28.04.1949
Neðri deild: 94. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2160 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

Málshöfðunarleyfi gegn þingmanni

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í þessum umr. og ætlaði ekki að gera það, en mér finnst ástæða til að segja nokkur orð út af síðustu ræðu hv. þm. G-K., þar sem hann hefur leitt inn í umr. störf n., sem var við athugun á hag bátaútvegsins af hálfu ríkisstj. og eftir hennar beiðni á s. l. hausti og fyrri part vetrar, eftir að þing kom saman. Í þessari n. vorum við hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Barð., sem var form. n., og þar að auki tveir utanþingsmenn. Við eyddum allmiklum tíma í þetta starf og áttum oft samtöl við fulltrúa frá L.Í.Ú. og fleiri um hag vélbátaútvegsins. Eftir að þessum nefndarstörfum lauk, kvaddi form. n., hv. þm. Barð., okkur eitt sinn saman á fund, m. a. til að ræða um það, hvort við ætluðum að senda reikninga til ríkisstj. fyrir þessi störf, og var nokkuð um þetta rætt fram og aftur. Mér er óhætt að fullyrða, að á þeim fundi var ekki rætt af neinum okkar um neina ákveðna upphæð í þessu sambandi, og niðurstaðan af þessu varð sú, að við komum okkur saman um það allir, og ágreiningslaust, að gera engar kröfur á ríkissjóð fyrir þessi störf og leggja það á vald ríkisstj., hvort hún borgaði okkur fyrir þetta. Engar kröfur, engir reikningar og engin upphæð var nefnd. Um þetta var enginn ágreiningur milli okkar þriggja þm. Ég sé ástæðu til að taka þetta fram, úr því þetta var gert að umtalsefni af hv. þm. G-K.