24.02.1949
Neðri deild: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (3282)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki getað fylgzt með umr. um þetta mál, en langar þó til að ræða það almennt.

Það hefur glöggt komið fram í umr. þeim um þetta, sem ég hef haft tækifæri til að hlusta á, að það er ríkjandi nokkur misskilningur á þessu hugtaki: landshöfn. Ég tók eftir því í ræðu hv. frsm. meiri hl. sjútvn., að hann telur litla möguleika á því að koma upp landshöfn eða stórskipahöfn í Höfn í Hornafirði. Og af því að erfitt er að koma upp landshöfn þarna, með merkingunni stórskipahöfn, þar sem allur skipastólinn gæti verið, þá er skiljanlegt, að hann dragi það við sig að gera landshöfn í Hornafirði. En þessu er á annan veg varið, enda kom það fram hjá milliþn. í sjávarútvegsmálum, þegar hún ræddi málið og gerði sínar ályktanir. Það, sem sú milliþn. festi augun við, var það, að það voru allmargir staðir, þar sem nauðsynlegt var að gera hafnarbætur vegna fiskibátaflotans, en hins vegar háttar svo til heima fyrir, að það var hvorki beinn hagur að því fyrir íbúana þar né heldur bolmagn til þess að standa í þeim stórræðum að koma þar upp höfn fyrir bátaflotann. Svona er það í Hornafirði. Þar er meiri hl. bátanna, sem stunda þar veiðar á vetrarvertíðinni, aðkomubátar, ekki aðeins af Austurlandi, heldur líka frá Húsavík og jafnvel þorpunum við Eyjafjörð. Þessir bátar hafa róið þarna yfir vetrarvertíðina og aflað yfirleitt vel. Þessi litli hreppur hefur ekki beinan áhuga á því sjálfur og heldur ekki fjármagn til þess eða getu að koma þarna upp almennilegri höfn fyrir fiskibátaflotann, sem að gagni mætti koma. Svipað hefur staðið á í Sandgerði. Þar eru fyrir utan ein allra beztu fiskimið hér við land. Þar er líka lítill og fátækur hreppur, sem staðið hefur að hafnargerð, en vitanlega hefur hann ekki treyst sér til þess að gera það, sem þyrfti að gera fyrir bátaflotann. Það voru þessar staðreyndir, sem gerðu milliþn. það ljóst, að það var ekki á þeirra færi að leggja í þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar voru og aðkallandi fyrir bátaútveginn. Þegar milliþn. var að hugsa um það, hvernig hún mundi bezt styðja sjávarútveginn, þá sá hún, að þarna var mikið verk og nauðsynlegt að vinna. Till. hennar miðuðu því fyrst og fremst að því að skapa ríflega aðstoð til þess að koma upp höfnum fyrir fiskibáta, ekki landshöfn eins og í Njarðvíkum, þar sem skip af öllum stærðum gætu athafnað sig í hvaða veðri sem er, heldur fyrst og fremst höfnum fyrir fiskibátaflotann. Milliþn. gerði sér ljóst, að Sandgerði og Hornafjörður þyrftu höfn af annarri tegund, en þessi í Njarðvík. Þetta liggur fyrir á Hornafirði. Þar eru aðstæður orðnar mjög óheppilegar með stækkuðum bátum. Bátum hefur fækkað þar á nokkrum árum úr 35 niður í 11. Norðurlandsbátarnir og Austfjarðabátarnir hafa nú flestir flutt sig hingað suður, sem áður stunduðu róðra frá Hornafirði. Allgóð fiskimið hafa legið litið notuð, en hér er beitt svo mörgum bátum, að hver blettur er ofsetinn, svo að það hefur valdið þjóðhagslegu tjóni í mörgum tilfellum.

Það er því mín skoðun, að ekki beri að fara út í það að gera landshöfn í Hornafirði, landshöfn af þeirri tegund, að stór hafskip geti athafnað sig þar. Til þess þyrfti of mikið fé og er of örðugt. En hitt er mér jafnljóst, að þarna er hægt að gera ágætis fiskibátahöfn. Innsiglingin er engan veginn svo slæm, að hún verði til þess að draga úr sjósókn, og hana er hægt að tryggja með viðráðanlegum kostnaði. Þá væri hægt að fá góða fiskibátahöfn og örugga. Hins vegar er engin von til þess, að þessi litli hreppur hafi bolmagn til þess að ráðast í þetta. Það segir sig sjálft, að lítill hreppur, jafnvel þó að hann fengi 30–40% af 3–4 millj. af fjárlögum og þó að honum tækist að snúa sér út hin 60% með ríkisábyrgðarlánum, sem er nú reyndar mjög erfitt, jafnvel þó að ríkisábyrgð sé, þá er það mjög hæpið, að svo lítill hreppur geti staðið undir slíkum skuldbindingum nema með meiri stuðningi frá ríkinu.

Þm. verða því að greiða atkvæði um það, hvort ríkið á að hlutast til um þessi mál, hvort þarna eigi að veita aðstoð til þess að leysa þessi mál eða hvort það eigi að láta það danka áfram allri þjóðarheildinni til tjóns. Þarna er um að ræða byggingu fiskibátahafnar, en ekki landshafnar, sem er fær flestum stærðum skipa í hvaða veðri sem er. Því hefur verið fleygt fram, að síðan landshafnarlögin um Njarðvíkurhöfn voru samþykkt, hafi lítið verið unnið, en það sannar engan veginn, þó að einhver gagnleg mál hafi verið vanrækt, að ekki sé hægt að koma upp fiskibátahöfn. Auk þess verð ég að segja það, að þegar l. voru sett um Njarðvíkurhöfn, þá varð í raun og veru breyting á þannig, að Keflavíkurhöfn var gerð að landshöfn, og þá var mest hætta á því, að áhuginn dofnaði við Njarðvíkurhöfnina. Það hefur gefizt býsna vel að veita styrk úr ríkissjóði ásamt ríkisábyrgð. Það er rétt, að mikið hefur verið byggt af höfnum, og í öllum greinum hefur þetta staðið þannig, að þetta form hefur getað gilt, þar sem sveitar- eða bæjarfélög hafa byggt yfir sína báta eigin höfn. En þetta á ekki við, þegar verið er að byggja höfn fyrir aðkomubáta. Af þessum ástæðum er það alveg nauðsynlegt að gera breytingu á þessu fyrirkomulagi til þess að leysa þennan vanda. — Ég ætla svo ekki frekar að fjölyrða um þetta, en ég vildi aðeins láta það koma fram, að ég tel það mjög mikilsvert, að ríkið láti byggja þarna fiskibátahöfn og síðan á fleiri stöðum, og ég vil biðja hv. þdm. að blanda ekki saman því, að hér sé um að ræða hafskipahöfn, né heldur, að hv. þm. séu með þessu að ívilna sérstaklega litlum bæ og ekki sé þar þörf fyrir betri höfn.