkur er skyldastur, og gegnsýrir og eitrar svo að segja hverja stund ævinnar.

Sjálfsagt er Íslendingum hentast að setjast ekki í dómarasess í þessum málum. Forustumenn þessara þjóða, sem lifað hafa tvær heimsstyrjaldir, munu nú þykjast okkur dómbærari um það, hvort hætta sé á ferð, hvaðan hún stafl, hversu skuli til varnar snúizt og hvert gildi hlutleysisyfirlýsingar hafi í þeim efnum. Þeirra dómur er, að hætta sé á ferð, hræðileg hætta; að hún stafi frá einræðisríkjunum og að hlutleysið sé óvitahjal; ekkert sé til varnar annað en sterkustu vígvélar og öflugustu morðtæki, svo sterk og öflug tæki til varnar og árásar, að engir þori að ráðast á þá.

Við Íslendingar verðum nú að reyna að gera okkur grein fyrir, hvort Ísland hafi sérstöðu í þessum efnum og hvort sú hætta, sem yfir nágrönnunum grúfir, muni örugglega leggja leið sína fram hjá okkur eða sé a. m. k. líkleg til þess, ef við förum rétt að. Og enn er hlutleysinu hampað. Því er haldið fram, að hlutleysið sé a. m. k. okkar einasta vörn.

Það er nú að sönnu svo, sem fyrr segir, að Íslendingar hafa vitandi vits glatað hlutleysi sínu. En segjum, að við gleymum fortíðinni, strikum yfir söguna, gleymum óbeinni þátttöku, í síðustu styrjöld, gleymum þeim, sem segja vildu Þjóðverjum og Jöpönum stríð á hendur, líka því, að við vorum herteknir, þrátt fyrir hlutleysið. Segjum, að við snerum baki við fortíðinni, afneitum djöflinum og öllu hans athæfi, íklæðumst hempu einfeldninnar, sakleysisins og tilkynnum öllum heiminum, að héðan af ætlum við að vera hlutlausir, hvað sem á dynur. Er nokkur sá Íslendingur, sem íhugar þetta mál, að hann trúi því, að sú yfirlýsing sé nokkurs virði? Nei, segja menn. Okkar yfirlýsing er að sönnu einskisverð. En við eigum nú þegar að tryggja okkur loforð stórveldanna, a. m. k. Bandaríkjanna, Bretlands og Rússlands, um hlutleysi Íslendinga. Það dugir, það dugir, a. m. k. ef nokkuð dugir.

Það liggur nú að sönnu í augum uppi, að slíka yfirlýsingu geta Íslendingar ekki fengið. Úr því Bretland og Bandaríkin telja, að eina vörn heimsins gegn styrjöld liggi í bandalagi Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, sem verði þó ekki nægjanlega sterkt án þátttöku Íslands, gefa þau að sjálfsögðu ekki út slíka yfirlýsingu, til þess með henni að telja Íslendinga af að verða þátttakendur í bandalaginu. En segjum samt, að yfirlýsingin fengist. Segjum, að Rússar, Bretar og Bandaríkin hétu Íslendingum hlutleysi. Setjum svo, að þriðja heimsstyrjöldin brytist út. Allir vita, að sú styrjöld yrði háð af hræðilegri grimmd, en áður eru dæmi til. Allir vita, að þá yrði barizt um líf eða dauða ólíkra stefna og ríkja. Allir vita, að í þeim skelfilega hildarleik telur mannslífið ekki á móti dropa í hafi. Hver vill viðurkenna sjálfan sig svo heilagan einfeldning að játa, að honum svo mikið sem detti í hug, að sá aðili, sem telur sig tilneyddan eða sér sér hag í því að hefja slíkan voðaleik, svo mikið sem muni eftir því, að hér á þessum smáhólma búa 130 þúsund sálir, sem búið er að lofa að láta í friði. Nei, hvor aðilinn sem er, varnaðaraðilinn jafnt sem árásarmaður, mun, ef út í slíkt er komið, eigi aðeins telja sér heimilt, heldur líka skylt að hertaka Ísland, og því fremur sem reynsla síðustu styrjaldar sannaði hina geysimiklu hernaðarþýðingu landsins. Þetta er alveg umbúðalaus sannleikurinn. Og hann segir skýrt og skorinort þetta:

1. Hlutleysisyfirlýsing Íslendinga sjálfra er einskis virði.

2. Trygging stórveldanna á hlutleysi Íslands fæst ekki.

3. Þótt slík yfirlýsing væri gefin, væri hún ekki jafnvirði þess pappírs, sem hún væri skrifuð á.

