11.11.1948
Neðri deild: 13. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (3252)

18. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram brtt. á þskj. 94, þar sem ég legg til, að inn í frv. verði bætt nýrri gr., sem hljóðar eins og þar segir: Ég legg til, að inn í byggingarsamþykkt Reykjavíkur verði sett ákvæði um það, að þeir, sem ætla að reisa íbúðarhús innan kaupstaðarins, geti fengið uppdrætti hjá húsameistara bæjarins bæði af húsinu sjálfu og eins af fyrirkomulagi vatns- og skolpveitna, hita- og rafmagnslagna og öllu því, sem krafizt er, að séruppdráttur sé gerður af. Í byggingarsamþykktinni má ákveða gjald fyrir þessa uppdrætti, en hámark þess gjalds sé 1. kr. fyrir hvern teningsmetra í húsinu. Í annarri málsgr. er lagt til, að þeir menn, sem að mestu leyti byggja hús sín sjálfir, geti fengið leiðbeiningar um verkið og eftirlit með því hjá húsameistara bæjarins eða aðstoðarmönnum hans. Komi eftirlit þetta þá í stað umsjónar meistara með byggingunni, sem skylt er að hafa samkvæmt byggingarsamþ. Sjálfsagt er, að þeir, sem þessara leiðbeininga njóta, greiði nokkurt gjald fyrir þær, en þó ekki hærra en sem svarar 2 krónum fyrir hvern teningsmetra í byggingunni. Tilgangurinn með þessari breytingu er sá, að gera mönnum auðveldara fyrir að koma sér upp húsum. Eins og nú standa sakir er mjög dýrt að reisa hús, og uppdrættir og umsjón byggingarmeistara eru töluverður hluti af þessum kostnaði, en með þessu fyrirkomulagi mundu þeir liðir lækka til muna. Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta mundi verða mjög kostnaðarsamt fyrir bæjarfélagið, sem hvort sem er hefur þessa starfsmenn í þjónustu sinni. Auk þess mundi gjaldið vega nokkuð upp á móti kostnaðinum. Og þótt einhverju skakkaði, mundi það samt vafalaust borga sig fyrir bæjarfélagið, ef það með þessu móti gæti gert mönnum auðveldara að byggja, en nú er.

Þetta mál snertir fyrst og fremst höfuðstaðinn er, er samt engan veginn sérmál hans, þetta er mál, sem snertir alla þjóðina. Húsaleiga er hér mjög há og byggingarkostnaður er hér einnig mjög hár og hærri en annars staðar á landinu. En ef þetta mál næði fram að ganga, gæti það orðið til þess að greiða fyrir þeim, sem ráðast vilja í húsbyggingar. Ég vænti þess því, að brtt. verði vel tekið í hv. deild.