24.02.1949
Neðri deild: 70. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í C-deild Alþingistíðinda. (3283)

65. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef nú hlustað á þessar umr. um landshöfn í Hornafirði og langaði til þess að segja nokkur orð, áður en málið verður afgreitt, og upplýsa það nokkuð, svo að menn geti myndað sér skoðanir um það. Ég hef fylgzt með þessu máli frá upphafi. Ég veit, að Höfn í Hornafirði liggur nálægt einhverjum auðugustu fiskimiðum heimsins og hefur möguleika til hagnýtingar þeirra. Hins vegar skortir Hornafjörð flest til þess að nýta þau. Innsiglingin er erfið. Það er skerjótt fyrir utan höfnina. Innsiglingin er svo straumhörð mestan hluta sólarhringsins, að ekki er hægt að komast inn eða út. En þegar inn er komið, þá er þar allgott skjól, en höfnin er grunn, legupláss skortir, og stundum er mikið ísrek þar inni. Í landi eru litlir möguleikar til þess að nýta aflann. Þar er ekki hraðfrystihús, og það er lítið um verbúðir. Það, sem þarna þyrfti að gera, mundi kosta svo tugum milljóna skipti. Það eru því litlar líkur til þess, að lítið hreppsfélag geti staðið undir þeim kostnaði, sem slíkar framkvæmdir hefðu í för með sér. En ef þessi hafnargerð er fjárhagslega trygg, þá á hreppsfélagið að geta staðið fyrir þessari framkvæmd, því að ríkið veitir með láni og ábyrgð 100% stofnkostnaðar. En ef hér er um að ræða starfsemi, sem getur ekki staðið undir sér að öllu, en um það verður ekkert sagt í upphafi, þá er hreppsfélaginu ofviða að gera það. Hins vegar tel ég möguleika til, að hreppsfélagið gæti gert verulegan hlut af þessari framkvæmd, þá hluti, sem mest eru aðkallandi, dýpka leiðina, gera legupláss og annað þess háttar, og sjá svo, hvort aðrir, sem hafa hagsmuna að gæta, mundu ekki leggja eitthvað fram til að gera ýmsar aðkallandi framkvæmdir í landi, svo sem verbúðir og frystihús. Vera mætti, að kaupfélagið, sem er þarna allstórt, legði eitthvað fram, útgerðarmenn og fleiri slíkir.

Mér er ljóst, að það er talsvert vandamál, á hvern hátt þessum framkvæmdum verður komið á. En ég stóð aðallega upp til að skýra, hvernig reynslan hefur orðið á þeim eina stað, þar sem l. um landshöfn gilda, Njarðvík og Keflavík. Það var stofnað til þessarar hafnargerðar fyrir nokkrum árum og hafizt handa um framkvæmdir. En alla tíð, síðan l. voru samþ., hefur Alþ. ekki veitt nokkurn skapaðan hlut til þessarar framkvæmdar, svo að það, sem hefur verið gert, hefur allt verið gert fyrir lánsfé. M. ö. o., ég tel, að Höfn í Hornafirði væri litlu bættari, ef sami háttur yrði þar á og í Keflavík, fyrir það, að Alþ. léti ekki nokkurn eyri til framkvæmda, en það lítið, sem fengist, væri allt að láni. Fyrstu árin gekk ekki vel með lánsútvegun í Keflavík, en fékkst þó nokkuð, en eftir því sem þrengzt hefur á lánamarkaðinum, hefur alltaf verið erfiðara að fá lán, eins og hv. þm. Borgf. minntist á og síðustu ár hefur lítið verið gert. Þó var árið sem leið gert nokkurt átak. Það var byggð stór bátabryggja í Keflavík og byrjað á garðbyggingu í Njarðvík fyrir samtals nokkuð á aðra millj. króna. En þetta fé var útvegað með því að selja ríkisskuldabréf á staðnum. Menn í Keflavík og Njarðvík, sem höfðu áhuga fyrir hafnarbyggingunni, tóku að sér að útvega féð. Eftir að ríkissjóður hafði fengið nei hjá lánsstofnunum um fé til þessarar framkvæmdar, þá var það eingöngu fyrir dugnað og harðfylgi heimamanna að selja þessi bréf, að það tókst að fá nokkurt fé til hafnarbyggingarinnar. Nú veit ég ekki, hvort þessi möguleiki er til á Hornafirði, en ég efast um það, a. m. k. í stórum stíl. Ég efast um, að þar sé hægt að komast nokkuð áleiðis á sama hátt og í Keflavík.

