22.02.1949
Neðri deild: 69. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (3275)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil nú sem 1. flm. þessa frv. þakka n.. fyrir að hafa afgr. málið frá sér til umræðu og atkvgr. hér í deildinni. N. hefur haft það til athugunar alllengi, — því var vísað til hennar 15. nóv. í haust, — og þar sem hún hefur gefið sér rúman tíma til að athuga það, urðu það mér nokkur vonbrigði, að hún skyldi ekki standa einhuga að áliti og afgreiðslu, er gengi í sömu átt og álit minni hl. fer. Þetta mál hefur legið hér áður fyrir þinginu, í hv. Ed. og raunar líka í þessari d., eins og fram kom hjá hv. frsm. minni hl. Það hefur og verið allmikið rætt hér á þinginu. Um rök fyrir því hefur fyrst og fremst verið á það bent, og það gerði hv. 2. þm. N-M. líka, að Hornafjörður er vetrarverstöð fyrir allt Austurland, og hefur svo lengi verið. Einnig hefur verið á það bent, að fiskimiðin fyrir Suðausturlandi verða ekki nytjuð, að fullu a. m. k., nema frá Hornafirði, en reynslan hefur sýnt, að þessi fiskimið eru auðug og hentug fyrir vélbáta. Enn hefur verið á það bent, bæði nú og áður, að þróunin gengur í þá átt, að bátaflotinn fer stækkandi og jafnframt fjölgar veiðiskipunum, og hefur það einkum gerzt með myndarlegu átaki á síðustu árum. En um leið og skipunum fjölgar og þau stækka, þurfa stærri og betri hafnir að koma í kjölfarið, svo að gagn verði að auknum og bættum skipastól.

Öll þessi rök hafa verið skýrð svo ýtarlega við fyrri umræður um þetta mál, að ég tel ekki ástæðu til að lengja umræðurnar nú með því að endurtaka neitt af því. Enn fremur hefur verið minnt á það hér, að staður eins og Höfn í Hornafirði, sem er tiltölulega ungt þorp með mörg óleyst og óunnin verkefni, getur ekki einn ráðizt í þær hafnarframkvæmdir, sem gera þarf, til þess að Hornafjörður verði verstöð fyrir allt Austurland. Það mun einnig vera svo, að þeir staðir eystra, sem kynnu að óska eftir viðlegu á Hornafirði á vertíðinni, hafa sjálfir á prjónunum hafnarmannvirki, sem þeir eiga fullt í fangi með að standa straum af, og fer ég ekki nánar út í þau rök málsins, sem hv. þm. hljóta nú að vera orðin ljós, bæði af ræðu hv. 2. þm. N-M. áðan og fyrri umræðum um þetta mál hér. En ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um till. meiri hl. á þskj. 359, þar sem það er dregið fram og fært til sem rök fyrir því, að ástæðulaust sé að lögfesta frv., að Höfn í Hornafirði njóti nú þegar þeirrar aðstoðar frá ríkinu, sem þar er nánar tilgreind, eða 40% styrks og ríkisábyrgðar fyrir allt að 60% af kostnaði við hafnargerð, o. s. frv., „telur deildin eigi ástæðu til frekari aðgerða í málinu“, eins og segir í dagskránni. Ég fæ nú ekki séð, að í þessu felist nein röksemd gegn landshöfn í Hornafirði. Það mætti ætla af orðalaginu: „Þar eð Höfn í Hornafirði nýtur nú þegar þeirrar aðstoðar“ o. s. frv., að sú aðstoð, sem nefnd er, væri eitthvert happ, sem Hornafirði hefði sérstaklega hlotnazt og þá helzt síðan málið lá hér síðast fyrir þinginu. En það er fjarri því, að slíku sé til að dreifa. Ég hygg, að alllangt sé síðan sú stefna var tekin upp, að ríkið legði fram 2/5 af kostnaði við hafnarframkvæmdir. A. m. k. hefur þetta verið svo lengi sem hafnarlög hafa gilt fyrir Höfn í Hornafirði, og ég held, að þau hafi gilt í 14 ár. Allan þann tíma hefur staðið þar, að 2/5 af kostnaði við hafnarmannvirki væri styrkur frá ríkinu. Það eru því ekki nokkur minnstu rök að koma fram með þetta eins og eitthvað nýtt, sem Höfn í Hornafirði hafi áskotnazt.

