16.12.1948
Efri deild: 36. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (3207)

Fjarvistir þingmanna

Hermann Jónasson:

Ég skal ekki ræða þetta frekar, en náttúrlega verða mér og ýmsum öðrum settar reglur um þetta, meðan sú regla er ekki haldin, sem er frumreglan, þ. e. að störfum í þinginu sé hagað þannig, að sæmandi sé fyrir þingið, því að sannleikurinn er sá, að þessu er nú þann veg háttað, að t. d. í gær voru flokksfundir boðaðir á sama tíma og deildarfundir, svo að við framsóknarmenn urðum að skipta mönnunum hjá okkur milli flokksfundar og í Ed., þar sem rætt var um dýrtíðarráðstafanir. (Forseti: Það var enginn flokksfundur í gær.) Það er rétt, hann var í fyrradag. En menn sjá, hve tilgangslaust það er að vera hér með mál, sem engu skiptir, til þess að halda fundi að nafninu til og láta líta svo út sem þingið starfi, er það hefur ekkert verið að starfa. Það koma inn mál rétt fyrir jólin, og það eru vinnubrögð, þegar þýðingarmikil mál eru til umr. hér í hv. Ed., að boða þá flokksfundi um leið. En hvaða mál hafa verið á dagskrá fram til þessa tíma, sem hafa haft þýðingu? Við skulum bara taka upp almennar umr. við þjóðina um þetta. Ég er fús til þess.