Þetta er ljóst, svo langt sem það nær. Hlutleysið er gagnslaust, vita gagnslaust. Við nánari athugun sést einnig ljóslega, að hlutleysið er ekki aðeins gagnslaust, heldur beinlínis hættulegt.

Við skulum hugsa okkur, að Varnarbandalag Atlantshafsríkjanna sé myndað án þátttöku Íslands. Setjum svo, að Vestur-Evrópa sé orðin ein vígvél, Norður-Ameríka önnur helmingi sterkari. Hvar mundi sá, sem slíka styrjöld hefur byrja? Á hvern mundi hann fyrst ráðast? Er ekki a. m. k. ákaflega sennilegt, að hann sneri sér fyrst að þeim, sem hernaðarlega er mikilvægur, en jafnframt óvarinn?

Ísland er í sömu hættu sem önnur Evrópuríki, og ekkert minni. Í því duga engar frómar óskir, ekkert hlutleysishjal. Spurningin er eingöngu sú, hvernig helzt er hægt að draga úr þessari hættu. Svarið er: Að óbreyttum kringumstæðum virðist þátttaka Íslands í varnarbandalagi Atlantshafsríkjanna helgast af tveimur sjónarmiðum.

1. Nægilega sterkt varnarbandalag lýðræðisþjóðanna er haldbezta ráðið til þess að komast hjá styrjöld.

2. Brjótist styrjöld út, veltur á öllu fyrir Íslendinga að forðast, að varnarleysi þess hrópi á árásaraðilann: Taktu mig. Það er útlátalaust, hér eru engar varnir, en mikilvæg hernaðarleg aðstaða.

Þetta var mín skoðun og er mín skoðun. Það er þessi skoðun, sem er til grundvallar fyrir því, að við börðumst fyrir því, að Ísland væri þátttakandi í varnarbandalaginu. Nú veit allur heimurinn, að það er sama að ráðast á Ísland og að ráðast á 12 þjóðir, og veit, að margar af þessum þjóðum eru nú að búa sig sterkum vígvélum til varnar og árásar, — svo sterkum, að við lifum í þeirri von, að enginn þori að ráðast á annan. Þetta er kjarni ræðu minnar, án útúrsnúninga. Það fer vel á því, að þessi maður, sem umvefur sig vísindamennskunnar og sannleikans blæju, skuli vera staðinn að því svo glöggt að falsa heimildir og snúa út úr öllu. — Ég verð að stytta mál mitt, þar sem ég hef lítinn tíma eftir til umráða.

Prófessorinn talaði um, að þessir fínu menn hefðu verið hart leiknir í þinginu, og þá sérstaklega Sigurbjörn Einarsson. Ég held, að það sé mesti misskilningur hjá prófessornum, að séra Sigurbjörn hafi verið verst leikinn, langverst leikinn er prófessorinn sjálfur, og ber margt til. Það fyrst, að hann hefur hlotið nafngiftu eina, er mönnum finnst svo vel sæma, að ég spái, að hún endist honum a. m. k. jafnlengi og líftóran. Heyrist mér þetta allra manna mál. Það annað, að hann hefur hlotið hér hirtingu tveggja foringja sinna, að sönnu verðskuldaða, en svo hlífðarlausa, að ég fullyrði, að þess eru engin dæmi í þingsögu Íslands og ekki þótt víðar væri leitað, svo að ég noti nú orð prófessorsins sjálfs. Það þriðja, að mennirnir, sem hann hefur nú mánuðum saman þjónað undir, kommúnistarnir, sýndu rétt mat á manngildi hans og atgervi öllu, er þeir sendu honum svo hljóðandi kveðju í blaði sinu:

„Gylfi Þ. Gíslason virtist staðráðinn í að ljúka þessu kjörtímabili svo, að hann eigi vísa vissa frægð í íslenzku stjórnmálalífi, þótt tímabilin yrðu ekki fleiri. Í gær hafði hann ekki við að afneita, afneita blaðinu Þjóðvörn, afneita Þjóðvarnarfélaginu.“

„Vísa vissa frægð“ — frægur að endemum. Þá eru þó Gylfa goldin launin að lokinni þjónustu.