Mér finnst eðlilegt að rifja hér lítið eitt upp sögu landshafnanna. — Á þinginu 1942–43 fluttu nokkrir framsóknarmenn till. til þál. um að skipa mþn. í sjávarútvegsmálum, og þessi till. var samþ. á sama þingi og afgreidd sem ályktun Alþingis. Síðan var skipuð mþn. í sjávarútvegsmálum, og í þeirri n. held ég, að hafi verið 4 þm. og 1 maður utanþings. Þessir þm. voru: Sigurður Kristjánsson, 5. þm. Reykv., Finnur Jónsson, þm.. Ísaf., Eysteinn Jónsson, núverandi hæstv. menntmrh., og Lúðvík Jósefsson, þáverandi landsk. þm., núverandi þm. S.-M. Þessi n. kom fyrst fram með þá hugmynd, að byggðar yrðu nokkrar landshafnir, þar sem auðug fiskimið væru undan landi. Þessi mþn. benti á nokkra staði, sem sjálfsagt væri, að kæmu til greina fyrir landshöfn. Fyrst var bent á Keflavík og Njarðvík, enda hafa verið afgr. l. um landshöfn þar. Höfn í Hornafirði var þar ofarlega á blaði. Síðan þessi mþn. skrifaði álit sitt, hefur lítið breytzt um aðstöðu til fiskveiða frá Höfn, en miðin eru þau sömu. Þörfin til úrbóta er söm og þá. Út af fullyrðingum meiri hl. n., að innsiglingin í Höfn í Hornafirði torveldi, að hægt sé að gera þar stórskipahöfn, þá er rétt að benda á, að aðstæður allar að þessu leyti hafa ekkert breytzt síðan mþn. starfaði. Þau rök hv. þm. Ísfirðinga geta því ekki staðizt. Hér er því ekki stefnt að öðru en því að lögfesta þær till., sem mþn. í sjávarútvegsmálum lagði fram, en hv. 5. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf. áttu sæti í þeirri n., sem ég gat um áðan. Hér er því lagt til, að lögfestar séu þeirra eigin till. Hér er verið að hrinda í framkvæmd hugsjón, sem þeir hafa m. a. haldið á lofti. Það ætti því að liggja ljóst fyrir, að fyrsta málsatriðið í hinni rökst. dagskrá er engin röksemd.

Þá kem ég að öðru málsatriðinu. Þar segir, að þeirri einu landshöfn, sem hefur verið lögfest, sé ekki hægt að ljúka vegna fjárskorts ríkissjóðs. Þetta er önnur röksemdin. Nú er hv. þm. kunnugt um, að ríkið leggur fé til margs konar framkvæmda í landinu, en það hefur verið meginstefna Alþ. og fjárveitingavaldsins að láta vinna samtímis að framkvæmdum á mörgum stöðum á landinu. Það þarf ekki annað en að líta á fjárlög fyrri ára til að sannfærast um það, að svo sé. Ef litið er á hafnargerðirnar og athugað, á hvað mörgum stöðum sé unnið samtímis að þeim framkvæmdum, þá kemur í ljós, að um 22 staði er að ræða. Ef litið er á lendingarbætur, þá er um 29 staði að ræða. Sama kemur í ljós, ef brýrnar eru athugaðar. Árið 1948 eru byggðar 25 brýr á landinu, og vegafénu er dreift það mikið, að samtímis er unnið á annað hundrað stöðum að vegagerð.

