24.02.1949
Neðri deild: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (3281)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson) :

Herra forseti. Ég get verið heldur stuttorður um þetta mál og mun reyna að komast hjá því að gefa hv. þm. A-Sk. tækifæri til einnar slíkrar ræðu eins og hann hélt hérna í fyrradag. Hann hélt því fram, að við Sigurður Kristjánsson hefðum tekið afstöðu með landshöfn í Höfn í Hornafirði með aðgerðum okkar í milliþn. í sjávarútvegsmálum. En í milliþn. lögðum við til, að nokkrir staðir væru rannsakaðir með tilliti til þess, hvort heppilegir væru til þess að gera þar hafnir. En það, að láta rannsaka einhvern stað, hvort heppilegur sé, það getur engan veginn verið skuldbinding um, að maður sé reiðubúinn til að ákveða, að á þeim stað skuli koma landshöfn. Í raun og veru ætti ekki að vera nein þörf á að útskýra þetta, en að marggefnu tilefni hv. þm. A-Sk. geri ég þetta. Sömuleiðis var landshöfn í Njarðvíkum einn staður, sem milliþn. lagði til, að yrði rannsakaður. Þetta á hv. þm. erfitt með að skilja, þó að það skýri sig reyndar sjálft. Hv. þm. vildi gefa skýringu á fækkun þeirra báta, sem gerðir eru út frá Hornafirði. Hann segir, að þrátt fyrir bættan aðbúnað bátanna, þá fari þeim nú fækkandi, og nú sé svo komið, að stærsti báturinn sé ekki gerður þaðan út. En það er ekki vegna slæmra hafnarskilyrða. Ég held, að hvergi séu svo stórir bátar sem þessi, er um ræðir, gerðir út á lóðaveiðar annars staðar á landinu, nema ef til vill á stöku stað hér við Faxaflóann. Og ástæðan er alls staðar sú sama: bátarnir eru af óhentugri stærð fyrir lóðaveiðar.

Hv. þm. Borgf. drap á það í ræðu sinni, að það hafi ekki verið unnið meira hlutfallslega í Njarðvík að hafnargerðinni, eftir að l. um landshöfn þar hefðu verið samþ. Landshafnarl. hafa kippt burtu framlagi sveitanna, sem höfðu áhuga á málinu. Þó mun eitthvað hafa verið unnið í Njarðvík í sumar, en miklu minna en æskilegt hefði verið, og ég er ekki viss um, að það hefði verið unnið neitt minna, þó að sveitin hefði átt að hafa allt á hendi. Það er þess vegna að vissu leyti rétt, það er engin trygging fyrir því, að hafnir verði byggðar örar, þó að sett séu l. um landshafnir, einkum með tilliti til fjárhags ríkissjóðs eins og hann er nú. Ég held þess vegna ekki, að íbúum í Höfn í Hornafirði sé neinn greiði gerður með því að fara nú að breyta til og fara að lofa framlagi til landshafnar í Höfn í Hornafirði og taka upp á fjárlög, enda er það nokkurn veginn víst, að ekki eru mikil líkindi til þess, að bein framlög verði aukin til slíkra framkvæmda á næsta ári. Nei, ég held, að það, sem hv. þm. A-Sk. fer hér fram á, séu gylli- eða tyllivonir, sem hann ætlar sér að veifa framan í hv. kjósendur sina við næstu kosningar.

Út af því, sem frsm. minni hl. sagði, að ég væri þessu andvígur, af því að ég vildi halda fram annarri höfn, sem ég vildi, að yrði gerð að landshöfn, þá vil ég taka það fram, að um það liggja ekki fyrir neinar tillögur, og mundi ég á sama hátt og hér er lagt til greiða atkv. með till. um rökst. dagskrá.

Nei, þetta eru ekkert annað en kjósendaveiðar og það lélegar kjósendaveiðar, þar sem það er vitað, að þó að um þetta fengjust lög, þá væri ekki hægt að framkvæma þau.