Verst hefur þó Gylfi leikið sjálfan sig í þessum umræðum. Eru um það óteljandi dæmi og öllum kunn. Skal ég aðeins nefna það síðasta.

Í síðasta tölublaði Þjóðvarnar, er út kom 25. þ. m., segir Gylfi Þ. Gíslason í grein undir eigin nafni:

,,Það er kunnugt af því, sem ég hef sagt og skrifað, að ég er sammála þeirri stefnu, sem Þjóðvarnarfélagið og Þjóðvörn hafa fylgt.“ Enn fremur: „Í ritnefnd Þjóðvarnar eru menn, sem ég met mjög mikils og þekki mjög vel.“

Ég les illa Þjóðvörn og hef sannast sagt sjaldnast séð hana, þó að ég hafi haft fregnir af, hvað hún hefur sagt. En mér varð nú á, svona eftir að ég hafði lesið þessa yfirlýsingu Gylfa um, að hann sé „sammála“ Þjóðvörn, að líta aðeins á næstu greinina á eftir þessum ummælum Gylfa sjálfs. Þar stendur:

„Í íslenzkum stjórnmálum er klíka sú, sem nú stjórnar Alþýðuflokknum, eitthvert allra óhugnanlegasta fyrirbæri í pólitískri sögu okkar.“

O-já, það er þá þetta, sem Gylfi er sammála um. Eða er þetta þá bara sagt til þess að ögra honum, bara til þess að í sjálfri Þjóðvörn sjáist; hversu lítilmótlegur maður Gylfi er? Hann er sjálfur ritari þessa flokks, sem þetta stendur um. Ég hugsaði: Er meira blóð í kúnni, og las áfram. Þar stendur:

„Fámennur hópur manna hefur skriðið upp á bök fátæks verkafólks, ginið yfir hverju beini og bitlingi, sem auðið var um að bítast, en svikið við almenning hverja skyldu, flokkslega skyldu, mannlega skyldu.

Og til að tryggja sér betur valdaaðstöðuna, ganga þessir óseðjandi beinamenn til undirgefinnar þjónkunar við hatrömmustu fjendur hins vinnandi fólks, svo að slíks eru fá eða engin dæmi. Hagsmunamál fátæks almennings eru fyrirlitin, þau eru brotin niður samtímis og bein hleðst á bein framan við gin hinna gírugu. Fólkið, sem þeir ginntu, er smáð og einskis virt, það er í jafnri stígandi felldar á það þyngri og þyngri byrðar, um leið og embættum klíkunnar fjölgar. Þeir kalla sig flokk — Alþýðuflokk. Þeir eru hlutafélag — veiðiklær í landhelgi íslenzkra almenningshagsmuna. Þetta hefur verið fylgikona Sjálfstæðisflokksins um nokkurra ára bil.

Og nú hefur Eysteinn Jónsson fengið girndarauga á gripnum. Hann biðlar til dækjunnar í blaði sínu.“

Og enn fremur:

„Um mannorð, spillt, valdasjúkt hugarfar, svik við fólk og málefni, þjóð og land, hverju skiptir það? Þar þarf engin breyting á að verða — að blaðsins dómi.“

Ég verð að segja, að mig rak í rogastanz yfir ógæfu þessa manns. Hann er sjálfur stýrimaður á þessari „dækju“. Um beinin skal ég ekkert segja, ég hef unnið tvö ár með tveim Alþýðuflokksmönnum og ekki orðið var við ásælni þeirra. En prófessorinn var í smánefnd fyrir ríkisstj. á s. l. hausti og ætlaði að taka mörg þúsund krónur fyrir, en gat ekki fengið, af því að aðrir þm., sem sæti áttu í þessari n., þessi n. vann að rannsókn sjávarútvegsmála, vildu ekki taka neitt fyrir þessi nefndarstörf. Ég þakka svo hæstv. forseta fyrir þolinmæðina. Mér finnst prófessorinn eiga að fá að ráða, hvernig um þetta mál fer, hvort málið fer fyrir dómstólana. Hans dómur mun nægja honum. Verði honum að góðu.