24.02.1949
Neðri deild: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (3280)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Pétur Ottesen:

Það eru aðeins örfá orð. Út af ummælum hv. þm. A-Sk. um það, að ég hefði á þinginu 1945 tekið þátt í að flytja frv. um landshöfn í Njarðvík, þá vil ég algerlega mótmæla þessu. Ég var ekki í sjútvn. þá og átti engan þátt í flutningi þess máls og greiddi atkv. á móti þessu frv. á Alþ., og þess vegna taka þessi ummæli hv. þm. A-Sk. alls ekki til mín, og er því ekki um neinn hringsnúning hjá mér að ræða í þessu máli, og ég hef sömu afstöðu til þess nú eins og þá. — Úr því að ég stóð upp, þá vil ég benda á það, að ég tel þetta mjög óskynsamlega leið, að hverfa frá þeim ákvæðum, sem nú gilda um það að byggja hafnir hér á landi. Þetta eru ákaflega dýr og fjárfrek verk, og þess vegna er það nauðsynlegt að sameina sem flesta aðila um framkvæmd þessara mála, bæði frá því sjónarmiði séð, að nauðsyn er á því, að hafizt verði handa um slík verk, og auk þess og ekki síður frá því sjónarmiði að fá sem breiðastan grundvöll undir þá fjáröflun sem þarf til þess að geta komið slíkum verkum í framkvæmd. Þróun þessara mála hér hjá okkur hefur verið sú, að það er farið ósköp hægt af stað með fjárframlag ríkissjóðs til slíkra framkvæmda. Það er byrjað með því, að þetta nemur ¼, sem veitt er úr ríkissjóði til slíkra framkvæmda, og þeir aðilar, sem að framkvæmdinni stóðu, urðu að bera málið uppi fjárhagslega að öðru leyti. Til viðbótar þessu voru sett l. um, að ríkissjóði sé auk þess heimilt að ganga í nokkra ábyrgð um sumar framkvæmdir, eða lendingarbætur, gildir það, að veittur er nokkur styrkur til slíkra framkvæmda, en engin ríkisábyrgð. Þetta hefur þá þróazt þannig. Og svo var framlagið úr ríkissjóði hækkað upp 1/3, og nú er komið svo, að hæsta framlag í þessum efnum er 2/5 á móti 3/5 frá viðkomandi aðila. Þetta er sá grundvöllur, sem þessi löggjöf hvílir á, og nú hefur þetta verið fært út þannig, að um sumar framkvæmdirnar hefur framlag ríkissjóðs orðið allt að helmingi kostnaðar. En í öllum þessum tilfellum er auk þess veitt ríkisábyrgð fyrir verulegum hluta af því fé, sem viðkomandi aðilar eiga að bera uppi, eða 85% af þeirri upphæð. Þetta er sú þróun, sem þessi mál hafa tekið, og hún verður að teljast ákaflega eðlileg, eins og málum er komið hjá okkur. Einasta frávikið, sem hér er um að ræða, er þessi svokallaða landshöfn í Njarðvík. Hvernig hefur þetta þróazt? Undanfarin 2 ár hafa verið miklar hafnarframkvæmdir hér á landi, á grundvelli þessarar löggjafar og aldrei meiri en á þessum árum. En hvernig er með landshöfnina í Njarðvíkum? Þar hefur ekkert verið gert. Það var lítils háttar unnið 1947, en annaðhvort ekkert eða sama sem ekkert 1948, og menn á þessu svæði, við innanverðan Garðskagann, eru alveg í vandræðum og á flæðiskeri staddir með sína útgerð. Á grundvelli núverandi almennrar löggjafar var búið að hrinda af stað ýmsum framkvæmdum, og við það búa þeir. Við hina hliðina á þessari landshöfn hefur þessi ár einnig verið varið allmiklu fé til þess að koma upp höfn, sem sé í Vogum. Það hefur verið eðlileg þróun í hafnarbótum yfirleitt, samtímis því sem allt hefur staðið í stað í Njarðvík, m. ö. o., allar hafnarframkvæmdir í landinu eru í fullum gangi þessi ár og þar skilar meira áfram en nokkru sinni áður, en við landshöfnina í Njarðvík hefur ekkert verið unnið, svoleiðis að mér virðist reynslan í þessu efni alveg augljós og nægileg um það, að það á ekki að stíga fleiri víxlspor en þegar hefur verið gert í þessu efni, því að það er ekki neinum til góðs, heldur til þess að stöðva framkvæmdir — samkvæmt reynslunni, þar sem slíkt hefur verið gert.

Á Hornafirði hefur framkvæmdum líka verið haldið áfram á þessum árum, og allmikið var unnið s. l. ár og langt fram á vetur. Það hefur verið unnið að því að dýpka höfnina þar, sem er nauðsynleg framkvæmd eins og þar er ástatt. Þess vegna er það áreiðanlega ekki til framdráttar fyrir Austfirðinga eða Hornfirðinga, að horfið verði frá hafnargerð á þessum stað á grundvelli núverandi löggjafar, það væri til þess að skapa þar kyrrstöðu — samkvæmt reynslunni frá Njarðvík — í stað eðlilegrar þróunar, eins og verið hefur. Það er af þessum ástæðum, sem ég hef nú verið flm. að þeirri rökstuddu dagskrá, sem hv. form. sjútvn. þessarar d. hefur gert hér skilmerkilega grein fyrir, og við það er engu að bæta af minni hálfu eða okkar annarra úr meiri hl. n. En að gefnu þessu tilefni frá hv. þm. A-Sk. vildi ég leiðrétta þann misskilning, sem fram kom hjá honum, að ég hefði snúizt í þessu máli, — það er síður en svo.