18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls, en vegna þess að hv. þm. V-Húnv. var að gagnrýna atkvgr. hér í gær í sambandi við Eimskipafélagið og mína afstöðu. vildi ég segja nokkur orð. Það var helzt á honum að skilja, að ef Eimskipafélagið hefði ekki fengið þessi skattfríðindi þá væri öllu borgið. Ég get sagt honum það, að Sósfl. gerði þetta ekki að flokksmáli, og ég veit ekki til þess, að Framsfl. hafi gert það að flokksmáli fyrr en nú. Það má vera, að sumir af þm. Framsfl. séu óánægðir yfir því að hafa látið binda sig í þessu máli, úr því að þm. Sósfl. voru óbundnir. Framsfl. tekur ekki mikið tillit til verkamanna. þó að bændur geti fengið allt. Það er ekki undarlegt, þótt hv. þm. V-Húnv. gleymi því, að Eimskipafélagið veitir 500–700 manns atvinnu, en við, sem erum fulltrúar fyrir þessa verkamenn, gleymum því ekki. Þó að Eimskipafélagið græði, þarf það ekki að fara í uppbætur til bænda, sem við verðum að borga aftur. Ég álít, og er sannfærður um það, að þetta væri ekki betur farið hjá ríkisstj., eftir því sem hún fer með peningana nú.