18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Út af athugasemd hv. þm. V-Húnv. varðandi tekjuöflun í ríkissjóð vildi ég aðeins minna á það, að hv. þm. var sjálfur einn af trúnaðarmönnum ríkisstj., sem falið var að benda á leiðir til tekjuöflunar upp í þann tilkostnað, sem leiðir af þeim dýrtíðarráðstöfunum, sem nú eru áformaðar, og vil ég ekki skilja hv. þm. þannig, að hann vilji stuðla að því, að sú áætlun, sem hann ásamt öðrum gerði, verði rofin, því að ríkissjóður getur því aðeins tekið á sig skuldbindingar, að hann fái tekjur, sem vega þar upp á móti, og þegar horfið er að því að afla þeirra tekna með háum álögum á innflutninginn, þá vil ég ekki skilja það svo, að hann ætli að draga í land á þessu sviði, því að þá væri ástæða til að hugsa sig um betur, áður en lögin væru sett. Loks bendi ég á, að dýrtíðarsjóður á vissulega að standa undir útflutningsuppbótum á sjávarafurðir, en þó á hann að miklu meira leyti að standa undir útgjöldum ríkissjóðs vegna niðurgreiðslu innlendra vara, og þetta verður því aðeins gert, að sjóðurinn hafi fjármagn, og þetta sjónarmið tel ég, að hv. þm. V-Húnv. hafi viðurkennt með starfi sínu í þeirri nefnd, sem hafði tekjuöflunina til athugunar, og ég hlýt að halda því fram, að hér sé um að ræða samkomulag um innflutning á því magni af vörum, sem tekið er upp í frv. og brtt. Ég vil segja þetta vegna þess, að sá, sem á að bera ábyrgð á fjárhag ríkisins, að nafninu til, hlýtur að krefjast þess, að það séu ekki neinar hillingar, sem stillt er upp, þegar ræðir um tekjuöflun handa ríkissjóði fyrir útgjöldum, sem eru í alþjóðarþágu.