18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það var siður í sveitinni, í minni ætt, að það var kembd ull og spunnið fyrir jólin og reynt að spinna vel og kemba vel. Síðan átti að prjóna úr duggarabandinu sokka handa sjómönnum, og var þá oft klappað á kollinn á börnunum og sagt: „Láttu nú ganga á sokkinn þinn, bráðum koma blessuð jólin“. Mér finnst, að hæstv. ríkisstj. hugsi eitthvað svipað. Hæstv. fjmrh. kemur hér fram í dag og segir: „Það má til að hraða málunum, því að bráðum koma jólin, og þm. þurfa að komast heim“. En ég vil í þessu sambandi segja það, að ríkisstj. hefur láðst það, sem gætt var í sveitinni, að kemba og spinna vel, því að hér er illa kembt og illa spunnið. Hér er kastað fram frv., sem á að varða mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar, svo illa undirbúnu, að jafnvel ríkisstj. hefur ekki skilið sumar greinar þess, jafnvel ekki lesið þær, svo að starfsmenn verða að leiðrétta það. Síðan kemur einnig fram, að þm., sem talað hafa úr öllum flokkum, eru óánægðir, — sjá ekki hið góða verk ríkisstj., sjá vandræði fram undan, og kemur í ljós, að þeir menn, sem lögin eru miðuð við fyrst og fremst, segja: Það er ekkert í þessu frv., sem geti tryggt það, að útgerðin fari á stað, eins og til er ætlazt. — Því segi ég það: Hér er bæði illa kembt og illa spunnið. Það er til lítils fyrir hæstv. ríkisstj. að ætla að klappa á kollinn á þm. eins og litlum börnum og segja: Prjónið nú, því að bráðum koma blessuð jólin.

Ég vil svo minnast á einstök atriði. Tveir þm. hafa gert að umræðuefni þá till., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 262. Í fyrsta lagi form. fjhn., hv. þm. V-Ísf. Hann viðurkenndi, að rétt væri, að till. væri búin að liggja alllengi hjá fjhn. Hann drap og á, að önnur hliðstæð till., frá hv. þm. V-Húnv., hefði eins legið alllengi hjá hinni virðulegu n., og sagði svo: „En þetta er gert af ásettu ráði“. Þetta skil ég vel, og hér er mælt af fullum sannindum. Þetta er gert af ásettu ráði, og skýringin er sú, að hæstv. ríkisstj. hefur nú á prjónunum allveglegt frv. um viðskiptamál, og þess vegna verður að bíða með afgreiðslu þessa frv., þar til hún hefur lokið þeirri frumvarpsgerð. — Þá kemur og menntmrh. og gerir till. mína að umræðuefni og segir hér í fyrri ræðu sinni, að hann muni ekki ljá henni fylgi. Hann færir það til, að hér sé verið að tengja hana við mál, sem hún sé ekki réttilega við tengd. Hans eigið blað mótmælir þessari skoðun í dag. — Hann sagði einnig, að ríkisstj. væri að undirbúa frv. um allsherjar lausn viðskiptamálanna. Ég vil minna þennan ráðh. á það, að í hittiðfyrra var rætt um svipaða till. og á þessu þingi. Minnist hann þess, að hann taldi ekki tímabært þá að fylgja henni? Hann skaut sér hjá að standa með. Man hann það svo, að á fundi S.Í.S., þar sem hann var varaformaður, var gerð einróma samþykkt um þá stefnu, sem felst í þessari till., sem ég flyt nú? Ég man það næst til þessa máls, að efni þessarar till. var flutt af framsóknarmanni í fjárhagsráði. Till. var samþ. þar með atbeina Framsfl. og Alþfl. Þaðan fór hún til ríkisstj., en var felld þar með atbeina Sjálfstfl. og Alþfl. Man hæstv. ráðh. eftir þessu? En hann hefur þolinmóður ætlað að bíða eftir lausn, eftir því að hinir virðulegu samstarfsmenn hans kæmu með lausn, sem hann gæti við unað. — Man hann svo, að á síðasta Alþ. var þessi till. fram borin? Um hana urðu þá allharðar deilur, sem hófust þannig, að hans ágæti flokkur vissi ekki, í hvorn fótinn hann átti að stiga, en endaði þó með því, að hann stóð með frv. gegnum allar umr. á þinginu. Man svo hæstv. ráðh. verkaskiptingu Alþfl., sem bjargaði málinu í gegn, og sami flokkur, sem drap það í Ed.? Þekkir ekki hæstv. ráðh. samstarfsmenn sína — þennan fráskilnaðarleik Alþfl.? Er hann enn tilbúinn að bíða eftir lausn á þessu máli í sambandi við þessa menn? Hann segir svo vera. En þessi loddaraleikur hans mun ekki finna hljómgrunn hjá þeim mönnum, sem léð hafa honum fylgi og treysta honum sem forustumanni samvinnumanna í landinu.

