18.12.1948
Neðri deild: 45. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

107. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því, að hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ég notaði ljót orð um heildsalana. Þetta er ekki rétt. Ég sagði, og hafði það eftir skattstofunni, að 200 menn ættu 500–600 millj. kr. í skuldlausum eignum. Þetta er sannað af skattstofunni, og hér er því ekki um neinar getgátur að ræða. Viðvíkandi yfirlýsingu hæstv. menntmrh. vildi ég segja það, að það er orðið dálítið einkennilegt með yfirlýsingar ráðh. Þeir keppast við að gefa yfirlýsingar hver ofan í annan, eins og stj. sé í mörgum pörtum. Er ekki ein stj. í landinu? Hæstv. ráðh. eru svo hræddir hver við annan, að þeir hvítþvo sig undir drep. Hæstv. menntmrh. ógilti tvennar yfirlýsingar á 5 mínútum. Getur stj. ekki komið sér saman um, hvaða yfirlýsingar þm. eiga að taka gildar? Hæstv. menntmrh. sagði, að það, sem hæstv. fjmrh. sagði, væri ekki rétt, og hann sagði líka, að hæstv. forsrh. hefði sagt vitleysu. Vilja ekki hæstv. ráðh. fara út og koma sér saman um nýja yfirlýsingu? Hæstv. menntmrh. sagði, að hv. þm. V-Húnv. hefði aðeins unnið með skrifstofumönnum í stjórnarráðinu að þessu máli. En er hv. þm. V-Húnv. eini þm., sem vann að þessu með tómum skrifstofumönnum, sá eini, sem krafizt var af stjórnmálavits? Hæstv. menntmrh. sagði, að ýmsir möguleikar hefðu verið athugaðir og komið til greina, aðrir en þeir, sem koma fram í frv. Hvaða möguleikar voru það? Var kannske ráðgert að binda vísitöluna við 280 eða 250, eða hvað langt átti að fara niður? Þá lýsti menntmrh. því yfir, og það sagði hann orðrétt, að Framsfl. hefði engin sérstök áhrif haft á frv. Hvernig stendur á þessu? Hæstv. menntmrh. er áður búinn að lýsa því yfir, að þetta frv. sé stórfelld lausn Framsfl. í dýrtíðarmálunum. (Menntmrh.: Þm. ætti að fara til háls-, nef- og eyrnalækni.) Ætlar menntmrh. þá til augnlæknis í staðinn? Ég er hræddur um, að hæstv. menntmrh. verði að fara að athuga, hvað hann segir hér. Hafði kannske enginn sérstakur flokkur áhrif á þetta frv. Var það samið af einhverjum skrifstofumönnum og kastað hér inn, þannig að línurnar duttu úr því. Hefur svo menntmrh. ekki athugað það fyrr en við 3. umr. um málið, hvernig unnið var að þessu, og tekið það ráð að lýsa því yfir, að Framsfl. hefði engin sérstök áhrif haft í ríkisstj. Eftir yfirlýsingu framsóknarmanna nú að dæma lítur út fyrir, að ekki hafi verið um sérstök áhrif að ræða, heldur yfirleitt engin.