18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. vitnaði í Tímann og las úr honum hluta af ritstjórnargrein og sagði, að það væri óskynsamlegt af mér að fylgja þeim málum, sem hér væri verið að samþ., án þess að sú stefna fengist samþ. í verzlunarmálum, sem ég og aðrir berðust fyrir, — út af þessu við ég segja, að ég hef ekki farið dult með það, að við teldum, að gera þyrfti gagngerða stefnubreytingu í verzlunarmálunum, — vita allir, í hverju hún er fólgin, - og ekki aðeins um leið og þetta er gert, heldur fyrir löngu, en hitt er annað mál og því óskylt, að þótt slík stefnubreyting fáist ekki fram þessa dagana, mun ég samt fylgja þeim ráðstöfunum, sem skjótast fást fyrir útveginn, þó að dráttur verði á, að sú stefna í verzlunarmálum, sem ég hef borið uppi, beri árangur.

Í sambandi við áhuga hv. 2. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. fyrir þessum málum, verzlunarmálunum, finn ég ástæðu til að undirstrika, að þessir þm. hafa látið flytja úr sínum flokki till. um ráðstafanir, sem mundu, ef samþ. væru, hafa í för með sér miklu þyngri byrðar á landsmenn en þær till., sem við ætlum að framfylgja fyrir sjávarútveginn, því að þótt þessir þm. haldi, að menn séu svo miklir sauðir að álíta, að greiða megi þær milljónir, sem ríkisstj. ætlast til, án þess að taka peningana annars staðar, eru menn ekki svo miklir sauðir að sjá ekki, að till. þeirra eru um ráðstafanir, sem hefðu í för með sér miklu þyngri álögur en þær, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. En þó að þeir hafi lagt þetta til, hef ég ekki orðið var við, að í þeirra till. felist nokkur krafa um að leysa verzlunarmálin úr læðingi. Þetta er fádæma ómerkileg framkoma hjá þessum hv. þm. og ekki til þess fallin að auka traust þeirra manna á þeim, sem álíta, að þeir séu í alvöru að berjast fyrir þessum þýðingarmiklu málum. Menn ættu að minnsta kosti að sjá, að þetta hefur þá ekki verið tengt saman á þann hátt, sem hv. 2. .þm. Reykv. talaði um.

Ég vildi segja þessi örfáu orð til þess að kvitta fyrir þessa orðsendingu frá 2. þm. Reykv.