Í síðari ræðu sinni kemur svo hæstv. ráðh. inn á nokkrar aths. og fer að tala um það, að mikið sé ábyrgðarleysi sósíalista, því að þeir hafi nú vissulega komið hér fram með till. um að þyngja byrðarnar á herðum þjóðarinnar, en hafi ekki í því sambandi bent á neina lausn í verzlunarmálunum. Athugum þetta nánar. Höfum við lagt til að þyngja byrðarnar mikið? Ég veit, að ráðh. á við það, að flokksmenn mínir hafa flutt frv. um, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir nokkru hærra fiskverði en ríkisstj. ráðgerir. Hefur sjútvmrh. reynt að reikna út, hver munurinn mundi vera, og varð niðurstaðan 61/2 millj. Ég ætla, að hæstv. menntmrh. muni mega treysta þessum félaga sínum úr ríkisstj. til þess að hafa útreikninginn að minnsta kosti ekki okkur í vil. Ég held því, að slá megi föstu, að sá hæsti munur, sem þarna gæti verið um að ræða á okkar till. og ríkisstj., sé 61/2 millj., sé litið á frv. eins og þau voru lögð fyrir þessa hv. d. En síðan hefur ýmislegt gerzt. Síðan hafa verið bornar fram brtt. að tilhlutun stj: á þskj. 257 og þar gert ráð fyrir að bæta við útgjöldin 5 millj. Þá er munurinn á till. sósíalista og ríkisstj. með ýtrasta reikningi 11/2 millj., en í augum menntmrh. urðu þetta milljónatugir. Hann kann að margfalda!

Þá lýsir hæstv. ráðh. því yfir, að það sé mjög ómerkileg framkoma af mér að koma með þá till., sem hér um ræðir, það sé skyndiákvörðun, sem kastað sé inn í þingið. Já, einmitt það, skyndiákvörðun! Ég hef nú rakið fyrir hæstv. menntmrh. þá sögu, að till. sama efnis var flutt í hittiðfyrra, nákvæmlega eins orðuð till. var flutt í fyrra og snemma á þessu þingi, og stefna þessarar till. hefur verið samþ. á þremur eða fjórum aðalfundum S.Í.S. Og svo kemur varaformaður þeirra samtaka og talar um skynditillögu af rasandi ráði! Nei, það er verið að flytja hér þaulhugsaða, þaulkunnuga og þrautrædda till., og það er einmitt hans eigin flokkur, sem réttilega hefur bent á, að þessa till. ætti að tengja við málið, sem fyrir liggur. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti að spara sér stór orð um skynditillögur o.s.frv. Það þarf ekki að fjölyrða um þessa till. Hún er þaulhugsuð og þrautrædd, og nú reynir á það, hvort Framsfl. og Alþfl. vilja ganga gegn stefnu heildsalanna eða fylgja henni. Það kemur í ljós, og þau örlög fá þessir flokkar ekki umflúið.