Sama er að segja um símalagningar og skólabyggingar. Að þessu er unnið á mörgum stöðum samtímis. Það er því alls ekki rétt að lögfesta ekki landshöfn í Höfn á þeim forsendum, að ekki sé lokið þeim framkvæmdum, sem hafizt hefur verið handa um áður. Það brýtur ekki í bága við þá stefnu, sem ríkt hefur undanfarið um verklegar framkvæmdir ríkisins, og er því ekki óeðlilegt að lögfesta landshöfn í Höfn í Hornafirði, þó að unnið sé að öðrum samskonar framkvæmdum víðar um land. Það væri alltaf hægt að þoka málinu áfram engu að síður, en öðrum framkvæmdum. Sem betur fer er vinnuafl þjóðarinnar ekki enn allt á einum stað, og það kann að vera, að heppilegra sé að vinna að byggingu landshafna á fleiri en einum stað, enda sú leið, sem valin hefur verið undanfarin ár um aðrar framkvæmdir ríkisins.

Þá segir enn fremur, að ekki sé lokið fyrirhuguðum framkvæmdum í Keflavík sökum fjárskorts ríkissjóðs. Við höfum nú setið yfir því hér á Alþ. afgr. fjárlög fyrir árið 1949. Það er öllum kunnugt, að þessi fjárlög verða hátt á þriðja hundrað millj., kr., en þetta fyrirhugaða fyrirtæki í Höfn mun kosta um 4,5 millj. kr. Það þarf ekki reikningsglöggan mann til að sjá, að margt af því, sem ríkissjóður hefur lagt fé í undanfarið, orkar meira tvímælis en þetta fyrirtæki. Nú fylgja þessu heldur engar skyldur að leggja fram þessar 4 millj. kr. á fyrsta ári, heldur megi þetta greiðast smám saman. Hér er því ekki það stórt mál, að ríkissjóður geti ekki tekið afleiðingum þess. Þessi rök fá því heldur ekki staðizt.

Þá kem ég að þriðja málsatriði meiri hl. sjútvn. Þar er þess getíð, að ekki sé enn lokið heildarathugunum um landshafnir. Ég hef nú rakið, hvernig hugmyndin um landshafnir er fram komin. Hún er m. a. komin frá hv. þm. Ísaf., Finni Jónssyni, og hv. 5. þm. Reykv., Sigurði Kristjánssyni. Ég tel óþarft að endurtaka það, sem ég gat um út af störfum mþn. þeirrar, sem skipuð var í sjávarútvegsmálum, sem þessir tveir hv. þm. áttu sæti í. En málið hefur verið athugað nánar, frá því að þessir menn bentu á Höfn í Hornafirði sem einn þeirra staða, sem álitlegir væru að þeirra dómi fyrir landshöfn. Staðhættir voru því athugaðir að nýju við Höfn og þær áætlanir endurskoðaðar, sem fyrir lágu, og á þeim áætlunum er þetta mál byggt. Til viðbótar við þetta liggur fyrir grg. um málið frá vitamálastjóra, þar sem hann telur, að Höfn í Hornafirði eigi að vera í flokki nr. 1 sem landshöfn. Það segir orðrétt um þetta frá vitamálastjóra, með leyfi hæstv. forseta: „Því, í hvaða röð ég telji, að landshafnir eigi að koma, vil ég því til svara, að ég set númer eitt Höfn í Hornafirði, annaðhvort sem landshöfn eða þá að séð verði um með öðrum hætti, að fiskútflutningshöfn geti vaxið þar fljótlega upp.“ Þegar þetta liggur fyrir, er augljóst, að þessi rök fá heldur ekki staðizt.

Þegar rök meiri hl. sjútvn. og framburður vitamálastjórnarinnar og önnur málsatriði eru greind í sundur, þá liggur ljóst fyrir, að andstaðan gegn frv. er byggð á tylliröksemdum einum saman. Er því eðlilegast, að Alþingi felli hina rökst. dagskrá og afgr. frv. í því formi, sem það nú liggur fyrir.