16.12.1948
Efri deild: 36. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2164 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

Fjarvistir þingmanna

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég verð að þakka hv. þm. Barð. fyrir að hafa hreyft þessu máli hér, það er ekki að ófyrirsynju. Ég ætlaði ekki að fara að tala um það, hverjir eru sekir sérstaklega, en það eru of mikil brögð að því, að menn sæki ekki þingfundi og ræki ekki skyldur sínar, einkum í þessari hv. d., og þetta virðist vera að ágerast, sérstaklega hjá vissum mönnum, en varðandi hv. 7. landsk. skal ég upplýsa, eins og hæstv. forseti hefur gert, að hann hefur legið rúmfastur og verið undir læknisaðgerð og þar af leiðandi ekki getað mætt síðustu daga, en ég geri ráð fyrir, að hann mæti á morgun.

Ég vil segja það út af því, að hv. þm. Str. sagði, að þingstörfin væru með þeim hætti, að menn þyldu ekki að sitja undir þeim, og vitnaði þar í Sþ., að þá má vel vera, að hann og aðrir hafi svipaða skoðun um það. En það réttlætir ekki, að menn séu utan þingsalanna, því að í þingsalnum geta menn verið. Hins vegar rann mér til rifja í gær, þegar forsetinn hér varð að hafa nafnakall um hvert einasta atriði, sem hér þurfti að greiða atkvæði um, vegna þess, hve fáir voru þá í d., og sá ég hv. þm. Str. skömmu áður hér í þinghúsinu, þannig að hann var hér í þinginu. En þannig var nú ástandið, og það er alls ekki til sóma Alþingi, þegar fólk horfir á það, að hv. alþm. vanræki svo skyldur sínar, jafnvel þótt þeir vilji forðast umr., þegar svo ber undir, og vænti ég, að hæstv. forseti reyni með þeirri lipurð, sem hann hefur til að bera, að tala til þeirra manna, sem mest vanrækja skyldur sínar í þessum efnum, og ég og aðrir eiga erfitt með að þola þetta.