Það eru örfá fleiri atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni. Hv. 2. þm. Rang. flytur brtt. við 22. gr., og fer hún í þá átt að fella undan söluskatti landbúnaðarvélar og fóðurbæti. Fjmrh. hefur nú upplýst, að skilja beri frv. þannig, að fóðurbætir sé undanþeginn. En ég vil leggja hina mestu áherzlu á, að þetta nái fram að ganga að því er landbúnaðarvélar snertir, og stafar það af því fyrst og fremst, að ég hef í allshn. fengið tækifæri til að kynna mér till., sem flutt er af 8. þm. um fyrirgreiðslu á innflutningi landbúnaðarvéla. Þessi 7 manna nefnd hefur orðið sammála um það, að mjög vel athuguðu ráði, að hin mesta nauðsyn bæri til að greiða eftir föngum fyrir þessum innflutningi. Og mér sýnist, að Alþingi sé að taka með annarri hendinni, sem það gefur með hinni, ef það ætlar að gera það tvennt í senn, annars vegar að fela ríkisstj. að flytja inn allt hvað verða má af landbúnaðarvélum, en hins vegar skattleggja þennan innflutning stórlega, þannig að bændur, sem áreiðanlega eiga erfitt með að greiða þessar vélar, þurfi að kaupa þær stórum hærra verði, en ella. Ég mun því mjög eindregið mæla með till. hv. þm. og mun, ef hann tekur hana aftur, taka hana upp.

Þá vildi ég víkja nokkrum orðum að 29. gr. frv. Ég drep fyrst á b-lið. Þar er svo fyrir mælt, að af gjaldeyrisleyfum til utanferða, öðrum en leyfum til námsmanna og sjúklinga, skuli greiða 75 af leyfisfjárhæð. — Það er ljóst, að fyrir alla venjulega menn þýðir þetta bann við að ferðast til framandi landa. Það þýðir átthagafjötra fyrir alla, sem eru ekki vel efnum búnir. Vera má, að það sé í samræmi við stefnu hæstv. ríkisstj. að setja þetta bann, og ætla ég, að svo sé, því að hún hefur áður sýnt í verki, að hún vill einangra okkur, þar sem hún hefur komið því til leiðar, að ómögulegt er að fá útlendar bækur á Íslandi, svo að fræði- og vísindamenn, svo sem læknar, verkfræðingar og aðrir, geta ekki keypt nauðsynleg tímarit til þess að fylgjast með í fræðum sínum. Ríkisstj. hefur svo fullkomnað verkið með því að banna mönnum einnig að fara úr landi. En ég vil benda á þá staðreynd, að það er hópur manna, sem þetta kemur ekki hart niður á, og bið ég hæstv. forseta að afsaka orðið, en það eru nokkrir gjaldeyrisþjófar. Þessir menn sigla oft og tíðum, fá gjaldeyrisleyfi upp á eitt, tvö, þrjú, fjögur hundruð kr. — hvað munar þá um að bæta við 75%o af þeirri leyfisfjárhæð — og dvelja svo úti mánuðum saman fyrir stolinn gjaldeyri. Segjum, að ríkisstj. hafi hugsað þetta mál og hugsi sér að koma í veg fyrir það, sem kallað er lúxusflakk. Jafnvel þó að það gæti verið gott, að menn veittu sér lúxus, er þó réttlátt að hindra það, þegar aðrar þarfir brýnni kalla að. En það á ekki að gera það svona. Einmitt þetta kemur niður á þeim, sem fara ekki í lúxusflakk. Það mætti benda á aðra leið. Það mætti greiða ákveðna upphæð fyrir hverja viku, sem menn dveldu erlendis, því að þá mundu gjaldeyrisþjófarnir ekki sleppa, þá yrðu þeir að borga líka. Ég býst ekki við, að hæstv. ríkisstj. muni á þetta fallast, því að ég veit, að þessir menn eru undir hennar verndarvæng. En aðrir menn, sem kynnu að vilja fara til annarra landa. eru ekki undir væng hennar.