Í öðru lagi vil ég segja það, að ef Alþ. veitir fé til landshafnargerðar, þá tel ég, að Keflavík og Njarðvík ættu að fá bróðurpartinn af þeirri fjárveitingu, en taka hana ekki til annarra framkvæmda, og sömuleiðis ef um lánsfé er að ræða til landshafnar, sem ríkið ætti kost á, þá tel ég, að Keflavík og Njarðvík eigi verulegan rétt á, að þar verði haldið áfram, en ekki verði skipt í fleiri staði.

Loks vil ég geta þess, að fleiri staðir hafa komið til athugunar sem væntanlegar landshafnir, eins og Rif á Snæfellsnesi, sem hefur verið talað um að gera að landshöfn, og hafa þar einnig farið fram athuganir, sem gefa góða raun, en því hefur ekki heldur verið unnt að koma áleiðis vegna fjárskorts. Ég held því, að þótt þetta frv. yrði að l., þá yrði að þeim engin bót fyrir íbúana á Höfn í Hornafirði og þá aðra, sem þangað sækja úr öðrum landshlutum, nema um leið sé séð fyrir þeim fjármunum sem þyrfti til að gera þessa höfn. Og ég leyfi mér að efast um, eins og mál standa nú, að hægt sé að útvega nægilegt fé.

Við skulum hugsa okkur, hvernig færi, ef samþ. yrðu l. um landshöfn í Hornafirði, en ríkissjóður ætlaði ekki fé til hafnargerðarinnar í fjárl., og tækist ekki, a. m. k. ekki að verulegu leyti, að útvega fé til hennar með láni. Þá er um leið komin alger stöðvun á þær byrjunarframkvæmdir, sem þegar hafa verið hafnar á staðnum. Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég skilji ekki þá þörf, sem á staðnum er fyrir þessar framkvæmdir. Ég veit, að hún er mjög brýn, en ég tel ekki neina tryggingu fyrir, að úr þeim þörfum verði bætt með því að samþ. þetta frv. Það gæti meira að segja svo farið, að samþykkt þessa frv. yrði til að tefja fyrir verkinu, en það skilst mér, að sé ekki meining þeirra, sem málið flytja. En því aðeins tel ég frv. fara í rétta átt, að unnt sé að tryggja fé til að hefja framkvæmdir á þeim grundvelli, sem l. gera ráð fyrir.

Ég þarf svo ekki fleira að segja. Ég vil aðeins benda á, að hafnargerðir eru ákaflega kostnaðarsamar framkvæmdir. Nú standa yfir hafnargerðir kringum allt land, sem á hverju ári hefur verið eytt í 5–12–15 millj. kr. Það er ekki vafi, að bygging þessara hafna að fullu, sem hafnar hafa verið framkvæmdir við, kostar svo skiptir hundruðum millj. kr. Það er því ekki óeðlilegt, þó að einhver dráttur verði á, að framkvæmdir verði gerðar að fullu, þegar ekki er veitt nema 5–15 millj. kr. á ári, og þó hafa framkvæmdir verið með allra mesta móti undanfarin ár. Ef hægt væri að koma málum þannig fyrir, að hægt væri að hafa færri hafnargerðir í takinu og taka fyrst þær, sem brýnust væri þörfin fyrir, þá væri hægt að framkvæma þessi mál með meiri skynsemi. En vegna ýmissa aukasjónarmiða verður að hafa allan þennan fjölda hafna í takinu og gera lítils háttar framkvæmdir í senn, sem koma að mjög takmörkuðum notum, í stað þess að verja verulegri upphæð til nokkurra hafna, eins og Hornafjarðar, því að ég vil taka hann í röð fyrstu hafna, þar sem gera ætti umbætur, sem munaði verulega um. Hvort þær framkvæmdir yrðu undir því formi, sem hafnarframkvæmdir hafa nú, eða landshafnaformi, legg ég ekki mikið upp úr. Hitt er aðalatriðið, að einhverri skynsemi sé hægt að koma á við þessar framkvæmdir. En þetta frv. gerir sennilega hvorki til né frá, þó að ég telji, að sú hætta geti falizt í því, að það hafi gagnstæðar verkanir við það, sem til er ætlazt, og við því vil ég vara.

Ég tel því, að ekki sé ástæða til annars, eftir því sem fyrir liggur, en greiða atkv. með þeirri rökst. dagskrá, sem meiri hl. sjútvn. ber fram, og það mun ég gera. En það ber á engan hátt að skoða sem andstöðu við þessa framkvæmd, síður en svo, því að ég hef alla tíð verið því hlynntur, að þessi höfn sé í fremstu röð, en ég er aðeins tortrygginn á, að þessi aðferð, sem hér er stungið upp á, verði nokkuð hagkvæmari en það, sem nú er í gildi.