21.01.1949
Sameinað þing: 30. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2169 í B-deild Alþingistíðinda. (3226)

Minning látinns manns

forseti (JPálm) :

Um leið og þingið tekur nú aftur til starfa, vil ég minnast nokkrum orðum fyrrv. alþingismanns, sem fregn barst um í gærkvöld, að látizt hefði í fyrrinótt á 74. aldursári, Kára Sigurjónssonar bónda á Hallbjarnarstöðum á Tjörnesi í Suður-Þingeyjarsýslu.

Kári Sigurjónsson fæddist á Kvíslarhóli á Tjörnesi 2. marz 1875, sonur Sigurjóns Halldórssonar bónda þar og konu hans, Dórotheu Jensdóttur bónda á Ingjaldsstöðum í Bárðardal Nikulássonar Buchs. Hann reisti bú á Hallbjarnarstöðum á Tjörnesi 1904 og bjó þar til dauðadags, en stundaði jafnframt bókbandsiðn, er hann lærði á æskuárunum. Þótt hann væri maður óframgjarn og hóglátur, var snemma tekið eftir greind hans og gjörhygli, og komst hann ekki hjá því að taka að sér ýmis trúnaðarstörf í héraði og þótti leysa þau öll vel og farsællega af hendi, enda var hann sérstakt snyrtimenni í öllum störfum, samvinnuþýður og manna prúðastur í framgöngu og viðskiptum við aðra menn. Af störfum þeim, er hann gegndi í almenningsþarfir, má nefna, að hann var sýslunefndarmaður frá 1912 og hreppstjóri frá 1924, þegar Tjörneshreppi var skipt frá Reykjahreppi. Hann sat á einu þingi, aukaþingi 1933, sem landskjörinn þingmaður og átti sæti í milliþinganefnd í launamálum 1934.

Kári Sigurjónsson var margfróður og víðlesinn, þótt sjálfmenntaður væri, og lærði erlend tungumál af eigin rammleik. Einkum var hann vel að sér í jarðfræði. Í landi jarðar hans er Hallbjarnarstaðakambur með hinum alkunnu surtarbrandslögum. Orð er á því gert, hve vel hann var að sér um allt, er að þessari jarðmyndun laut, og urðu bæði innlendir og útlendir jarðfræðingar, er komu að skoða jarðlögin, furðu lostnir yfir þekkingu þeirri, er bóndinn á jörðinni hafði til að bera í þessum efnum, og fræðslu þeirri og leiðbeiningum, er hann gat veitt í rannsóknum þeirra.

Ég vil biðja háttvirta þingmenn að votta minningu þessa merkilega bónda og sæmdarmanns virðingu sína með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]