Þá eru fleiri atriði í þessari gr., sem ég vildi athuga. Í c-lið er gert ráð fyrir, að lagt verði innflutningsgjald á bila, er nemi 50% af leyfisfjárhæðinni. Hv. þm. N-Ísf. bar fram till. um að undanskilja þessu gjaldi jeppabila og aðra bila í þágu landbúnaðarins. Hann hefur nú tjáð mér, að hann muni taka þessa till. aftur, enda hefur fjhn. gengið nokkuð til móts við till., þar sem hún hefur í brtt. sinni á þskj. 257 breytt þessu þannig, að af innflutningsleyfum fyrir fólksbifreiðum skuli greiða 50%, en af jeppa- og vörubifreiðum 25%. Ég vil nú minna hv. þm. á, að 8 þm. hafa sameinazt um að flytja till. um að leyfa innflutning á ekki færri en 600 jeppabílum á komandi ári, sem notaðir verði til landbúnaðarstarfa. Allshn. fékk þessa till. til meðferðar og komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri rétt að óska eftir aðeins 600, heldur 750 jeppabifreiðum. Allir þeir 7 menn, er þessa n. skipa, voru sammála um, að þörf landbúnaðarins fyrir þessa bíla væri svo brýn, að hækka yrði töluna upp í 750. Mér er tjáð, að í innkaupi verði þessir bílar 8 þús. kr. Þetta þýðir þá, að á hvern landbúnaðarjeppa, sem inn verður fluttur, á að leggja 2 þús. kr. álag samkv. till. fjhn. Og sé miðað við 750 jeppabíla, eins og allshn. lagði til, mundi þetta þýða 11/2 millj. kr. skatt á bændastéttina. Minna má nú gagn gera að mínum dómi. Í allshn. hef ég orðið sannfærður um það, að þörfin fyrir þessa bíla er mjög mikil. Ég veit, að í sveitunum er nú ,,þarfasti þjónninn“, sem einu sinni var kallaður svo, mjög að þoka fyrir vélunum, og meðal annars eru það jeppabílarnir, sem koma í hans stað. Hér er því um mikið nauðsynjamál bænda að ræða, og ég vil segja: Er ekki hæstv. Alþ. að gefa með annarri hendinni, en taka með hinni, ef það ætlar að samþ. að skora á ríkisstj. að veita bændum kost á að fá innflutta 750 bíla á ári komanda, en ætlar um leið að segja: Við tökum af ykkur skatt í leiðinni upp á 2 þús. kr., hverjum og einum, og af ykkur öllum upp á 11/2 millj. kr.? Ég mun því bera fram brtt. við till. fjhn. á þskj. 257, 12. a, á þá leið, að orðin „jeppa- og“ falli niður, en það þýðir, að jeppabílar verði undanþegnir þessu gjaldi. — Ég sé, að hv. 2. þm. Rang. skemmtir sér prýðilega, og skil það vel. Hann er annálaður í þinginu fyrir að vilja flytja inn jeppabifreiðar og mun nú fá tækifæri til að sýna, hvort hann vill láta hvern bónda borga þennan skatt. Ég sé, að hann skemmtir sér vel þarna í hliðarherberginu, og skil það mætavel. Hann sér náttúrlega í anda, með hve miklum riddaradómi hann mun ríða um Rangárvöllu og duga til þess að útvega bændum þar jeppabíla. Óska ég honum góðs gengis og alls hins bezta í þeirri yfirreið.

Ég álít, að þessi breyt. mundi nægja. Ég geng að sjálfsögðu út frá því, að þegar ríkisstj. leyfir innflutning á jeppum á komandi ári, þá verði eingöngu miðað við landbúnaðarjeppa og kannske aðra þá jeppa, sem notaðir yrðu til nauðsynlegra starfa óbeint í þágu landbúnaðarins. Þó að hér sé aðeins minnzt á jeppabíla, mundu hinir ensku bílar koma undir þetta líka, því að þeim er ætlað að vinna sama starf og jeppunum. — Mun ég svo leggja fram þessa skriflegu brtt., þar sem hv. þm. N-Ísf. hefur þegar ákveðið að taka till. sína til baka.

Ég held, að ég hafi tekið fram öll atriði, sem ég tel máli skipta á þessu stigi.