16.12.1948
Efri deild: 36. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

Fjarvistir þingmanna

Hermann Jónasson:

Ég þakka forseta fyrir, að hann benti mér á þetta. Ég kom hér á réttum fundartíma, en þá voru ekki svo margir menn mættir, að hægt væri að setja fund, svo að ég skrapp fram til þess að sækja þskj.

Sannleikurinn er sá, að viðvíkjandi fundarsókn hér á Alþingi þarf raunverulega aðra leiðréttingu en breytingu á þingsköpum, að mínu áliti. Það þarf breytingu á vinnuaðferðum í þinginu. Það eru ekki allir, sem hafa geð til þess að taka þátt í þeim störfum, sem stundum eru unnin hér á Alþingi, m. a. þeim störfum, sem fara fram á fundum Sþ., sem að mínu áliti hafa miklu fremur á sér þingmálafundasnið en það snið, sem Alþingi á að hafa á störfum sinum. Og þegar á dagskrá eru hvað eftir annað mál, sem eru slíkur leikaraskapur, eru ekki allir, sem telja sig hafa sérstaka ánægju eða skyldu til þess að taka þátt í því. En þegar eru á ferðinni mál, sem einhverju skipta, læt ég mig ekki vanta.