16.11.1948
Efri deild: 16. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í C-deild Alþingistíðinda. (3262)

18. mál, byggingarmálefni Reykjavíkur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er nú auðvitað ekki neitt stórmál, en ég vil þó hér við 1. umr. þess koma með athugasemdir, sem ég hreyfði í hv. Nd. í gær, en menn gerðu þar ekki mikið með.

Efni frv. er það, að ætlazt er til, að lögreglustjóri taki við úrskurði nokkurra mála, sem hafa heyrt undir sakadómara, og ásfæðan, sem færð er fram fyrir þessari breytingu, er talin sú, að framkvæmd laganna, eins og þau hafa verið frá 1944, sé of seinvirk og að það sé einfaldara í framkvæmd, að sakadómari fjalli ekki um þessi mál. Málið er flutt af borgarstjóranum í Reykjavík, hv. þm. Snæf. og er skýrt frá því í grg., að það sé gert í samráði við lögreglustjóra, sakadómara og byggingarfulltrúa Reykjavíkur, og þar sem þessir aðilar, sem um þetta eiga að fjalla, eru málinu hlynntir, mætti sýnast ástæðulaust fyrir aðra að vilja annað í þessu efni. En hér kemur til greina, að samkvæmt eðli sínu varðar þetta mál meginstefnu, þá stefnu, hvort dómsstörf skuli heyra undir lögreglustjóra eða ekki. Að undanförnu hefur sú stefna ráðið, að greina á milli dómsstarfa og framkvæmdarvaldsstarfa, og frv. það, sem nú er flutt hér á Alþ., um meðferð opinberra mála, gengur enn þá lengra í sömu stefnu og tekur af sakadómara þau mál framkvæmdarvaldsins, sem undir hann hafa heyrt. En þetta frv. gengur í öfuga átt. Þar ræðir um dómsstörf, sem á að taka af dómaranum. Úrskurði sakadómara í þessum efnum er heimilt að áfrýja til hæstaréttar, og það væri ekki hægt, nema um dómsstörf væri að ræða. Það er því hæpið að taka hrein dómsstörf af dómara og fá þau í hendur framkvæmdarvaldsmanni.

Hv. flm. benti á það í Nd., að nokkur framkvæmdarvaldsstörf væru falin dómurum í hæstarétti og benti á í því sambandi, að með þau dæmi fyrir augum væri ekkert óttalegt við það, að lögreglustjóra væru fengin nokkur dómsstörf í hendur. En því er til að svara, að hér er um frávik að ræða, sem ég tel ástæðulaust, og ég tel það beina afturför í réttarfari, að fá lögreglustjórum dómsstörf, ekki sízt þar sem mig skortir sannfæringu um það, að þessi breyting, ef samþykkt yrði, mundi leiða af sér greiðari afgreiðslu viðkomandi mála en nú er. Ég veit, að afgreiðsluhraða þessara mála er ábótavant, en mig skortir rök fyrir því, að sá galli sé því að kenna, að sakadómari fjallar um málin, og jafnvel rök fyrir því, að þau gætu ekki einnig strandað hjá lögreglustjóra. Ég skal þó játa það, að ef hv. flm. eða aðrir gætu sannfært mig örugglega um það, sem enn hefur ekki tekizt, að þessi breyting mundi greiða mjög fyrir meðferð mála, að þá tel ég ekki frágangssök að samþykkja þetta frv. þrátt fyrir fræðilegan ágalla. Og nú vildi ég biðja þá nefnd, sem fær þetta mál til athugunar, að kynna sér eftir föngum, hverjar líkur eru til þess, að samþykkt þessa frv. greiddi fyrir framgangi mála. Ef n. fær um það öruggar heimildir, að þessi breyting muni leiða til skjótari málsmeðferðar, mun ég ekki beita mér gegn henni. En ef svo reynist ekki munu verða, er ástæðulaust að samþykkja þetta frv.